Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

3. fundur
Föstudaginn 19. maí 1995, kl. 14:12:56 (79)


[14:12]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég held að þetta síðasta varðandi flutning á áfengi milli landa sé ekki komið alveg í þessa höfn en þó kann það að verða að það fylgi með. En þetta er nú þegar býsna rúmt. Veit hæstv. fjmrh. hvað Svíar mega nú taka af áfengi inn í landið í krafti aðildar að Evrópusambandinu? Þeir geta tekið lítra af sterku, fimm léttar og tvo kassa af bjór. Þetta hefur rýmkað alveg stórkostlega þessi réttur til að taka með sér áfengi inn í Svíþjóð og auðvitað sjá allir að það mun væntanlega leiða til meiri notkunar, það er a.m.k. ályktun flestra að það leiði til þess. Og svo kann að vera hins vegar að þetta breytist ef Svíar verða aðilar að Schengen, það má vel vera.
    Um það hvort þetta hafi riðið baggamuninn varðandi stuðning við EES hér á landi. Ég hélt því ekki fram. Ég býst við að það sé rétt ályktun. En af því að hæstv. fjmrh. nefndi þjóðirnar fjórar sem hefðu staðið að þessu þá þurfti kannski ekki nema eina til að vera sannfærð til að geta talið þingmönnum trú um það svona fyrir fram að hægt væri að viðhalda áfengiseinkasölu hjá sér, að það hefði verið nóg til að draga hinar með inn í spilið. Allir þekkja nú dómínó-kenninguna sem hefur verið býsna áhrifamikil í sambandi við þessa vél alla.