Erfðabreyttar lífverur

11. fundur
Miðvikudaginn 31. maí 1995, kl. 13:36:55 (351)

[13:36]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir að það var tekið tillit til óska minna um það að 1. umr. um þetta mál lyki ekki á mánudaginn var en ég var þá staddur erlendis við skyldustörf. Ég vildi koma á framfæri við 1. umr. þessa máls nokkrum sjónarmiðum sem snerta þetta frv. sem hér er flutt, einstök ákvæði þess og atriði sem ekki er fjallað um í frv. Það var kannski ekki síst síðari þátturinn sem ég hef nokkrar áhyggjur af í sambandi við það hvernig á þessu máli er tekið hér og ekki eingöndu hér á landi heldur víðar.
    Við erum að ræða hér frv. til laga um erfðabreyttar lífverur og það tekur á máli sem vissulega er tímabært að fjalla um í löggjöf og þó fyrr hefði verið. Undanfarin nokkur ár hefur það verið boðað af stjórnvöldum að frv. um þetta efni væri væntanlegt í tíð fyrri ríkisstjórnar en það er fyrst nú sem það er lagt hér fyrir Alþingi Íslendinga. Þetta er því frumraun þingsins í að taka á einu af stærstu málum samtímans sem varðar íhlutun mannsins inn í erfðastofna annarra lífvera með það að markmiði að þjóna sínum hagsmunum, þ.e. hagsmunum mannsins, og í sambandi við atvinnustarfsemi að því er varðar framleiðslu og notkun á afurðum slíkra erfðabreyttra lífvera.
    Ég fullyrði, virðulegur forseti, að þetta er eitthvert allra stærsta mál sem hefur komið fyrir Alþingi Íslendinga um langt skeið. Ekki vegna þess að það skipti sköpum í dag eða á morgun hvaða texta við samþykkjum hér sem lög í þessu efni heldur hvert menn eru að stefna með slíkri löggjöf og hvaða hugmyndir liggja þar að baki um rétt mannsins til að grípa inn í þróun og ferli annars lífs, lífs sem er forskrifað af náttúrunni og sem hefur þróast í náttúrunni, oftast á mjög löngum tíma en með líftækninni og þeirri nýtískulegu beitingu sem hefur verið að þróast í líftækni að því er varðar möguleika á erfðabreytingum sl. 10--20 ár, aðallega síðustu 15 árin þá eru menn komnir inn á alveg nýtt svið hvað snertir möguleikana til þess að skapa nýja erfðaeiginleika, breyta eðli lífvera og grundvelli lífvera og búa til nýja erfðastofna, ný afbrigði og nýjar tegundir. Því hvar liggja mörkin?
    Án þess að vera að draga upp einhverjar hræðslumyndir, virðulegur forseti, í sambandi við þetta vil ég rifja upp bók sem ég las fyrir löngu síðan og hef nú ekki haft tíma til að útvega mér af safni nýlega þannig að það litla sem ég segi þar að lútandi er eftir minni. Það eru sjálfsagt ein 20--30 ár síðan ég las verkið. Ef ég man rétt þá er höfundurinn franskur og ber skáldaheitið Vercors. Hann skrifaði bók á stríðsárunum sem hét Þögn hafsins, ,,Le silence de la mer`` á frönskunni sem vakti mikla athygli en hann hélt áfram, og hann tók m.a. á efni sem varðar það sem við erum að ræða hér og ég held að titillinn á ensku því ég las þetta verk á ensku hafi verið Landamærin eða Borderline, landamörkin. Efnið sem hann tekur á er það að framið er morð í London og það er tilkynnt löggæslunni, það er tilkynnt lögregluyfirvöldum sem koma á vettvang og finna látna lífveru sem þeir telja vera mann en síðan liggur það fyrir með vottun þegar málið fer fyrir rétt að hér er um að ræða kynblending úr manni og apa. Og breska réttarkerfið stendur frammi fyrir þeirri spurningu: Hvernig á að dæma í málinu? Er þetta mannvera? Ber að fara með þetta morð í samræmi við þá löggjöf eða ekki? Þetta var framsýnn texti og framsýnar spurningar sem þarna voru á ferðinni. Það er í rauninni þetta efni sem við erum að fjalla um hér í sambandi við erfðabreyttar lífverur. Ekki að vísu þannig að við séum að tala um það, virðulegur forseti, að það verði uppi þau tilvik á allra næstu árum að það verði framleiðandi sem óski eftir því að sleppa lausum kynblendingi manns og apa hér á Íslandi og hvort Alþingi Íslendinga eigi að leyfa það. Ég á ekki von á að það verði alveg á allra næstu árum. En þetta mál blasir við í ekki fjarlægri framtíð. Slík er tæknin orðin, slík er íhlutunin orðin gagnvart lífi að menn verða að spyrja sig siðferðilegra spurninga og draga það ekki að svara þeim. Slík er þróunin sem hér er verið að hleypa af stokkunum og í rauninni að lögleiða hér á landi, með ýmsum varúðarráðstöfunum sem einkenna vissulega þetta frv. --- og það er út af fyrir sig góðra gjalda vert, það er auðvitað sótt í Evrópubankann, þ.e. inn í ,,dírektív`` eða reglugerðir Evrópusambandsins, sem er tilefni þess að nú á að fara að drífa þetta mál hér í gegn, hæstv. ráðherra. Ef ég skil rétt þá er hugmyndin að nota þetta örstutta sumarþing til þess að skjóta þessu máli hér í gegn og lögleiða.
    Ég sagði það í upphafi að það hefði þurft að fjalla um þessi efni þó fyrr hefði verið og ég hef á liðnum árum verið að safna að mér ýmsu um þessi efni og hafði það í huga að hreyfa þessu máli hér á Alþingi. En það er búið að boða það í nokkur ár að frá stjórnvöldum væru að koma tillögur og því hefur maður dregið það við sig að fara í þá vinnu að taka þetta mál upp í formi frv.
    Ég vil vekja athygli þingheims á eðli og stærð þessa máls við 1. umr. Og ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess að ætla þinginu eðlilegan tíma til að fjalla um málið. Sá tími er ekki gefinn á einum eða tveimur vikum sem við höfum hugsanlega til ráðstöfunar því auðvitað verður þingið að vanda sig mjög þegar í fyrsta sinn er verið að taka á frv. sem tengist þessari nýju tækni, þessari nýju íhlutun. Þó menn telji sig bundna af einhverjum alþjóðasamningum þá skulu menn gæta sín í þeim efnum og fara a.m.k. ekki lengra en skynsemin býður og ýtrasta nauðsyn krefst með tilliti til annarra skuldbindinga. Og ætla sér þá tíma og setja upp einhverja verkáætlun um það að vinna sig áfram í málinu. Ekki bara í lokaðri fámennri sérfræðinganefnd, eins og frv. gerir ráð fyrir, heldur með almennri umræðu í samfélaginu, kynningu og almennri umræðu í samfélaginu á þeim stóru vandamálum sem þessu tengjast og þeim stóru siðferðilegu spurningum sem varða þetta efni.
    Hvað gerði Evrópusambandið? Leit það á þessar stóru siðferðilegu spurningar þegar það var að unga út reglugerðum 219 og 220? Ó, nei, það var ekki gert. Og af því að Evrópusambandið gerði það ekki þegar það setti sínar reglugerðir þá erum við ekkert að gera það. Það er það sem við lesum út úr þessu frv. hér. Því í greinargerð stendur á bls. 9, virðulegur forseti:
    ,,Rétt er að geta þess að í þeim starfshópi sem lagði lokahönd á frumvarpið var ekki, frekar en í fyrri nefndinni,`` --- það eru tvær nefndir sem hafa fjallað um undirbúning þessa máls --- ,,tekið sérstaklega á siðferðilegum álitaefnum sem geta komið fram vegna starfsemi með erfðabreyttar lífverur. Slík tilvik verður að vega og meta hverju sinni, þegar þau koma upp, með þær reglur að bakhjarli sem þetta frumvarp hefur að geyma.``
    Þetta er nú sérkennilegur texti, hæstv. forseti. Þetta er nú sérkennilegur texti og segir okkur það að fyrst eigum við að hlaupa út á brautina og byrja að nýta okkur þessa nýju tækni með þeim reglum sem hér eru bornar og svo eftir því sem okkur miðar áfram á brautinni þá eigum við aðeins að huga að hinu. Þá eigum við að huga að hinu, vega og meta hverju sinni þegar þessi tilvik og þessar spurningar koma upp.
    Hér er allt svo alveg klassískt dæmi um það hvernig skepnan maður hegðar sér nú á síðustu tímum. Hvernig skepnan maður leyfir sér að hegða sér. Hún umgengst umhverfi sitt með þeim fádæmum að það er áhyggjuefni flestra þeirra sem rýna eitthvað fram í tímann hvort afkomendur okkar fái lifað af næstu öldina án stórkostlegra áfalla vegna þeirra breytinga og lifnaðarhátta og framleiðsluhátta sem við erum að temja okkur. Þetta sem við erum með hér er ekki það minnsta sem upp hefur verið að koma því hér eru menn að fikta við grundvöllinn undir því sem er líf. Grundvöllinn undir því sem er líf, erfðaefnið, forskriftina fyrir slíku. Það er nú ekki svo að menn hafi ekki verið að skoða þessi efni í nágrannalöndum okkar, virðulegur forseti, en það er afskaplega lítið sagt frá því á þessum síðum og ég hefði ekki séð, hæstv. ráðherra, eftir meiri pappír í greinargerð með þessu máli þar sem dregin væru fram álitaefnin þó ekki væru veitt svör varðandi það sem ég er að vekja athygli á en að álitaefnin væru dregin upp og það væri í rauninni lýsing á því um hvað þetta mál fjallar.
    Ég held að menn haldi að hérna sé bara eitthvert hliðarmál á ferðinni sem hægt sé að renna í gegnum þingið án teljandi umræðu og gegnum þingnefndir. Það mætti ætla það. Af hverju hafa stjórnvöld ekki fyrir því að nota þetta tækifæri til að draga upp myndina, vandamálin, spurningarnar, sem þessu tengjast þó þeim væri ekki öllum svarað því það kann að vefjast fyrir ýmsum.
    Hérna er ég með lítið rit frá umhverfisráðuneytinu norska. Það heitir Líftækni. Leikur með líf, eða dauðans alvara? -- undirtitill, spurningarmerki. Það hefur verið fjallað um þessi efni meira að segja í árdaga þessarar nýju tækni. Þá var gefin út skýrsla af Líffræðistofnun háskólans sem heitir Líftækni á Íslandi, kynning á líftæknilegri örverufræði og erfðatækni. Gefin út í Reykjavík 1984. Það var snemma á því skeiði sem hér um ræðir. En síðan hafa nefndir á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar verið að skyggnast um í þessum efnum. Og ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, að nota þennan ræðustól til að vekja athygli á því efni sem þar liggur fyrir um þessa hluti. Og svo ég taki þau rit í tímaröð sem ég er með fyrir framan mig þá er hér rit frá Norrænu ráðherranefndinni, frá seminar- og vinnuhópi 1992, nr. 503, Áhætta, líftækni og siðfræði, skýrsla frá norrænni nefnd fyrir siðfræði innan líftækninnar. Síðan er 1993, það er sú stóra spurning sem liggur í annarri löggjöf en er auðvitað nátengd þessu hérna, það er spurningin um einkaleyfi á lífi. Um einaleyfi á lífi, ,,patent på liv`` eins og þetta rit heitir, nr. 2 1993 og varðar einkaleyfalöggjöfina. Og varðar einhverjar stærstu spurningar í sambandi við framleiðslustarfsemi okkar tíma þar sem fjölþjóðafyrirtækin, sem eru þau sem ráða gangi mála í heiminum hvað sem líður þjóðþingum og nöldri, eru í síauknum mæli að tryggja sér að þau megi fá einkaleyfi á núlifandi lífverum til þess að nota þær í líftækninni. Það fer fram kerfisbundin leit um heiminn, ekki síst í löndum þriðja heimsins, að nýjum lífverum sem gætu orðið ábatasamar í framleiðslustarfsemi og framleiðslufyrirtækin eru að reyna að fá einkaleyfi á, einnig á lifandi tegundum svo ekki sé nú talað um afurðir lifandi tegunda í líftæknilegar afurðir.
    Síðan, virðulegur forseti, er hér 1993, nr. 604, Erfðabreyttar lífverur, siðferðilegar og lögfræðilegar umræður á Norðurlöndum. Svo er hér frá síðasta ári norrænt rit frá ráðherranefndinni, nr. 642, sem heitir Siðfræði og erfðaprófanir, ,,Etik og gentester``. Þetta varðar manninn meira en annað því þetta álitaefni er um það hvað menn eigi að ganga langt í því að svara þar spurningum, m.a. varðandi komandi líf fyrir fram og snertir þetta efni.
    Síðan er ég með sýnishorn, virðulegur forseti, og það er það síðasta af þessari bókmenntakynningu af minni hálfu. Það er rit frá norska umhverfisráðuneytinu, nr. 8 1992--1993, sem fylgdi lögunum um framleiðslu og notkun erfðabreyttra lífvera. Þetta upplýsandi rit fylgdi lögunum. Af hverju er þessi pappír ekki tekinn og notaður og reynt að koma þessu til skila til okkar ásamt viðbótarboðskap? Þetta liggur hér á lausu og og er rit upp á rösklega 100 bls.
    Virðulegur forseti. Ég ætlaði engan veginn með þessu innleggi mínu við 1. umr. málsins að fara að leggjast í einhvern víking á móti þessu frv. 1. umr. er til að ræða mál almennt. Ég er í þingnefndinni sem fær málið væntanlega til umfjöllunar. En ég vildi nota tækifærið til að koma minni hugsun á framfæri við þingið og hún er sem sagt sú að við erum að fjalla hér um eitthvert allra stærsta mál sem fyrir Alþingi Íslendinga hefur borið. Ekki vegna innihalds frv. eins út af fyrir sig heldur málsins í heild. Og við megum ekki leyfa okkur það á Alþingi Íslendinga vegna þess að það sé verið að reka eitthvað á eftir okkur af einhverjum nefndum, embættismannanefndum sem hotta á pólitíkusa í EES-nefndinni eða hvað þetta heitir og eru að setja okkur á Alþingi á sakaskrá af því að við erum ekki búin að koma því í verk að húrra þessu hér í gegn. Við megum ekki láta það ráða ferðinni, ráða því hvaða tíma við tökum í skoðun máls enda sé hann innan eðlilegra marka.
    Ég treysti því, virðulegur forseti, að þingið taki sér tíma til að skoða þetta mál frá mörgum hliðum.