Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 15:19:47 (773)


[15:19]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég hafði ekki ætlað mér sérstaklega að taka til máls vegna þessa frv. sem hér er flutt og ég er efnislega samþykkur. Það eru viss atriði í sambandi við umræðuna sem hér hefur farið fram sem fékk mig til þess að biðja um orðið.
    Ég ræddi þessi mál allítarlega þegar til umræðu var á síðasta þingi frv. til laga um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, 339. mál síðasta þings, og get vísað til þess sem þá kom fram af minni hálfu varðandi efni þess frv. og það viðfangsefni sem hér er einnig verið að fást við með því að tryggja tekjuöflun til Viðlagatryggingar Íslands ( Gripið fram í: Og til ofanflóðasjóðs.) og til ofanflóðasjóðs vegna þeirra atburða sem orðið hafa og sem geta orðið í sambandi við snjóflóð.
    Það kom m.a. fram í máli hv. 4. þm. Vestf. Sighvats Björgvinssonar að aðstæður væru þannig á þeim svæðum á landinu þar sem talin var snjóflóðahætta á síðasta vetri að mjög brýnt væri fyrir einstaklinga og fjölskyldur að fá sem skýrust svör varðandi stöðu sína og möguleika á að fá keyptar húseignir þannig að hægt væri að ganga frá málum á þessum mánuðum sem nú eru fram undan og hv. þm. nefndi framkvæmdatíma. Ég skil út af fyrir sig mjög vel að þær aðstæður eru uppi sem knýja á um að svör séu veitt eins fljótt og verða má af hálfu stjórnvalda varðandi sem flesta þætti þess vanda sem hér blasir við.
    Ég vil hins vegar vísa til umræðna sem fóru fram um frv. um breytingu á lögum um varnir gegn snjóflóðum á síðasta þingi þar sem lögfest voru ákvæði sem heimila að keyptar séu fasteignir og um það gildi 4. tölul. 11. gr. laganna svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Greiða má allt að 90% af kostnaði við undirbúning og framkvæmdir við varnarvirki. Kostnaður við kaup á löndum, lóðum og húseignum auk kostnaðar við flutning þeirra vegna varna telst með framkvæmdakostnaði.``
    Þetta er lagastoðin sem þarna er og vísað er til í sambandi við kaup á húseignum og þetta er efnislega hliðstætt því sem var í frv. þó að smávægileg orðalagsbreyting hafi verið gerð í meðförum þingsins á ákvæðinu. Í nefndaráliti félmn. vegna þessa máls var að finna hugleiðingar um það hvaða reglum bæri að fylgja í sambandi við það atriði að húseignir væru keyptar fremur en reist yrðu varnarvirki og það er að finna í nefndaráliti á þskj. 792 frá síðasta þingi varðandi 339. mál. Af því tilefni voru ábendingar af minni hálfu og fleiri sem blönduðu sér í umræðuna um að brýnt væri að gera þessar reglur sem skýrastar og setja sem ljósust ákvæði hvernig vinna skuli að þessu leyti að málum og í því sambandi kom fram af hálfu þáv. hæstv. félmrh. að hann hefði skilning á þörfinni og unnið yrði að því að setja reglur á grundvelli heimildarákvæða um reglugerðir á grundvelli laganna.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að fara að ræða þessar reglur eins og þeim var lýst í nefndaráliti félmn. en aðeins inna hæstv. forsrh., sem mælir fyrir því máli sem hér er rætt og fylgist vafalaust mjög grannt með málum þó að þau heyri að formi til undir hæstv. félmrh., hvað líði setningu reglna, fyllri reglna eða ákvæða en er að finna í gildandi lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, m.a. að því er varðar þetta vandasama efni.
    Ég vil líka nefna það að þó að ég hafi fullan skilning á þörfinni að veita skjót svör þá fæ ég ekki séð það sé almennt svo auðvelt að gera það með mjög skjótum hætti þar sem sveitarstjórnunum er ætlað að móta stefnu sem varðar skipulag þeirra byggða sem í hlut eiga, viðkomandi byggðar í hlutaðeigandi sveitarfélagi og jafnhliða hlýtur að þurfa að taka mið af hættumati sem sumpart er til endurskoðunar og ekki fullfrágengið. Ég átta mig því tæpast á því að það sé auðvelt verk hér og nú á þessum vikum og mánuðum fyrir stjórnvöld að veita svör í samráði við sveitarstjórnir. Kannski væri réttara að orða það svo að það væri vandasamt verk fyrir sveitarstjórnir að veita sínum umbjóðendum, sínu fólki, sem í hlut kann að eiga, skýr og ákveðin svör þannig að hægt sé að taka þær ákvarðanir sem um er að ræða.
    Á þetta vil ég benda og tengja það því að það er auðvitað nauðsynlegt að menn átti sig á því að hve miklu leyti menn ætla að leggja áherslu á varnarvirki gegn snjóflóðum til að verja húseignir og fasteignir, einnig atvinnuhúsnæði og að hve miklu leyti menn ætla að velja hina leiðina að kaupa upp fasteignir á svæðum sem að vel athuguðu máli eru metin sem hættusvæði. Ég óttast dálítið þá undiröldu, sem er í umræðu um þessi mál, þó að ég skilji hana vel, um að það sé tæpast önnur leið raunhæf en að kaupa eignirnar upp og að fólkið flytji og e.t.v. vinnustaðirnir einnig. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að vanda ákvarðanir að þessu leyti. Auðvitað eru þær fjárhagslegs eðlis. Auðvitað varða þær áhættumat en auðvitað eru þær einnig huglægar og það er kannski sá þátturinn sem erfiðastur er viðfangs. Mér finnst að við Íslendingar, sem búum við hættu, margvíslega hættu eins og fram hefur komið í þessum umræðum vegna hugsanlegra náttúruhamfara, eigum að gæta okkar þegar við erum að leggja mat á það og reynum að átta okkur á því hvaða viðbrögð séu skynsamlegust og tiltæk í hverju tilviki. Ég er þeirrar skoðunar að í sumum tilvikum kunni að mega ná viðunandi öryggi með varnarvirkjum á meðan í öðrum tilvikum sé skynsamlegt að horfast í augu við vandann og að hugsanlega sé ekki hægt að koma við varnarvirkjum sem tryggi viðunandi öryggi og þá verði að leggja af viðkomandi byggð og flytja hana til með einhverjum hætti.
    Þetta er kannski aðalatriðið sem ég vildi koma hér að, að ég vil hvetja til skilmerkilegrar vinnu og efast ekkert um að hún er í gangi að þessu leyti. En ég vil jafnframt vara við því að það séu skapaðar of sterkar væntingar varðandi þann stóra og mikla vanda sem ýmsar byggðir á landinu búa við vegna hættu á snjóflóðum og þar fari menn ekki lengra í orði og yfirlýsingum heldur en raunsætt getur talist miðað við alla þætti máls. Það mat sem fram fer tekur tíma og þær ákvarðanir sem sveitarstjórnir þurfa að taka varðandi sitt skipulag taka einnig sinn tíma sem og það að tryggja fjármagn til ofanflóðasjóðs, eins og hér er stefnt að með því máli sem hér er til umræðu og ég tek heils hugar undir að er þarft mál og brýnt.