Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

21. fundur
Þriðjudaginn 13. júní 1995, kl. 15:38:01 (775)

[15:38]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þau svör sem fram komu í máli hæstv. forsrh. Ég sé ekki að það sé neinn ágreiningur uppi í sambandi við efni máls. Ég vil aðeins taka það fram að athugasemdir og ábendingar í ræðu minni áðan vörðuðu málin almennt, út frá almennu sjónarhorni, ekki eitt tiltekið byggðarlag. Byggðarlögin eru mörg sem í þessum vanda standa. Ég þekki til í nokkrum þeirra sem um er að ræða, þar á meðal í minni heimabyggð, og þar er þessi vandi til staðar og hefur reyndar verið um langan tíma og verið ljós. Eitt af stóru málunum í þessum efnum er auðvitað að tryggja framtíðina með skynsamlegum skipulagsákvörðunum að því er varðar framhald byggðar, nýrrar byggðar. Það er einn þáttur þessa máls.