Ferill 3. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
119. löggjafarþing. – 3 . mál.


3. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 63/1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 119. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a .     1. mgr. orðast svo:
                  Innflutningur til landsins á vínanda og áfengi, sem í er meira en 2,25% af vínanda að rúmmáli, fer eftir ákvæðum áfengislaga.
     b .     2. mgr. orðast svo:
                  Ríkisstjórninni einni er heimilt að flytja inn frá útlöndum tóbak, hvort heldur er unnið eða óunnið, og til hvers sem það er ætlað.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a .     Orðin „í því skyni að afla ríkissjóði tekna“ í 1. mgr. falla brott.
     b .     2. mgr. orðast svo:
                  Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skal einni heimil starfræksla tóbaksgerðar.
     c .     3. mgr. orðast svo:
                  Fjármálaráðherra er heimilt að veita leyfi til heildsölu með áfengi, svo og framleiðslu áfengra drykkja, enda sé slík framleiðsla og sala ætluð til útflutnings eða sölu til aðila sem hafa heimild samkvæmt ákvæðum áfengislaga til að selja áfengi.
     d .     4. mgr. orðast svo:
                  Fjármálaráðherra er heimilt að setja skilyrði fyrir því að leyfi sé veitt til framleiðslu áfengis og kveða á um eftirlit.

3. gr.

    1. málsl. 5. gr. laganna orðast svo: Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins selur áfengi innan lands, sbr. 11. gr. áfengislaga.

4. gr.

    7. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Leggja skal hald á vörur þær sem lög þessi taka til og inn eru fluttar eða framleiddar í heimildarleysi. Innfluttar vörur skulu afhentar Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins til ráðstöfun ar.

6. gr.

    Í stað orðanna „áfengi, tóbak og lyf“ í fyrirsögn laganna kemur: áfengi og tóbak.


7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1995.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með þessu frumvarpi er lagt til að einkaréttur ríkisins til innflutnings á áfengi verði afnuminn. Frumvarpið er í meginatriðum samhljóða frumvarpi sem lagt var fram sem stjórnarfrum varp á síðasta þingi en tókst ekki að afgreiða fyrir þinglok.
    Þau rök, sem voru færð fyrir einkarétti ríkisins til innflutnings og heildsölu á áfengi, voru að með þeim hætti mætti afla ríkissjóði tryggra tekna í formi vínandagjalda af vörum þessum, auk þess sem líklegt þótti að slíkt fyrirkomulag tryggði betur en ella hagstæðari innkaup á vör unum til landsins. Einnig var á það bent að með einkaréttinum væri mun auðveldara að annast eftirlit með innflutningi á áfengi þar sem honum mætti aðeins einn aðili sinna með löglegum hætti.
    Telja verður að framangreind rök eigi ekki lengur við um innflutning og heildsölu áfengis. Afla má ríkissjóði sömu tekna og hann hefur af vínandagjöldum með öðrum hætti en þeim að ríkið hafi einkarétt á innflutningi og dreifingu umræddra vara í heildsölu. Teknanna má ein faldlega afla með innflutningsgjöldum og sambærilegum gjöldum af innlendri framleiðslu, sé um hana að ræða, á sama hátt og tíðkast varðandi innheimtu ýmissa annarra óbeinna skatta. Möguleikar til eftirlits með ólögmætum innflutningi og sölu áfengis verða ekkert síðri við þessa breytingu.
    Í frumvarpi til laga um gjald af áfengi, sem flutt er samhliða frumvarpi þessu, er gerð grein fyrir því, að þessi breyting mun ekki hafa áhrif á tekjur ríkissjóðs af áfengi. Gjald af áfengi breytist úr vínandagjaldi, sem nú er ákveðið af fjármálaráðherra, í áfengisgjald sem verður bundið í lögum og verður innheimt við tollafgreiðslu.
     Frumvarpið gerir ráð fyrir að felld séu úr gildi öll ákvæði er varða einkarétt ríkisins til inn flutnings á áfengi. Jafnframt skilgreinir frumvarpið hverjir hafa heimild til að endurselja það áfengi sem flutt er til landsins. Með vísan til þessa þykir ekki ástæða til að fjölyrða frekar um efni þess, en hins vegar er vísað til frumvarps um gjald af áfengi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er opnað fyrir þann möguleika að aðrir aðilar en Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins geti flutt áfengi til landsins. Samkvæmt greininni fer það eftir ákvæðum áfengislaga hverju sinni hvernig heimildir til innflutnings á áfengi eru. Gert er ráð fyrir að öllum verði heimilt að flytja til landsins áfengi en hins vegar verði einungis tilteknum aðilum heimilt að endurselja það. Þeir sem mega endurselja áfengi, sem flutt er til landsins, til neytenda verða Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, veitingastaðir sem hafa rétt til að selja áfengi svo og lækn ar og lyfsalar sem hafa rétt til lyfjasölu. Þá verður innflytjendum og heildsölum, sem hafa til skilin leyfi, heimilt að endurselja áfengi til veitingastaða og Áfengis- og tóbaksverslunar ríkis ins.

Um 2. og 3. gr.


    Í þessum greinum eru lagðar til breytingar sem miða að því að afnema einkarétt Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins til að flytja inn áfengi til sölu innan lands og til endursölu til þeirra sem hafa vínveitingaleyfi eða hafa leyfi til að framleiða áfengi innan lands.

Um 4. gr.


    Samkvæmt þessari grein er lagt til að ekki verði lengur gerð sú krafa að allar vörur, sem Áfengis- og tóbaksverslun selur, skuli merktar með nafni verslunarinnar eða merki hennar. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir það að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins taki ákvörðun um að vörurnar verði merktar með einhverjum hætti.

Um 5. gr.


    Samkvæmt gildandi lögum er Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skylt að taka við áfengi sem framleitt er í heimildarleysi, þ.e. bruggi og gambra. Lagt er til að þessi skylda verði af numin enda fellur það ekki að annarri starfsemi áfengisverslunarinnar að annast geymslu á slíkum varningi fyrir lögregluyfirvöld. Fer þá um það áfengi eftir almennum reglum.

Um 6. og 7. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 63/1969,


um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, með síðari breytingum.


    Með frumvarpi þessu eru gerðar breytingar á lögunum um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, sem fela í sér afnám á einkarétti ríkisins til innflutnings á áfengi. Samkvæmt frum varpinu verður öllum heimilt að flytja inn áfengi til landsins til endursölu og einkanota. Þó verður aðeins heimilt að endurselja áfengið til ákveðinna aðila. Þeir sem samkvæmt frumvarpi þessu mega kaupa áfengi, sem flutt er til landsins, eru Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, veit ingastaðir með vínveitingaleyfi, læknar og lyfsalar sem hafa rétt til lyfsölu. Samkvæmt frum varpinu er ekki lengur gert ráð fyrir að öll sala á áfengi innan lands fari í gegnum ÁTVR. Lagt er til að innflytjendur og framleiðendur áfengis geti selt áfengi til ÁTVR og til vínveitinga húsa með almennt vínveitingaleyfi. Ekki er gerð breyting á fyrirkomulagi smásöluverslunar þannig að ÁTVR verður áfram með einkaleyfi á smásöluverslun innan lands.
    Samhliða þeim breytingum sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi verður flutt frumvarp þar sem gerðar eru samsvarandi breytingar á áfengislögum, nr. 82/1969. Í tengslum við ofan greind frumvörp verður jafnframt flutt frumvarp til laga um gjald á áfengi þar sem gerðar verða breytingar á fyrirkomulagi í innheimtu opinberra gjalda á áfengi.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarp þetta hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð. Áætlað er að beinar tekjur ríkissjóðs lækki um u.þ.b. 50 millj. kr. Á móti þeirri lækkun ættu að koma nokkuð auknar tekjur af framleiðslu- og innflutningsstarfsemi einkaaðila. Í heild er því gert ráð fyrir að breyting sú sem lögð er fram í frumvarpi þessu hafi ekki teljanleg áhrif á tekjur ríkissjóðs.