Ferill 31. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
119. löggjafarþing. – 31 . mál.


108. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

Frá minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk hún á sinn fund Jón Þórðarson og Kristján P. Guð mundsson frá Apótekarafélagi Íslands, Hafrúnu Friðriksdóttur og Mími Arnórsson frá Lyfja fræðingafélagi Íslands, Einar Pál Svavarsson, framkvæmdastjóra Domus Medica, og Alfreð Ó. Ísaksson frá Lyfjabúðinni Iðunni.
    Fulltrúar Félags lyfjafræðinga lögðust eindregið gegn frekari frestun VII. og XIV. kafla gildandi lyfjalaga. Fulltrúar Félags apótekara töldu aftur á móti brýna nauðsyn á frestun, en hins vegar kom skýrt fram að sá frestur, sem lagður er til í 2. gr. frumvarpsins, er að þeirra dómi fjarri því að vera nægur. Samkvæmt því er frumvarpið þeim til lítils gagns.
    Framkvæmdastjórar Domus Medica og Iðunnarapóteks greindu frá því að dæmi væru um að eigendur lyfjaverslana hefðu lagt í verulegan kostnað til undirbúnings gildistöku fyrr nefndra kafla. Minni hlutinn telur því að samþykkt frumvarpsins kynni að baka ríkisvaldinu skaðabótaábyrgð og því væri óskynsamlegt að samþykkja frumvarpið án lögfræðilegrar skoð unar á þessu atriði.
    Því leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 14. júní 1995.



Össur Skarphéðinsson,


form.



Fylgiskjal.


Umsögn Einars Páls Svavarssonar, framkvæmdastjóra


Domus Medica hf., og Alfreðs Ómars Ísakssonar,


yfirlyfjafræðings í Iðunnarapóteki.


(12. júní 1995.)



    Vorið 1994 tóku ný lyfjalög gildi. Rétt er að undirstrika að allir kaflar laganna tóku gildi. Í ákvæðum til bráðabirgða sagði hins vegar: „Ákvæði VII. kafla og XIV. kafla koma þó eigi til framkvæmda fyrr en 1. nóvember 1995“, þ.e. kaflinn um stofnun lyfjabúða og lyfsöluleyfi annars vegar og kaflinn um lyfjaverð hins vegar.
    Ástæðan fyrir frestun á framkvæmdatíma þessara tveggja kafla var mikill ágreiningur milli stjórnar og stjórnarandstöðu í þinginu við lokaafgreiðslu frumvarpsins. Sá ágreiningur var jafnaður með því að fresta því um eitt og hálft ár að þessir tveir kaflar kæmu til framkvæmda. Einnig var skipuð þverpólitísk nefnd með fulltrúum frá þingflokkunum og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og var nefndinni ætlað að fylgjast með breytingum vegna EES og gera tillögur að hugsanlegum breytingum á lögunum áður en ákvæði um nýjar úthlutunarreglur lyfsöluleyfa og nýjar verðlagsreglur taka gildi.

Áhrif nýrrar löggjafar og þverpólitíska nefndin.
    Aðdragandi þessarar lagasetningar er líklega einn sá lengsti í sögu Alþingis. Yfir nokkurra ára tímabil kom málið fyrir heilbrigðis- og trygginganefnd á tugum funda og tæplega er til nokkur sá hagsmunaaðili sem ekki fékk að tjá sig við nefndina í löngu máli, bæði munnlega og skriflega. Niðurstaðan var hins vegar lög nr. 93/1994.
    Óhætt er að fullyrða að þegar hafi framangreind löggjöf haft víðtæk áhrif til hins betra hvað varðar þjónustu við viðskiptavini. Þá fyrst og fremst í þá veru að mörg apótek hafa hafið undirbúning að frekari samkeppni sín á milli, ekki aðeins með því að færa apótekin á nýja og betri staði, heldur og með því að laga verslanir og innréttingar að auknu og betra þjónustuhlut verki apótekanna. Má í því sambandi nefna flutning Iðunnarapóteks í Domus Medica, flutning Holtsapóteks í Glæsibæ, viðbyggingu og endurbætur á apóteki Keflavíkur sem og áform margra apóteka um að gera umfangsmiklar breytingar á apótekum sínum til þess að mæta auk inni samkeppni. Þá hafa margir apótekarar stofnað hlutafélög sem ætlað er að taka við rekstr inum eftir 1. nóvember 1995. Með þeim hætti er hægt að fá nýtt hlutafé inn í apótekin eins og önnur fyrirtæki og þar með að treysta grundvöll þeirra til frekari samkeppni. Allar þessar framkvæmdir eru stórstígar á skömmum tíma miðað við þá kyrrstöðu sem ríkti mörg ár þar á undan. Tíminn frá því að lögin tóku gildi og fram til 1. nóvember 1995 er tvímælalaust nægj anlegur til þess að apótekin fái að laga sig að aukinni samkeppni. Og vart þarf að minna á að með þessum lögum steig Alþingi mjög mikilvægt skref í þá veru að afnema óeðlileg viðskipta leg sérréttindi og breyta rekstrarumhverfi apóteka til samræmis við það sem aðrir þegnar landsins búa við án þess þó að fórna á neinn hátt faglegum kröfum sem gera þarf til lyfsölu.
    Á því rúmlega ári sem liðið er síðan lögin tóku gildi hefur hin þverpólitíska nefnd ekki séð neina ástæðu til þess að gera athugasemdir við framkvæmd laganna. Ekkert í störfum nefndar innar hefur gefið tilefni til þess að ætla að framkvæmdatími VII. og XIV. kafla yrði annar en 1. nóvember. Á þessum grundvelli hafa ýmsir tekið veigamiklar ákvarðanir sem byggjast á gildandi lyfjalögum, nr. 93/1994.
    Þá hafa ekki komið fram opinberlega haldbærar röksemdir sem mæla með því að fresta framkvæmdatímanum þó svo að EES-ákvæði laganna hafi oftast verið nefnt til sögunnar. Er þar annars vegar um að ræða rýmkun á möguleikum til auglýsinga og hins vegar samhliða inn flutning.
    Varðandi rýmkun á möguleikum til auglýsinga má nefna að bæði apótek og innflytjendur hafa farið sér mjög hægt í því máli, jafnvel þó að heimildin hafi legið fyrir frá gildistöku lag anna. Engin ástæða er til að ætla annað en að svo verði áfram og mætti ætla að nægjanlegir möguleikar yfirvalda til að takmarka auglýsingar séu til staðar í 18. gr. laganna, takmarkanir sem þegar hafa komið fram í nýlegri reglugerð um lyfjaauglýsingar sem fljótlega tekur gildi og kynnt var í síðasta tölublaði Tímarits um lyfjafræði. Þá er nánast útilokað að samkeppni í verðlagningu geti hafist fyrr en XIV. kafli laganna kemur til framkvæmda þar sem hann er forsenda fyrir slíkri samkeppni. Þá hafa ekki heldur komið fram nein haldbær rök sem mæla með því að úthlutun lyfsöluleyfa verði í framtíðinni með öðrum hætti en þeim sem nýju lögin gera ráð fyrir, enda er þar um að ræða grundvallarþátt í endurskipulagningu smásöluverslunar með lyf til mun betri vegar þar sem þjónustuþátturinn er settur í öndvegi án þess að gerð sé nokkur tilslökun er varðar faglega þætti.
    Varðandi samhliða innflutning er t.d. ljóst af reynslu Dana að lyfjakostnaður mun óhjá kvæmilega lækka. Ákvæði í reglum um viðskiptahætti Evrópusambandsins og þar með á því svæði er EES-samningurinn nær til hafa þegar brotið upp dreifingarkerfi stórra lyfjaframleið enda og opnað fyrirtækjum möguleika á að kaupa upprunaleg lyf á lægra verði á ódýrari svæð um. Engin ástæða er til að ætla annað en að Íslendingar muni notfæra sér þessa möguleika. Vilji Alþingi hins vegar skoða þessi áhrif ein og sér gæti rannsókn á þeim tíma sem fresturinn stendur, þ.e. til 1. júlí 1996, gefið ákveðnar vísbendingar. Hins vegar eru ákvæði þeirra kafla sem hugmyndin er að fresta óhjákvæmilega nátengd framþróuninni í samhliða innflutningum.

Iðunnarapótek og flutningur í Domus Medica.
    Við flutning Iðunnarapóteks í Domus Medica voru gerðar ýmsar ráðstafanir sem byggjast í öllum atriðum á nýju lögunum. Það var gert þrátt fyrir þá fyrirvara sem Alþingi setti með stofnun hinnar þverpólitísku nefndar, enda töldu flestir sem að málinu komu að engar blikur væru á lofti. Gildandi lög mundu standa og stjórnmálamenn mundu tryggja stöðugleika um eigin ákvarðanir.
    Í meginatriðum voru stofnuð tvö hlutafélög. Annað félagið sá um kaup á tölvubúnaði, inn réttingar og breytingar á hinu nýja húsnæði í Domus Medica og mun hafa með höndum smá sölu á snyrti-, hjúkrunar- og barnavörum. Það félag var stofnað af Kjartani Gunnarssyni ap ótekara (85% eignarhlutur) og Alfreð Ómari Ísakssyni yfirlyfjafræðingi (15% eignarhlutur). Í samkomulagi, sem gert var milli Domus Medica hf. og Kjartans Gunnarssonar, var ákveðið að Domus Medica hf. mundi kaupa hlutafé Kjartans á þriggja ára tímabili. Eigendur Domus Medica hf. hafa síðan sett sig í samband við fjölda aðila sem hafa áhuga á að kaupa hlutabréf in þegar fram í sækir og hefur þegar endurselt 25% hlut, m.a. til lyfjafræðings sem starfar við apótekið og ætlar að starfa þar í framtíðinni. Hitt hlutafélagið er einnig stofnað af þeim Alfreð Ómari Ísakssyni (85% eignarhlutur) og Kjartani Gunnarssyni (15% eignarhlutur). Því félagi er ætlað að taka við lyfsölunni 1. nóvember 1995 og mun þá Alfreð Ómar Ísaksson taka við lyfsöluleyfinu. Þessi málsmeðferð var kynnt heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu áður en farið var af stað og var staðfest í bréfi ráðuneytisins til Kjartans Gunnarssonar að hún væri í samræmi við gildandi lög (sbr. hjálagt bréf ráðuneytisins frá 23. desember 1994). Þó er rétt að fram komi að ráðuneytið benti á áðurnefndan fyrirvara um hina þverpólitísku nefnd.
    Að þessum flutningi hafa margir aðilar komið og á mörgum mánuðum myndað með sér samstarf um flutning á apóteki sem er liður í endurbyggingu læknastöðvarinnar Domus Med ica. Þessum flutningi hefur verið sérlega vel tekið af öllum sem við húsið starfa og ekki hvað síst sjúklingum sem þangað leita. Vart þarf að tíunda þau þægindi sem þetta hefur í för með sér fyrir eldra fólk og fólk sem sækir þjónustu til sérfræðinga utan af landi. Í dag líður vart sá dagur í Domus Medica að fjöldi fólks lýsi ekki ánægju sinni með þetta fyrirkomulag, en þessi flutningur var mögulegur vegna nýju laganna. Hann grundvallast, eins og áður sagði, á nánu samstarfi fjölmargra aðila sem koma beint að málinu.
    Með frestun á gildistöku áðurnefndra kafla er þessu samstarfi stefnt í alvarlegan voða, m.a. vegna þess að þá gilda áfram gömlu úthlutunarreglurnar og ráðuneytið mun því senda þann apótekara sem er á réttum stað í gömlu goggunarröðinni inn í samstarf sem hann hefur ekkert haft með að gera en Kjartan Gunnarsson hefur leyfið til 1. nóvember 1995. Þá gæti orðið snúið að semja við nýja aðila á grundvelli þess fyrirkomulags sem hér hefur verið sett upp þar sem hann kemur inn í samstarfið á grundvelli gömlu laganna en allt er sett upp á grundvelli nýju laganna. Þá er auðvitað ósvarað þeirri spurningu hvort sá apótekari, sem verður sendur inn í þetta samstarf með ráðherrabréf, ætli að hafa þá lyfjafræðinga sem þegar hafa fjárfest í nýju hlutafélögunum í vinnu. Einnig er ósvarað þeirri spurningu með hvaða hætti sá apótekari ætti að kaupa af Kjartani Gunnarssyni þar sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið setti það sem skilyrði fyrir framlengingu á lyfsöluleyfi Kjartans Gunnarssonar um eitt ár að honum væri „skylt að starfrækja lyfjabúðina til 1. nóvember 1995 samkvæmt lyfjalögum, nr. 93/1994“ en afsalaði sér „um leið þeim rétti sem er að finna í eldri lögum“ (sbr. hjálagt bréf ráðuneytisins frá 6. september 1994). Með tilvísan til þessarar setningar var Iðunnarapótek selt með allt öðr um hætti en hingað til hefur verið gert á grundvelli gömlu laganna.

Aðgerðir ef af frestun verður.
    Af framansögðu má ljóst vera að gildistaka lyfjalaga, nr. 93/1994, skapaði ákveðna um gjörð um flutning Iðunnarapóteks yfir í Domus Medica, bæði stjórnsýslulega og viðskiptalega. Á grundvelli laganna tók hópur fólks ákvarðanir um samstarf sem hefur lukkast sérlega vel í alla staði. Má þar nefna lyfjafræðinga í versluninni, eigendur hússins, einstaklinga og verk taka sem tóku þátt í framkvæmdinni. Margra mánaða viðræður um fyrirkomulag flutningsins leiddu til þeirrar niðurstöðu sem að framan getur og auk framangreindra aðila átti viðskipta banki apóteksins og Domus Medica, Búnaðarbanki Íslands, stóran þátt í að gera þetta mögu legt með nauðsynlegri lánafyrirgreiðslu upp á þriðja tug milljóna. Frekari frestun, að ekki sé talað um breytingu á inntaki áðurnefndra kafla laganna fram yfir 1. nóvember, getur haft ófyr irsjáanlegar afleiðingar.
    Verði það hins vegar niðurstaða Alþingis að nauðsynlegt sé að fresta framkvæmdatíma framangreindra kafla er þess farið á leit við heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis að hún beiti sér fyrir því að þeir aðilar, sem hafa staðið að flutningi Iðunnarapóteks á grundvelli gild andi laga, verði ekki fyrir fjárhagslegum skakkaföllum vegna óvæntra breytinga á lögum. För um við þess á leit við nefndina að frestun á gildistöku VII. og XIV. kafla verði ekki lengri en til 1. júlí 1996 og að nefndin tryggi að þessir tveir kaflar og þar með allir kaflar laga nr. 93/1994 komi sannarlega til framkvæmda 1. júlí 1996 og að ekki verði unnið að stefnumark andi breytingum á lögunum fram að þeim tíma.
    Þá viljum við óska eftir því við nefndina að á grundvelli þess sem sagt hefur verið hér að framan um flutning Iðunnarapóteks beini hún þeim tilmælum til ráðuneytisins:
    1.    Að Kjartan Gunnarsson fái framlengingu á lyfsöluleyfi til 1. júlí 1996.
    2.    Að ráðherra staðfesti ráðningu Alfreðs Ómars Ísakssonar sem forstöðumanns Iðunnarapóteks fyrir tímabilið 1. nóvember 1995 til 1. júlí 1996. Þessi tilhögun er gerð á grund velli 13. gr. laga nr. 76/1982.
    3.    Að ráðherra samþykki að hlutafélaginu Iðunnarapóteki hf. verði heimilt að reka apótekið í samráði við lyfsöluleyfishafa frá 1. nóvember 1995.
    Í sambandi við þriðja liðinn má benda á að í gegnum marga áratugi hefur sú undantekning verið á lyfjalögum að tvær lyfjabúðir hafa verið reknar sem deildir í samvinnufélögum. Ekki er annað vitað en að sá rekstur hafi verið aðstandendum kaupfélaganna á Akureyri og Selfossi til sóma. Þá er athyglisvert að með breytingum á lögum um samvinnufélög frá 1991 skapaðist sá möguleiki að gefa út ný hlutabréf í samvinnufélögum í formi B-deildarskírteina. Í dag er þannig hægt að kaupa hlutabréf í KEA og þar með í Stjörnuapóteki á Akureyri. Þannig hefur apótekið á Akureyri í raun og veru verið rekið sem deild í hlutafélagi, a.m.k. í skattalegum skilningi, þrátt fyrir að kaflarnir í lögum nr. 76/1982, um rekstur lyfjabúða, séu enn í gildi.
Fskj. 1.

Bréf heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis til


Kjartans Gunnarssonar apótekara í Lyfjabúðinni Iðunni.


(6. september 1994.)



    Með tilvísun til umsóknar yðar, dags. 20. júlí 1994, um framlengingu lyfsöluleyfis yðar skal eftirfarandi tekið fram.
    Lyfjalög, nr. 93/1994, tóku gildi 1. júlí sl. Alþingi ákvað þó að fresta gildistöku ákvæða hinna nýju lyfjalaga er varða nýjar úthlutunarreglur lyfsöluleyfa og nýjar verðlagsreglur til 1. nóvember 1995.
    Samkomulag varð milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að fresta umræddum ákvæðum nýju lyfjalaganna þar sem mikill ágreiningur varð um þau ákvæði og því útlit fyrir að frum varpið yrði tafið í þinginu og nauðsynleg ákvæði, m.a. varðandi EES, næðu þar af leiðandi ekki fram. Til að greiða fyrir þessu samkomulagi féllst ráðherra jafnframt á að skipa þverpóli tíska nefnd með fulltrúum frá þingflokkum og ráðuneytinu til að fylgjast með breytingum vegna EES og gera tillögur að hugsanlegum breytingum á lögunum áður en ákvæði um nýjar úthlutunarreglur lyfsöluleyfa og nýjar verðlagsreglur taka gildi.
    Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um lyfjadreifingu, nr. 76/1982, og 1. gr. bráðabirgðalaga nr. 112/1994, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, fellur lyfsöluleyfi niður í lok þess árs sem leyfishafi verður sjötugur. Samkvæmt 2. tölul. ákvæða til bráðabirgða í lyfjalögum, nr. 93/1994, segir að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 6. gr. laga um lyfjadreifingu, nr. 76/1982, geti ráð herra framlengt lyfsöluleyfi þar til ákvæði VII. kafla taki gildi.
    Með tilvísun til 2. tölul. ákvæða til bráðabirgða í lyfjalögum, nr. 93/1994, er lyfsöluleyfi yðar til að starfrækja Lyfjabúðina Iðunni, Laugavegi 40a, Reykjavík, framlengt til 1. nóvem ber 1995. Þar með er yður skylt að starfrækja lyfjabúðina til 1. nóvember 1995 samkvæmt lyfjalögum, nr. 93/1994, en afsalið yður um leið þeim rétti sem er að finna í eldri lögum, þ.e. lögum um lyfjadreifingu, nr. 76/1982.
    Yður hefur jafnframt á fundi í ráðuneytinu 28. ágúst sl. verið gerð grein fyrir þeirri óvissu sem fram undan er um fyrirkomulag lyfsöluleyfa en á þessari stundu er ekki hægt að segja til um hvort ákvæði nýju lyfjalaganna um lyfsöluleyfi nái óbreytt fram að ganga 1. nóvember 1995 þar sem stjórnarandstaðan lagði á það mikla áherslu að fresturinn yrði hafður fram yfir næstu þingkosningar þannig að öruggt væri að ný ríkisstjórn og nýtt þing yrði komið saman áður en hann rynni út og því gæfist e.t.v. tími til að breyta þessum reglum.

Sighvatur Björgvinsson.


Páll Sigurðsson.




Fskj. 2.

Bréf heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis til


Kjartans Gunnarssonar apótekara í Lyfjabúðinni Iðunni.


(23. desember 1994.)



    Vísað til erindis, dags. 29. nóvember 1994, varðandi fund sem haldinn var í ráðuneytinu miðvikudaginn 19. október 1994 vegna flutnings lyfjabúðarinnar Iðunnar í Domus Medica. Fram kemur í erindinu að heimild hefur fengist til flutnings lyfjabúðarinnar og að stofnað hef ur verið hlutafélagið Lyfjabúðin Iðunn hf.
    Í erindinu eru gerðar eftirfarandi fyrirspurnir til ráðuneytisins:
     a .     Gerir ráðuneytið athugasemd við það að framangreint hlutafélag taki við rekstri Lyfjabúðarinnar Iðunnar frá og með 1. janúar 1995 í samstarfi við undirritaðan lyfsöluleyfis hafa?
     b .     Er það rétt skilið að samkvæmt lyfjalögum, nr. 93/1994, sé hlutafélaginu Lyfjabúðin Iðunn hf. heimilt að reka lyfjaverslun í samstarfi við þann lyfjafræðing sem verður handhafi lyfsöluleyfis Lyfjabúðarinnar Iðunnar frá 1. nóvember 1995?
     c .     Er það rétt skilið að lyfjafræðingur, sem gert hefur samning við hlutafélagið Iðunni hf. og eigendur hlutafélagsins velja, geti tekið við lyfsöluleyfi Lyfjabúðarinnar Iðunnar frá 1. nóvember 1995 þegar lyfsöluleyfi undirritaðs fellur úr gildi að því gefnu að hann upp fylli þau þrjú skilyrði sem sett eru fyrir slíkri leyfisveitingu í 20. gr. laga nr. 93/1994?
    Vegna þessa vill ráðuneytið taka eftirfarandi fram:
     a .     Nýtt fyrirkomulag lyfsöluleyfa, skv. VII. kafla lyfjalaga, nr. 93/1994, tekur gildi 1. nóvember 1995 en þangað til gilda ákvæði í II., III. og VI. kafla laga um lyfjadreifingu, nr. 76/1982, 2.–6. gr., 9.–13. gr. og 27.–34. gr. er fjalla um stofnun lyfjabúða, lyfsöluleyfi og undirstofnanir lyfjabúða. Fram til þessa hefur ekki verið heimilt að reka lyfjabúð á hlutafélagsformi. Ráðuneytið telur sér ekki fært að veita heimild til hlutafélagsreksturs lyfjabúðarinnar fyrr en nýtt fyrirkomulag lyfsöluleyfa, skv. VII. kafla lyfjalaga, nr. 93/1994, hefur tekið gildi.
     b .     Þetta er rétt skilið svo framarlega sem engar breytingar verða gerðar á VII. kafla lyfjalaga, nr. 93/1994. Á umræddum fundi í ráðuneytinu 19. október var lögfræðileg hlið málsins rædd og gestunum gerð grein fyrir þeirri óvissu sem væri til staðar um endanlega niðurstöðu lagaákvæða um lyfsöluleyfi. Lyfjalög, nr. 93/1994, tóku gildi 1. júlí sl. Al þingi ákvað þó að fresta gildistöku ákvæða hinna nýju lyfjalaga er varða nýjar úthlutunar reglur lyfsöluleyfa og nýjar verðlagsreglur til 1. nóvember 1995. Samkomulag varð milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að fresta umræddum ákvæðum nýju lyfjalaganna þar sem mikill ágreiningur varð um þau ákvæði og því útlit fyrir að frumvarpið yrði tafið í þing inu og nauðsynleg ákvæði, m.a. varðandi EES, næðu þar af leiðandi ekki fram. Til að greiða fyrir þessu samkomulagi féllst ráðherra jafnframt á að skipa þverpólitíska nefnd með fulltrúum frá þingflokkum og ráðuneytinu til að fylgjast með breytingum vegna EES og gera tillögur að hugsanlegum breytingum á lögunum áður en ákvæði um nýjar úthlut unarreglur lyfsöluleyfa og nýjar verðlagsreglur taka gildi. Nefndin á að skila skýrslu til ráðherra fyrir 1. september 1995. Nefndinni er ætlað að meta hvort ástæða er til hugsan legra breytinga á lögunum áður en fresturinn rennur út. Á þessari stundu er því erfitt að segja til um hvernig úthlutun lyfsöluleyfa verður framkvæmd eftir 1. nóvember 1995. Nú verandi ríkisstjórn hefur stefnt að því að gefa lyfsöluleyfin frjáls en fallist á ákveðnar tak markanir og í raun frestað að taka endanlega afstöðu til málsins. Með því að fresta málinu hlýtur það að verða í verkahring næstu ríkisstjórnar og næsta heilbrigðisráðherra að ákveða hvernig þessum málum verði skipað.
     c .     Þetta er rétt skilið svo framarlega sem engar breytingar verða gerðar á VII. kafla lyfjalaga, nr. 93/1994.

Páll Sigurðsson.


Einar Magnússon.