Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 13:44:12 (2530)

1996-01-30 13:44:12# 120. lþ. 79.1 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[13:44]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Á þskj. 371 liggur frammi frv. til laga um umgengni um auðlindir sjávar.

Það er svo að eitt af þeim atriðum, sem helst hafa verið til umræðu á vettvangi sjávarútvegsmála undanfarin missiri, er umgengni um þessa mikilvægu auðlind þjóðarinnar. Að minni hyggju er slæm umgengni um auðlindina eitt af alvarlegustu vandamálunum sem við glímum við um þessar mundir. Enginn vafi er á því að ef okkur tekst ekki að koma á góðri skipan í þessum efnum þá er veruleg hætta á því að alvarlegir brestir komi í alla viðleitni okkar og allar tilraunir til að fylgja fram skynsamlegum reglum um fiskveiðistjórnun. Slæm umgengni um auðlindina dregur þess vegna úr líkum á því að við getum notið hámarksafraksturs af auðlindinni þegar til lengri tíma er litið. Þjóðin á því hér mikilla hagsmuna að gæta.

[13:45]

Auðvitað er erfitt að meta hversu mikill þessi vandi er, hversu mikil brögð eru að því að fiski sé hent í sjóinn og menn landi fiski fram hjá vigt. Engum dylst þó að hér er um vanda að ræða. Við heyrum lýsingar þeirra manna sjálfra sem stunda sjóinn og vinna við sjávarútveg sem staðfesta að hér er um alvarlegan vanda að ræða. Hitt geta menn deilt um, hversu mikill hann er, hversu mikil brögð eru að því að fiski sé hent og landað fram hjá vigt.

Fjölmargar ástæður geta legið til þess að gengið sé á svig við settar reglur í þessu efni og góða háttu að því er umgengni varðar. Við höfum fjölmörg dæmi um það að fiski er hent án þess að nokkrar stjórnunarreglur gildi um veiðarnar. Við höfum slík dæmi frá fyrri tíma úr fiskveiðisögu okkar sjálfra innan landhelgi meðal annarra þjóða og við höfum dæmi um slíkt úr okkar eigin veiðum utan lögsögu þar sem engin stjórnun hefur átt sér stað. Við vitum líka að það getur leitt til aukinnar freistni í þessum efnum þegar aflaheimildir eru rýrar í hlutfalli við afkastagetu fiskiskipastólsins.

Ég afréð því að leita eftir samvinnu og samstarfi stjórnvalda, samtaka sjómanna og útvegsmanna til þess að fjalla um þennan vanda og gera tillögur til úrbóta. Það er alveg ljóst að að baki sumra sögusagna í þessum efnum eru viðhorf þeirra manna sem vilja leggja allt sitt af mörkum til þess að bæta þessa umgengni og upplýsa hvað fer fram í raun og veru. Auðvitað er það líka til að menn komi fram með sögusagnir um slæma umgengni í þeim tilgangi að brjóta á bak aftur stjórnunarreglur eða knýja á um að ákvörðunum um heildarafla sé breytt. En einu gildir að ég hygg, hvernig sem á málið er litið blasir við okkur vandi í þessu efni sem nauðsynlegt er að takast á við. Sannfæring mín er sú að heppilegasta og skynsamlegasta leiðin í því efni sé að laða saman sjómenn og útvegsmenn til samstarfs og samvinnu. Þeirra er ábyrgðin og því líklegast að með þeim hætti geti okkur auðnast að ná betri tökum á þessu viðfangsefni. Ég skipaði því sérstaka nefnd í þessu efni í maímánuði 1994. Nefndinni var falið að meta í hve miklum mæli sjávarafla var varpað fyrir borð á íslenskum skipum og hvernig auka megi kjörhæfni veiðarfæra svo og kanna með hvaða hætti bæta megi nýtingu aukaafla og enn fremur hvernig bæta megi virkni veiðieftirlits. Í nefndinni áttu þessir menn sæti: Guðjón A. Kristjánsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Guðmundur Karlsson frá Fiskistofu, Guðni Þorsteinsson frá Hafrannsóknastofnun, Helgi Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands, Kristján Þórarinsson frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, sem var formaður nefndarinnar, Snorri Rúnar Pálmason frá sjútvrn. og Sævar Gunnarsson frá Sjómannasambandi Íslands, en hann hefur nú tekið við formennsku í nefndinni því að henni er ætlað áframhaldandi starf.

Í septembermánuði 1994 óskaði ég eftir því við nefndina að hún hraðaði sérstaklega tillögugerð er lyti að því hvernig mætti koma í veg fyrir að afla væri varpað fyrir borð og hvernig auka mætti virkni veiðieftirlits. Nefndin skilaði um það áfangaskýrslu í desember 1994. Í þeirri skýrslu kemur fram að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að fiski sé varpað fyrir borð og fiski sé landað fram hjá vigt. Í áfangaskýrslunni er m.a. bent á að nauðsynlegt sé að aflaheimildir byggi á vísindalegri ráðgjöf og að afli fari ekki fram úr heimildum auk þess sem samræmi þurfi að vera í aflaheimildum milli tegunda. Bent er á að reglur um veiðar og umgengni um auðlindina þurfi að vera einfaldar og skýrar og veiðieftirlitið markvisst og það skuli beinast að þeim vandamálum sem við er að glíma hverju sinni. Viðurlög við brotum eigi að vera ströng og þyngjast við endurtekin brot.

Í skýrslu nefndarinnar kemur enn fremur fram að lagaákvæði er varða umgengni um auðlindir sjávar skorti og því þurfi að setja ákveðnar lagareglur um umgengnina og viðurlög við brotum gegn þeim. Í skýrslunni eru síðan settar fram ýmsar hugmyndir í þessu efni. Á grundvelli þessarar skýrslu samdi ráðuneytið frv. sem lagt var fram á Alþingi í byrjun síðasta árs en ekki vannst tími til að ræða og því síður afgreiða á því þingi.

Síðasta vor urðu allmiklar umræður um þessi efni í fjölmiðlum og í framhaldi af þeirri umræðu óskaði ég eftir því við nefndina að hún endurmæti fyrri tillögur og það frv. sem lá fyrir í ljósi þeirrar umræðu sem fram hafði farið og þeirra athugasemda sem fram höfðu komið við frv. Nefndin skilaði áliti um þetta sem fól í sér athugasemdir við einstakar greinar í upphaflega frv. Ráðuneytið tók þessa framhaldsskýrslu til meðferðar og breytti fyrirliggjandi frv. í samræmi við þær athugasemdir sem fyrir lágu frá samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna. Þegar því verki var lokið fékk samstarfsnefndin frv. á ný til umsagnar og sammæltist um að styðja framgang þess og óska eftir því að þær lagareglur sem frv. mælir fyrir um yrðu lögfestar á Alþingi.

Ég tel mjög mikilvægt að slíkt samstarf skuli hafa tekist á milli forustumanna allra helstu samtaka sjómanna og útvegsmanna og met mikils að forustumenn þeirra hafa lagt sig fram við að ná samstöðu í þessi efni.

Í frv., sem liggur fyrir, má segja í stuttu máli að þær reglur séu settar skýrt fram sem gilda eiga um umgengni um auðlindir hafsins og þær viðmiðanir sem stendur ekki til að líða. Ekki stendur til að líða það að fiski sé hent og ekki stendur til að líða það að fiski sé landað fram hjá vigt og ekki stendur til að líða að veitt verði umfram aflaheimildir.

Auðvitað er því ekki þannig varið að lög af þessu tagi feli í sér töfralausnir og þau leysi sjálfkrafa slíkan vanda. En flestir eru á einu máli um, og þar á meðal þeir forustumenn samtaka sjómanna og útvegsmanna sem hér hafa um vélað, að nauðsynlegt sé að til staðar séu lagaákvæði af þessu tagi til þess að tryggja það samstarf sem þarf að eiga sér stað í þessu efni og gera það mögulegt að snúa þróuninni við og bæta umgengnina. Markmið frv. er því fyrst og fremst að leggja grundvöll að því að taka á þeim vandamálum sem verið er að fjalla um.

Segja má að í frv. felist þrír höfuðþættir. Fyrsti þátturinn lýtur að veiðunum sjálfum og hvað þær varðar er lagt til að lögfest verði bann við að landa fiski í hafið og óheimilt verði að hefja veiðiferð nema skip hafi veiðiheimildir af þeim tegundum sem líklegt er að náist í veiðiferðinni, þar með talinn líklegum meðafla sem svo er kallaður. Skylt verði að draga reglulega veiðarfæri sem skilin eru eftir í sjó, svo sem línu og net og heimilt verði að draga veiðarfærin á kostnað eiganda sé því ekki sinnt.

Annar höfuðþáttur frv. lýtur að vigtun sjávarafla og í ákvæðum er lúta að því viðfangsefni er kveðið skýrar á um skyldur og ábyrgð þeirra aðila sem koma að vigtun sjávarafla, svo sem skipstjóra, ökumanna flutningstækja, starfsmanna hafnarvoga og kaupenda. Þeir bera allir hver fyrir sig ábyrgð á því að rétt sé staðið að málum.

Þá er það nýmæli lagt til að óheimilt verði að landa sjávarafla í öðrum höfnum en þeim sem hafa fullnægjandi vigtunaraðstöðu. Þar er þó veitt visst svigrúm til aðlögunar en að öðru leyti er ákvæði um vigtun að miklu leyti samhljóða gildandi reglugerð um vigtun sjávarafla.

Í þriðja meginþætti frv. er fjallað um framkvæmd laganna og viðurlög. Þar er lagt til að skýrt verði kveðið á um viðbrögð stjórnvalda vegna brota á lögunum og er það mikilsvert nýmæli. Gert er ráð fyrir að skip verði svipt leyfi til veiða í atvinnuskyni í ákveðinn tíma og að ítrekun varði lengri leyfissviptingu. Þá er gert ráð fyrir að aðili geti misst leyfi til vigtunar afla standi hann ekki rétt að vigtun og að unnt verði að svipta uppboðsmarkað starfsleyfi vegna brota á reglum um vigtun sjávarafla. Jafnframt er í frv. kveðið á um sektir við brotum á lögunum og auk þess að stórfelld og ítrekuð ásetningsbrot geti auk sekta varðað varðhaldi eða fangelsi.

Á það skal lögð sérstök áhersla að hinum þyngstu refsingum, sem hér er talað um, er aðeins ætlað að vera beitt í tilvikum þar sem brot eru stórfelld eða þau eru margítrekuð. Í áfangaskýrslu, sem samstarfsnefndin um bætta umgengni um auðlindir sjávar skilaði í desember 1994, var m.a. lagt til að heimild til að hluti af undirmálsfiski teljist til aflamarks verði afnumin og allur undirmálsafli teljist til aflamarks. Ástæðan var sú að ofmikil brögð voru talin vera að því að fiski, sem var ekki undirmálsfiskur, væri landað í skjóli þessarar heimildar. Þessari tillögu nefndarinnar var fylgt eftir með reglugerðarbreytingum.

Talsverð umræða hefur spunnist um réttmæti þeirrar ákvörðunar og í framhaldi af því óskaði ég eftir því við nefndina að hún tæki tillögugerð sína í þessu efni til endurskoðunar. Nefndin tók málið til umfjöllunar og skilaði nýju áliti. Þar kemur fram að hún hefur endurskoðað fyrri afstöðu og leggur til að á ný verði sett í lög heimild um að hluti af undirmálsafla verði ekki tekinn til aflamarks. Í samræmi við þetta var reglugerð þar að lútandi breytt og hafa þær nýju reglur tekið gildi.

[14:00]

Nefndin lagði síðan á það sérstaka áherslu að auk lagabreytinga yrði skoðað skipulag veiðieftirlitsins með það að markmiði að gera það virkara og kanna sérstaklega hvort auka mætti samstarf veiðieftirlits Fiskistofu og Landhelgisgæslunnar. Nú er unnið að því á vegum ráðuneytisins og Fiskistofu að grandskoða þetta skipulag og kanna, eins og lagt hefur verið til af nefndarinnar hálfu, hvernig ná megi meiri virkni í þetta starf með samvinnu veiðieftirlits og Landhelgisgæslu.

Það er engum vafa undirorpið að sú verndarstefna sem fylgt hefur verið á undanförnum árum hefur verið að skila árangri. Enn er þó margt sem við getum betur gert í þeim efnum. Við höfum með mjög markvissum hætti, einkanlega að því er þorskstofninn varðar, dregið úr aflaheimildum. Við höfum lokað stórum uppeldissvæðum þorskstofnsins. Við höfum við ýmsar veiðar sett strangari skilyrði fyrir notkun veiðarfæra í þeim tilgangi að draga úr smáfiskaveiði og seiðadrápi og við höfum lokað og bannað veiðar yfir háhrygningartímann á stórum hafsvæðum. Allt þetta hefur verið að skila árangri og í samræmi við þær niðurstöður sem komu fram í síðustu ársskýrslu Hafrannsóknastofnunar bendir nú flest til þess að þorskstofninn sé að braggast og við getum vænst þess að þorskveiði fari smám saman vaxandi á nýjan leik. En við stöndum frammi fyrir vandamálum að því er varðar ýmsar aðrar veiðar og ég nefni sérstaklega karfaveiðarnar og grálúðuveiðarnar.

Ég tel mjög mikilvægt að þær tillögur sem samstarfsnefndin hefur lagt hér fram sem grundvöll þess að unnt verði af hálfu stjórnvalda og sjómanna og útvegsmanna sjálfra að bæta umgengnina, verði lögfestar á þessu þingi. Samstarfsnefndin mun starfa áfram og veita ráðuneytinu ráðgjöf um það sem betur má fara því að það er vissulega svo að við leysum þessi mál aldrei í eitt skipti fyrir öll. Nýr formaður nefndarinnar, Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambandsins, lýsti því yfir þegar tillögur nefndarinnar voru kynntar að hann mundi af sinni hálfu leggja höfuðáherslu á það að nefndin tæki fyrir sem næsta verkefni hvernig bæta mætti kjörhæfni veiðarfæra. Og ég geri ráð fyrir því að í samræmi við þessa yfirlýsingu verði fyrst og fremst hugað að þeim þáttum á næstunni.

Það er vissulega svo að í þessu efni hefur ýmislegt verið að gerast. Það hefur verið tekinn upp leggpoki við rækjuveiðar, það hafa verið teknir í notkun vegggluggar við humarveiðar, seiðaskilja er nú almennt áskilin við rækjuveiðar og hefur leitt til mjög verulegra umbóta. Nú kemur miklu minna af smáfiski sem meðafli við rækjuveiðarnar en áður og má segja að seiðaskiljan hafi að þessu leyti markað sérstök tímamót í þessum efnum.

Á döfinni eru tilraunir með smáfiskaskilju við botnvörpuveiðar og enn fremur eru fyrirhugaðar tilraunir með botnvörpu sem á að sleppa þorski að miklu leyti. Þannig eru fjölmörg verkefni sem við blasa í þessu efni. En það er mjög mikils um vert að stjórnvöld taki höndum saman við þá ábyrgu forustu í samtökum sjómanna og útvegsmanna sem vill taka á þessum vanda og okkur auðnist að setja þær nauðsynlegu lagareglur sem eru forsenda fyrir því að við getum haldið uppi virku eftirliti og skapað þann aga í hinum daglegu störfum að umgengnin um auðlindina batni.

Ég vænti þess að frv. fái ítarlega umfjöllun hér og meginefni þess þann nauðsynlega framgang sem óskað er eftir og legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og umfjöllunar hjá hv. sjútvn.