Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 14:06:39 (2531)

1996-01-30 14:06:39# 120. lþ. 79.1 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[14:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil í upphafi fagna þessu frv. Ég held að það sé tímabært að hér komi fram frv. að sérstökum lögum um umgengni um auðlindir sjávar. Margt er ágætt í þessu frv. og sumt verður að telja sjálfsagt úr því að lagasetning af þessu tagi á annað borð er á dagskrá.

En þetta frv. veldur einnig vonbrigðum að ýmsu öðru leyti. Því er áfátt að mínu mati um ýmislegt og það sem kannski alvarlegast er, það vantar í það heiðarlega tilraun til þess að takast á við meginfylgikvilla þess fiskveiðistjórnunarkerfis sem við búum við, þ.e. aflamarks, þ.e. þá hættu að meðafla af einstökum tegundum sé hent við slíkar aðstæður almennt séð. Ég held að ekki sé um það deilt að okkur hafi í heildina tekið farið verulega fram hvað varðar umgengni um sjávarauðlindina og hvað varðar alla meðhöndlun afla, en samt sem áður má þar ýmislegt betur fara enn sem komið er.

Í fyrsta lagi vil ég, herra forseti, gera hér að umtalsefni samsetningu þeirrar nefndar sem stóð að samningu þessa frv. eða skilaði hæstv. sjútvrh. skýrslu þeirri sem er grundvöllur frv. Það vekur strax athygli að í þessari nefnd sátu engir fulltrúar smábátasjómanna eða smábátaútgerðarinnar og það verður í fljótu bragði ekki heldur ráðið af efni frv. að sjónarmið smábáta og bátaútgerðar hafi yfirleitt átt þar upp á pallborðið. Það vekur t.d. athygli að eina beina og umtalsverða takmörkunin sem lögð er á einhvern tiltekinn hóp útgerðarmanna í landinu snýr að sérstöku veiðibanni á bátum og smábátum sem róa með net tiltekinn hluta ársins.

Ég vil líka láta þá skoðun mína koma fram að í nefnd af þessu tagi væri ástæða til að fulltrúar jafnvel fleiri þátta sjávarútvegsins væru til staðar, ósköp einfaldlega sökum tengsla veiðanna við vinnsluna í landi og ýmsa aðra hagsmuni í greininni. Það eru að mínu mati full rök til þess að aðrir en þeir sem koma í þrengsta skilningi að veiðunum beint geti átt hagsmuna að gæta eða eigi að hafa um það að segja með hvaða hætti þessum hlutum er skipað. Ég nefni þar t.d. þætti eins og þá að ná sem mestu og auðvitað helst öllu af því hráefni sem á annað borð er tekið úr auðlindinni á hafi úti og landað síðan til einhverrar verðmætasköpunar. Og þá geta önnur sjónarmið en þau sem snúa að útgerðinni eða útgerðarhagsmunum í þrengsta skilningi átt fyllilega rétt hjá sér.

Fjölmörg ákvæði þessa frv., herra forseti, eru eins og ég sagði áðan fullkomlega eðlileg og sjálfsögð. Ég tel til að mynda sjálfsagt að grundvallarregla laga af þessu tagi sé sú að bannað sé að henda fiski í sjóinn. Það sé grundvallarreglan sem annað byggi á. Ég tel í öðru lagi að það sé einnig eðlileg grundvallarregla að allur afli skuli koma að landi til vinnslu hér, nema annað sé sérstaklega heimilað. Þetta tvennt ætti að byggja meginundirstöðuna undir þá hugsun sem að baki liggur auk almennrar nýtingar og velsæmissjónarmiða í sambandi við alla framgöngu manna.

Í þriðja lagi er auðvitað eðlilegt, herra forseti, að einhver viðurlagaákvæði fylgi í lögum af þessu tagi. Það vekur efasemdir mínar í vissum tilvikum hvort fésektir eða jafnvel fangelsi séu eðlileg eða nauðsynleg viðurlög strax við brot af þessu tagi og hvort ekki sé heppilegra að byggja viðurlögin inn í sjálft stjórnkerfið með þeim hætti að almenna reglan sé svipting veiðiheimilda eða einhverjar takmarkanir af því tagi sem lúti að umsvifum í greininni sjálfri. Það held ég að sé að mörgu leyti farsælla. Ég geri því þá almennu athugasemd við viðurlagakaflann að þar mætti vera meiri áhersla á slík innri viðurlög, ef svo mætti að orði komast, en minni á ytri viðurlög eins og fésektir eða fangelsisvist.

Þá vil ég nefna, herra forseti, ákvæði 3. gr. frv. sem lýtur að því að bátum undir 20 brúttótonnum að stærð sé óheimilt að stunda veiðar með þorskfiskanetum frá 1. nóvember til febrúarloka. Ég hef efasemdir um að þarna sé í raun og veru með skynsamlegum eða réttlátum hætti verið að fjalla um málefni eins einstaks hluta af útgerðinni. Ég hef farið yfir það hvaða rökstuðningur liggur að baki þeirri almennu fullyrðingu að þarna sé sérstök ástæða til að beita bannákvæðum af þessu tagi. Ekki er margt um þetta sagt í lagagreininni sjálfri því að hún er ekki nema tvær og hálf lína og ég las meiri hlutann af henni. Ekki er heldur margt um þetta sagt í umsögn um 3. gr. með frv. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Lengi hefur verið rætt um að banna eigi minnstu bátunum netaveiðar að vetrarlagi, fyrst og fremst vegna þess að þeir nýti afla illa og hendi miklu vegna þess hve oft veður hamlar að vitjað sé um net, en einnig af öryggisástæðum. Umgengnisnefndin gerir tillögur um slíkt bann samanber IV. kafla, lið 2.5 í fskj. I með frumvarpinu. Það er nokkuð vandasamt að ákveða til hvaða stærðar báta og hvaða tímabils slíkt bann skuli taka. Nefndin gerir tillögur um síðara atriðið og er þeim fylgt í frumvarpi þessu.`` --- Fyrst var ætlunin að miða við 30 tonn en síðan varð niðurstaða þessa frumvarps að þau skyldu vera 20.

Þá er að leita að rökstuðningi fyrir svo býsna stórum fullyrðingum um að þessi hluti veiðanna á þessum tíma nýti afla illa og hendi miklu. Hvar er hann í skýrslunni? Við skulum líta á það, herra forseti, en þar segir um þetta efni að banna ætti minnstu netabátum að stunda netaveiðar yfir háveturinn, þ.e. nóvember til febrúar, þegar veður er verst og oft ekki hægt að vitja neta nógu reglulega. Og endar þar rökstuðningur, ef rökstuðning skyldi kalla, fyrir því að taka þennan hóp sérstaklega út úr og fullyrða með býsna sveru orðalagi að þarna sé um alveg sérstaklega slæma umgengni um auðlindina að ræða. Ég tel þetta, herra forseti, ekki nógu vandaðan rökstuðning fyrir grófri mismunun sem í raun og veru er þarna lögð til. Og ég leyfi mér að fullyrða að þeir menn sem þarna hafa vélað um hafa ekki farið nógu vel ofan í saumana á þeim miklu breytingum sem hefur orðið á sóknarmynstri báta af þessu tagi á undanförnum árum. Það er fullyrt við mig af mönnum sem þekkja mjög vel til sem þátttakendur í þessari útgerð, af þeim mönnum, sem kaupa af þeim hráefnið, af þeim mönnum sem veita þeim þjónustu í höfnum og þekkja mjög vel til þeirra útgerða að það heyri að mestu leyti sögunni til að net þessara báta liggi yfir höfuð í sjó ef vondu veðri er á annað borð spáð eða ef helgi er fram undan.

[14:15]

Margir fiskverkendur og fiskkaupendur, t.d. hér um suðvestanvert landið, á Suðurnesjum, í Hafnarfirði, á Snæfellsnesi og víðar segja að þetta sé einfaldlega besta hráefni á Íslandi í dag og fiskurinn af þessum bátum sé nær undantekningarlaust fyrsta flokks hráefni. Ástæðan fyrir því að þessir bátar sækja nokkuð í að róa einmitt á þessum árstíma sem hér um ræðir er einfaldlega sú að þá gefa markaðsaðstæður oft mjög gott verð fyrir hráefnið þannig að takmarkaður kvóti bátanna nýtist mjög vel til tekjuöflunar fyrir viðkomandi aðila. Kvótakerfið veldur svo því að þessir bátar hafa yfirleitt engan hag af því að láta net liggja í sjó í reiðuleysi í ótíð eða um helgar ef ekki er kostur á að vitja þeirra af þeirri einföldu ástæðu að þeir eru ekki í nokkrum minnsta vanda með að ná sínum veiðiheimildum. Það þjónar engum tilgangi fyrir þá að taka á sig veiðarfæratjón eða annað óhagræði með því að standa þannig að útgerðinni. Ég geri ekki lítið úr að að því hafi verið of mikil brögð áður fyrr að útgerðarhættir minni netabáta gætu þýtt slakara hráefni eða hugsanlega hitt að fiski væri í meira mæli hent, en ég leyfi mér að fullyrða að það sé órökstutt að svo sé nú. Þetta atriði, herra forseti, tel ég að þurfi að athuga mun betur.

Ég tel, herra forseti, að það sé líka spurning hvort inn í frv. af þessu tagi eigi ekki að koma ýmis fleiri almenn grundvallaratriði sem varða umgengni okkar um auðlindina. Ég tel t.d. að inn í svona umgengnisfrv. eigi að koma almenn grundvallarregla um sjálfbæra nýtingu lífríkisins. Ef hún á einhvers staðar heima, þá á hún heima hér að mínu mati. Það á að vera alger hornsteinn og grundvöllur fiskveiðilöggjafar okkar og þá alveg sérstaklega þess hluta hennar sem lýtur að umgengni um auðlindina að við ástundum sjálfbæra auðlindanýtingu. Útgangspunktur okkar í allri umgengni og ákvarðanir um nýtingu á t.d. fiskstofnum á að vera hyrningarsteinn umhverfisvænna sjónarmiða. Í því sambandi mætti vísa til alþjóðlegra skuldbindinga okkar og sáttmála sem við höfum gerst aðilar að, til að mynda samþykkta umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Rio de Janeiro.

Í öðru lagi ætti nýtingarstefna, almenn grundvallarstefna um hámarksnýtingarsjónarmið að vera inni í svona frv. Ég minni á að Íslendingar búa við fágæta stöðu hvað varðar möguleika á próteinframleiðslu til manneldis úr sínum auðlindum. Í sveltandi heimi þar sem vaxandi fólksfjöldi gerir síauknar kröfur til fæðu, hlýtur það að vera mikilvægt að þjóðirnar setji sér réttláta og sanngjarna nýtingarstefnu sem miði að hámarksafrakstri framleiðslu af þessu tagi.

Í þriðja lagi nefni ég sem álitamál um almennt grundvallaratriði sem gæti átt heima í svona frumvarpi. Það eru viðhorf til vistvænna veiðarfæra. Ef það á einhvers staðar heima, þá á það heima í frv. af þessu tagi að sett sé fram sem almennt grundvallarsjónarmið að við viljum byggja okkar sókn á vistvænum veiðarfærum að breyttu breytanda eins og kostur er.

Herra forseti. Það mætti ýmislegt segja um það sem bæta mætti þarna við. En alvarlegasta vöntunin í frv. er þó að mínu mati sú að ekki er með neinum trúverðugum hætti glímt við aðalvandamálið sem flestir telja að sé samfara fiskveiðistjórnun með aflamarki. Það er hættan á að almennt geti það leitt til freistinga til að henda afla fyrir borð. Það er ekki gert. Því miður er ekki að finna í frv. nein ákvæði um meðafla eða aðrar slíkar ráðstafanir sem flestir hafa talið að væru óhjákvæmilegar ef takast eigi að sneiða fram hjá hættum sem fylgja aflamarkskerfi umfram sóknartakmarkandi kerfi og önnur slík. Það er ekki um það deilt að þegar fiskveiðistjórnunin byggir á takmörkun aflans sem að landi kemur og er vigtaður, þá liggja þessar freistingar í aðstæðunum.

Ég er þeirrar skoðunar og hef verið um nokkurt árabil að einasta leiðin til þess að samþætta fiskveiðistjórnun með aflamarkskerfi annars vegar og hámarksnýtingarstefnu hins vegar sé sú að leyfa samkvæmt einhverjum settum reglum, löndun á meðafla. Ég sé ekki að því þurfi að fylgja þau vandkvæði að ekki verið við það ráðið. Það er a.m.k. miklu skárri hinu að búa við þær aðstæður varanlega og til frambúðar að þessi hætta sé fyrir hendi. Við vitum vel að við leysum vandann ekki með þyngdum viðurlögum. Það er ekki aðferðin. Lögregluríkið mun ekki verða lausnarorðið hér frekar en annars staðar. Ég hef séð þetta þannig fyrir mér að það verði tilteknar heimildir til þess að landa afla sem hafi komið um borð í veiðiferð, jafnvel þótt umfram kvóta viðkomandi skips sé. Það mætti gera kröfu um að menn tilkynntu það samstundis ef þannig væri orðið ástatt í veiðiferð að komið hefði upp afli sem væri umfram veiðiheimildir skipsins á líðandi stundu. Sá afli væri sérstaklega aðskilinn og frá honum gengið. Hann kæmi að landi og væri sérstaklega veginn. Útgerðin eða áhöfnin fengju lágmarkstilkostnað greiddan, sem næmi beinum útlögðum kostnaði við að færa aflann að landi. Hann væri síðan seldur á opinberum markaði og fénýttur til einhverra þarfra málefna. Menn hafa gjarnan séð fyrir sér aflann nýttan til hluta eins og öryggismála sjómanna eða aukinna rannsókna í lífríkinu þannig að í ráðstöfun fjármunanna lægi líka hvatning til handa sjómönnum að færa þessi verðmæti að landi. Ég er ekki viss um að vandamálið sé bundið við þennan hóp smábáta sem ég gerði áðan að umtalsefni og ég sakna þess að tekið sé á vandamálinu að því er lýtur að stærri skipum. Það er ekki minnst á það í frv. að þar séu líka hættur á ferðinni af því tagi sem sérstaklega eru nefndar þegar rætt er um báta sem stunda netaveiðar og eru undir 20 tonnum.

Reynslan af undirmálinu sem hæstv. sjútvrh. kom aðeins inn á ætti að vera mönnum nokkurt umhugsunarefni. Undirmálið er meðafli. Það er búið að vera þannig að um langt árabil hefur ein tegund meðafla mátt koma að landi utan kvóta. Það er undirmál. Hvað gerðist þegar snillingunum sem sömdu skýrsluna datt það í hug að banna þetta? Hann hætti að koma að landi. Það brá svo undarlega við nánast frá dags ,,dato`` að undirmál hætti að fara í troll, hætti að koma í net, hætti að lenda á krókum og sást bara ekki meir. Eða trúir einhver að ástæðan hafi verið að boðin hafi skilað sér svona vel niður í hafdjúpin og undirmálið hafi tekið þessa ákvörðun nefndarinnar svona alvarlega að það hafi synt á fullri ferð í burtu frá öllum veiðarfærum, frá og með því að reglugerðin var gefin út? Ég held ekki.

Og hver varð niðurstaðan? Hún varð sú og það skal þakkað, að þegar menn sáu að þetta gekk auðvitað ekki, voru þeir þó menn til að viðurkenna mistökin og taka aftur inn reglu um að hluti af undirmáli mætti koma að landi án þess að teljast til kvóta. Það er lofsvert þegar menn eru þó menn til þess að læra af reynslunni.

Herra forseti. Ég tel að langstærsta málið sem tengist umgengnismálum og þessu umgengnisfrv. sé spurningin um það hvort menn reyni með einhverjum trúverðugum hætti að takast á við þennan fylgikvilla aflamarkskerfisins og byggja úrræði af þessu tagi inn í stjórnkerfið því að ég gef mér það að a.m.k. um eitthvert árabil verði byggt á þessu stjórnkerfi. Annað er ekki í kortunum eins og stendur og ég heyrði engin orð falla um það hjá hæstv. sjútvrh. að hann hygðist gerbreyta um fiskveiðistjórnunarkerfi og þess þá heldur sakna ég þess að ekki væri komið inn á þessa hluti. Ég tek það að vísu fram að ég tel regluna í 4. gr. frv. að óheimilt sé að hefja veiðiferð nema að viðkomandi skip hafi veiðiheimildir sem ætla megi að dugi í ferðina, að sjálfsögðu góða reglu og vera til bóta í þessu sambandi. En við vitum að því miður mun hún ekki duga vegna þess að menn geta leyst það vandamál einfaldlega með því að sjá alltaf til þess að þeir eigi sem svarar einum túr af kvóta í viðkomandi tegundum þó að svo gangi kannski ekkert á hann mánuðum saman af einhverjum ástæðum. Þannig er þetta nú. Þannig að svo ágæt regla og svo sjálfsögð sem hún er, setur ekki undir þennan leka, því miður.

Ég vil svo, herra forseti, að lokum spyrja hæstv. sjútvrh. um eitt atriði sem mér finnst óljóst í sambandi við stöðu frv. Það er samhengi þess við nýtingarákvæðin gagnvart vinnsluskipunum á sjó úti. Nú vitum við að þau mál standa þannig ef rétt er munað, að strax næsta haust á að ganga í gildi regla um að vinnsluskip á hafi úti færi allt að landi sem upp kemur. Ástandið er hins vegar þannig nú að fjöldinn allur af vinnsluskipum hefur ekki einu sinni gert tilraun til að útbúa sig til þess að uppfylla þessa reglu þannig að þau munu þá væntanlega, haldi menn þessari stefnu til streitu, í stórum stíl missa vinnsluleyfi sín næsta haust.

Það er jafnvel fullyrt að skip sem nýlega hafa verið byggð eða komið inn í flotann og hafa útbúnað til að vinna úr öllu, geri það ekki því það sé slökkt á bræðslununum í nýju, glæsilegu frystitogurunum Íslendinganna og hausar og bein hökkuð og þeim dælt í sjóinn. Þetta er ekki gott ástand, herra sjútvrh. Við skulum ekki gera tilraun til að fara með umgengnisfrv. um auðlindir sjávar í gegnum Alþingi án þess að taka á þessu máli og ræða opinskátt og af hreinskilni. Hvað ætlum við að gera í þessu vandamáli? Mér er að sönnu ljóst að afkoman er ekki glæsileg fyrir þá sem eiga að taka á sig, við skulum segja þá kvöð, að skila öllu þessu að landi. En á hinn bóginn er ekki hægt að stinga hausnum í sandinn og láta eins og menn sjái ekki vandamálin. Það er ekki uppburðugt af okkar hálfu. Ég tel, herra forseti, nauðsynlegt að fara mjög vel yfir þessa þætti. Mörgu fleiru gæti ég þar bætt við, en læt tímans vegna staðar numið.