Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 14:27:21 (2532)

1996-01-30 14:27:21# 120. lþ. 79.1 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[14:27]

Svanfríður Jónasdóttir:

Virðulegi forseti. Að mínu mati er hér komið fram eitt af stærstu málum þessa þings vegna þess að það lýtur að okkar undirstöðuatvinnugrein. Ég vil strax nota tækifærið og koma að athugasemd varðandi það sem fram kemur í greinargerð að 80% af útflutningstekjunum komi frá sjávarútveginum. Það er ástæða til að þeir átti sig á því í sjútvrn. að sem betur fer erum við komin með útflutningstekjur af mun fleiru en sjávarútvegi þó að það sé rétt að sjávarútvegurinn eigi 80% af vöruútflutningi. En þetta var svona í framhjáhlaupi.

Þetta er eitt af stóru málunum vegna þess að það hafa verið mikil átök um sjávarútvegsstefnuna og það er ekki fyrir séð að þeim átökum muni linna, enda eðlilegt þar sem miklir hagsmunir eru í húfi. En það er líka alveg ljóst að fólkið í landinu hefur sínar skoðanir á sjávarútvegsstefnunni og snýst gegn henni og hefur þar með áhrif á stjórnmálamenn, ekki hvað síst vegna tveggja hluta. Í fyrsta lagi lýtur gagnrýni fólks mjög að því að hér skuli tilteknum aðilum vera úthlutað ókeypis heimildum til þess að veiða í landhelginni og þeir skuli jafnframt geta selt eða leigt fyrir gjald þessar heimildir án þess að nokkuð komi til réttmæts eiganda auðlindarinnar sem er þjóðin sjálf samkvæmt lögum.

[14:30]

Í öðru lagi hefur fólk gagnrýnt mjög harðlega hversu miklu er kastað í sjóinn af nýtanlegu hráefni. Það sem menn eru að tala um þegar rætt er um útkast á fiski er fyrst og fremst byggt á þeim sögusögnum sem við öll höfum heyrt. Það gengur ekki eins vel að bera þær til baka þó svo að einhverjir reyni slíkt og jafnvel þó að fullyrt sé af þeim sem best þekkja til að umgengni um auðlindina fari batnandi, þá dugar það ekki til. Það veldur óróa meðal fólksins í landinu sem hefur áttað sig á því að hafið er ekki auðlind sem við getum sótt í án takmarkana að mönnum skuli líðast að henda verðmætum sem ella væri hægt að nýta og skapa með því aukna atvinnu og auknar tekjur. Af þessum ástæðum, herra forseti, vil ég endurtaka að þetta mál hlýtur að vera eitt af stærstu málunum vegna þess að ef við getum ráðið nokkra bót á umgengninni, ef við getum komið þeim skilaboðum út að verið sé að vinna að því að umgengnin batni og það sé með ábyrgum hætti verið að taka á því sem helst hefur verið gagnrýnt, þá tel ég það stórt skref í áttina að því að skapa umræðu á þingi og í þjóðfélaginu um aðra hluti sem kunna að skipta máli varðandi stjórn sjávarútvegs okkar, önnur atriði en þetta eða það sem ég ræddi um áðan og lýtur að sölu veiðiheimilda. Á því máli getur þingið nú einnig tekið í vetur því eins og menn þekkja þá er hér til umfjöllunar þáltill. um upptöku veiðileyfagjalds sem mundi mæta þeirri gagnrýni að verulegu leyti.

Eins og ráðherrann gat um áðan þá má skipta frv. í þrjá þætti. Sá fyrsti lýtur að því að allur afli eigi að koma að landi og fjallar um það hvernig það megi gerast og jafnframt hvaða undantekningar þar megi gera á. Tilgangurinn er augljóslega sá að koma í veg fyrir að nýtanlegum meðafla sé hent í sjóinn. Ég fagna því að í frv. örlar á að menn átti sig á að það þarf að mæta veruleikanum eins og hann blasir við. Mér finnst ekki mikil óskhyggja í frv. Mér finnst það byggja á tilteknum veruleika þó að ég kysi að lengra væri gengið í ýmsum atriðum.

Það er ljóst að menn reyna að taka tillit til þess að við þurfum að reka arðbæra útgerð í landinu. Menn reyna líka að taka tillit til þess að sjómenn vilja fá tekjur fyrir vinnu sína rétt eins og aðrir þjóðfélagshópar. Tilgangurinn er sá að menn komi með sem verðmætastan afla að landi og þar fara hagsmunir sjómanna og útgerðar saman. Þetta vil ég marka af því að það er tekið fram í athugasemd um 2. gr. að afla megi henda eða það þurfi ekki að koma með afla að landi en þar segir: ,,... enda hafi tegundin ekki verðgildi.`` Í öðru lagi segir varðandi það sem má varpa fyrir borð af afskurði og öðru slíku: ,,... enda verði þessi fiskúrgangur ekki nýttur með arðbærum hætti.``

Ég veit að við vildum öll að þarna gæti staðið afdráttarlaust að allt ætti þetta að koma að landi. En mér sýnist að hér sé verið að reyna að sætta annars vegar þá eðlilegu kröfu að allt komi að landi, allt nýtanlegt sé nýtt, og hins vegar þá kröfu sem við gerum til útgerðarinnar um að hún sé rekin með arðbærum hætti og sjómenn hafi tekjur fyrir sína vinnu.

Ég held að það hafi allt of lengi verið svo í vitund okkar býsna margra að hægt væri að gera kröfur bæði til útgerðar og sjómanna að farið væri í ýmsar aðgerðir, vinnu og fleira, án þess að menn hefðu nokkuð fyrir sinn snúð. Nú er það svo að það er ekkert óeðlilegt að ætlast til að menn leggi svolítið á sig og kannski mikið í ýmsum tilfellum til verndar auðlindinni en þarna verðum við auðvitað að reyna að finna hvar mörkin liggja.

Dæmið sem hv. síðasti ræðumaður nefndi um reglugerðina varðandi undirmálsfiskinn sýnir okkur best hvers er að vænta ef reglurnar eru í hróplegu ósamræmi við þann veruleika sem gerlegt er að byggja þær á eða í ósamræmi við það sem framkvæmanlegt er. Ég held að í frv. séu og lúti þá að I. kafla frv. eins og ég sagði, ýmis atriði sem eru til þess fallin að laða fram og treysta það ágæta samstarf sem ráðherrann hæstv. lýsti áðan. Ég er nokkuð viss um að hv. nefnd mun fara vandlega yfir þennan kafla til þess að reyna enn frekar að laga ákvæði frv. að þeim veruleika sem við búum við og einnig að laga hann að því sem við viljum ná fram og teljum gerlegt.

II. kafli frv. er af allt öðrum toga. Hann fjallar meira um kerfið sjálft, þ.e. aflamarkskerfið og eftirlit með því. Eftirlit með því hversu mikill afli kemur að landi úr hverju skipi. Hvernig bæði þeir sem vigta afla og flytja eru gerðir ábyrgir fyrir því að menn séu ekki með einum eða öðrum hætti að koma með að landi afla sem ekki rúmast innan þeirra veiðiheimilda.

Í þriðja lagi er fjallað um framkvæmd laganna og viðurlög. Þegar við komum að viðurlagakaflanum finnst mér nokkuð langt seilst í refsigleðinni. Ég er alveg klár á því að við þurfum að hafa ákveðin refsiákvæði til viðvörunar. Ég er líka alveg klár á að þau munu fæla einhverja frá hugsanlegum brotum í þessu tilfelli eins og í öllum öðrum tilfellum þar sem þau eru sett inn. Þau mega hins vegar ekki verða afkáraleg og þau verða að ríma eðlilega við það sem verið er að refsa fyrir. Þannig held ég að svipting veiðiheimilda sé refsiatriði sem við ættum að skoða mun nánar. Ég held að þessi kafli í heild sinni þurfi skoðunar við hvað varðar viðhorf vegna þess að það liggur á borðinu að árangri í þessum efnum --- mér fannst það reyndar koma fram hjá hv. ráðherra --- náum við frekar með jákvæðri umbun en tómum refsingum.

Fyrir sex eða sjö árum þá mælti sú sem hér stendur fyrir þáltill. sem laut að því að sjómönnum yrði skylt að koma með allan meðafla að landi, undirmál sem annað og að með það yrði farið þannig að sjómenn ættu andvirði þess afla, enda yrði hann boðinn upp á markaði. Þessi afli kæmi því ekki í hlut útgerðar. Hugsunin var sú að með því gæti myndast ákveðin togstreita, þ.e. útgerð hefði lítinn áhuga á því að sjómenn væru uppteknir meira og minna við að ganga frá afla sem þeir ættu sjálfir og ef hann kæmi síðan allur að landi og um mikið magn væri að ræða yrði að treysta því að almenningsálitið og fjölmiðlar kæmu þar til sögunnar.

Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að skoða hugmyndir af þessu tagi. Fleiri hafa verið reifaðar, flestar í þá veru að löndun á meðafla verði leyfð og að greitt verði tiltekið hugsanlega lágt gjald sem taki mið af kostnaði við að koma slíkum afla að landi og þá að sjómenn eða samtök þeirra, sem er engu lakari hugmynd, fái andvirði aukaflans. Það er nauðsynlegt að sá afli sé boðinn upp á markaði vegna þess að öðruvísi kemur tæpast í ljós, ef um nýjar tegundir er að ræða, hvort viðkomandi tegund hefur verðgildi. Ég held sem sagt að við eigum að skoða refsikaflann bæði út frá því hvers lags refsingum er lagt til að verði beitt og hvort ekki er hægt með jákvæðum hætti að draga úr brotum.

Ég fagna því að nefnd um umgengni við auðlindir sjávar starfar áfram og þeirri áherslu sem hún leggur á notkun veiðarfæra. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt og það sé fullkomlega á sínum stað innan nefndarinnar. Mér finnst einnig skipta máli að það kemur fram í 6. gr. frv. að öllum afla sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að einhverju eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands verði landað og hann vigtaður í íslenskri höfn. Í greininni er reyndar strax gefin undanþága frá þessu. En ég held að þetta sé mjög mikilvægt atriði, ekki bara af því að við þurfum að ná í þennan afla til að vigta hann, heldur ekki síður vegna þess að það er mjög mikilvægt að íslenskri fiskvinnslu gefist kostur á að fá afla sem veiddur er í landhelginni til vinnslu eða íslenskum aðilum til umfjöllunar að öðru leyti, til sölu eða annarra hluta. Ég held því að þetta atriði sé mikilvægt ekki einungis til aðhalds kvótakerfinu heldur líka vegna fiskvinnslunnar í landinu. Ég vil a.m.k. líta þannig á það nú.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frv. á þessu stigi máls. Það á eftir að fjalla mikið um það í þinginu geri ég ráð fyrir. Málið er það stórt að það á það skilið og það merkilegt að það hlýtur að vekja langa og mikla umræðu bæði í nefnd og síðan áfram í þingsölum.