Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 14:43:35 (2533)

1996-01-30 14:43:35# 120. lþ. 79.1 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[14:43]

Árni R. Árnason:

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum er eitt af þeim mikilvægustu sem ég hef kynnst í þinghsölum. Við Íslendingar erum þjóð sem um allan meginþrótt atvinnulífs og efnahagsstarfsemi treystir á afkomu og heilbrigði auðlinda sjávarins, hinar lifandi auðlindir hans. Við erum því sérstaklega háðir þeirri velgengni sem þar felst. Umgengni okkar sjálfra er af þessum sökum afar mikilvæg og sennilega einhver mikilvægasti þátturinn í hátterni okkar eða framkomu við náttúruna yfirleitt.

Í þessu frv. birtist efnahagsleg nauðsyn á varfærni í nýtingu náttúrunnar og á því að áhrif verndunarsjónarmiða fái notið sín meðal rekstrarsjónarmiða. Í fáum málaflokkum verður sagt eins hreinskilnislega að þessi umhverfissjónarmið sem við getum kallað svo eigi jafnmikinn hljómgrunn í okkar máli eins og einmitt þegar við ræðum um auðlindir sjávarins og framtíðarafkomu sjávarútvegs.

Hæstv. sjútvrh. hefur gert góða grein fyrir frv. og þýðingu löggjafar um þetta viðfangsefni. Að öllu jöfnu erum við almennt sammála um það mikilvægi. Þó verður að huga að því að í þessu efni glímum við við tvö sjónarmið sem á stundum eru gjörólík. Annað er það að allur afli skuli nýtast og hitt að veiðimönnum verði ekki heimilt að fara yfir veiðiheimldir. Það verður að segjast eins og er að millivegurinn milli þessara sjónarmiða er oft býsna vandrataður og þau rekast víða á. Á allra síðustu árum hefur borið mjög á umræðu og vaxandi skilningi þeirra sem starfa í sjávarútvegi, ekki síst sjómanna sjálfra, fyrir bættri umgengni við auðlindina, bættri nýtingu aflans og aukinni varfærni í nýtingu eða í veiðisókninni. Sömu atriði og gerð hafa verið að umtalsefni í þessari umræðu og birtast í greinargerð með frv. hafa komið fram í máli manna við okkur þingmenn, ég held í hverju einasta kjördæmi, og sannarlega alls staðar þar sem sjútvn. þingsins hefur farið og hitt að máli starfsmenn og stjórnendur í sjávarútvegsfyrirtækjum. Það er ljóst af því að það er mikill og sterkur hljómgrunnur fyrir löggjöf um þetta efni og talin brýn þörf.

[14:45]

Í frv. eru nokkur atriði sem munu sannarlega gefa okkur góð tæki til að takast á við viðfangsefnið. En við þurfum að fara með nokkurri varfærni og ég vil í því efni geta sérstaklega tveggja atriða. Annars vegar er tillaga um meiri strangleika um veiðar hinna smærri netabáta en almennt er viðhöfð um veiðar smærri báta við notkun annarra veiðarfæra. Ég efast um að þetta sé réttmætt. Ég veit af eigin reynslu að útgerðarhættir þessara báta hafa batnað mjög síðasta áratug og þau orð sem eru höfð um starfshætti þeirra í skýrslu nefndarinnar, sem hefur unnið þetta frv., eiga ekki að öllu leyti við. Þess vegna tel ég rétt að við höfum sérstaklega vara á okkur um ákvæði um þetta til að við mismunum ekki frá almennri reglu nema til þess sé mjög greinileg ástæða og ekki vafi á að ástæða sé til.

Annað atriði hefur mjög komið hér til tals, þ.e. hvernig við eigum að ganga fram með refsingum. Það er rétt að við verðum að fara þar bil beggja. Annars vegar í því að refsimöguleikinn fæli frá brotum og hins vegar að refsingin sé ekki hvorki í eðli sínu né efni þyngri eða ólík brotinu. Að því leyti tel ég að það komi mjög til álita að beita ekki hinum almennu refsingum, sektum eða fangelsun, heldur nánast eingöngu strangri sviptingu veiðileyfa. Um yrði að ræða brot til að bæta eða auka tækifæri til tekjuöflunar og ég tel að það ætti að refsa þeim á ámóta hátt þannig að menn missi veiðileyfi um mun lengri tíma en þeir þurfa til að annast eðlilegar og nauðsynlegar viðgerðir á skipunum. Á þetta tvennt hefur verið bent af sjómönnum, þ.e. starfandi mönnum í sjávarútvegi.

Að öðru leyti vil ég ekki ræða málið á þessari stundu. Ég er tilbúinn til að taka þátt í athugun og mótun málsins. Ég veit að sjútvrh. mun hvenær sem er verða tilbúinn til að koma til móts við einhverjar þær hugmyndir sem við nefndarmenn kunnum að hafa eftir að hafa tekið frv. til athugunar og rætt það við ýmsa sem munu þurfa að búa undir nýjum lögum og ný lög þurfa að framkvæma.

Vegna þess að hér var vikið nokkrum orðum að annarri nefnd sem starfar á vegum sjútvrh. og endurskoðar lög um fullvinnslu botnfiskafla um borð í veiðiskipum vil ég geta þess að það starf hefur tafist á undanförnum vikum. En ég er þeirrar skoðunar að það muni brátt koma fyrir hæstv. ráðherra og hann muni geta unnið úr hugmyndum þeirrar nefndar.

Um það sem sagt var segi ég þá almennu skoðun mína að ég tel nauðsynlegt í því efni eins og öðru að hin almenna löggjöf liggi fyrir áður en við tökum til við sértæka löggjöf sem á að byggja á ramma hinnar almennu löggjafar. Það frv. sem við fjöllum nú um er raunverulega ný almenn löggjöf sem verður ytri rammi þess sem við gætum gert að viðfangsefni væntanlegra nýrra laga eða lagabreytinga, sem eiga við um útgerð fullvinnsluskipa, eins og við köllum þau. Ég tel líka rétt að við höfum í huga þegar þar að kemur að fyrir liggja mjög sterkar vísbendingar um að með núgildandi lögum um fullvinnsluskip hafi þeim verið mismunað á einhvern hátt miðað við önnur veiðiskip. Auðvitað verður líka að skoða hvort fullvinnsluskipum eru á einhvern hátt í löggjöf gefin betri tækifæri eða lakari en öðrum. Þetta er hið raunverulega viðfangsefni þegar við ræðum um fullvinnsluskip og það getum við betur gert en áður á grundvelli almennrar löggjafar um það hvernig við eigum að umgangast auðlindina í hverju við eigum að sýna varfærni og hvar við höfum heimildir til að hegða okkur líkt og áður.