Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 15:16:25 (2536)

1996-01-30 15:16:25# 120. lþ. 79.1 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, PHB
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[15:16]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég tek undir ummæli fyrri ræðumanna að hér er á ferðinni eitt mikilvægasta frumvarp sem við afgreiðum. Við erum að tala um nýtingu á aðalauðlind okkar og brottkast sem sumir segja að nemi milljörðum að verðmæti upp úr sjó. Það frumvarp sem hér liggur fyrir einkennist nokkuð mikið af boðum og bönnum. Menn reyna að ná tökum á vandanum með því að setja reglur og aftur reglur og viðurlög. Ég tek undir það sem hv. 4. þm. Vesturl., Guðjón Guðmundsson, sagði. Það er of mikið um reglur, boð og bönn. Ég vil leyfa mér að lesa 2. mgr. 4. gr., með leyfi forseta:

,,Óheimilt er að hefja veiðiferð skips sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni með aflamarki nema skipið hafi aflaheimildir sem telja má líklegt að dugi fyrir afla í ferðinni, jafnt þeirri tegund eða þeim tegundum sem veiði beinist sérstaklega að sem og líklegum meðafla af öðrum tegundum.``

Þetta er furðulegt ákvæði. Ætla menn að kanna í hvert skipti hvað skipið hugsanlega geti veitt? Eða á skipið að vera með nægilega miklar aflaheimildir af öllum tegundum til að geta veitt? Þetta verður mjög erfitt í framkvæmd. Þegar þorskkvótinn er almennt orðinn knappur og verðið hátt, munu sjómenn auðvitað henda þorskinum þó þeir séu með heimild fyrir honum af því að þeir fara líka út næsta dag. Þá þurfa þeir aftur að eiga heimild. Þeir munu því ekki ganga á þessa heimild, þeir munu gæta hennar og henda þorskinum. Þetta er hættan. Það sem við sem löggjafarsamkunda þurfum að kappkosta er að gæta þess að hagsmunir þegnanna fari saman við hagsmuni heildarinnar. Við megum ekki setja menn í þá stöðu að það sé hagkvæmara fyrir þá að gera eitthvað sem er óhagkvæmt fyrir þjóðina. Lagafrumvarpið hér gengur út á að mönnum sé skylt að koma með allan afla að landi en mönnum verður það ekki alltaf heimilt. Auðvitað verður mönnum að vera heimilt að gera það sem þeim er skylt að gera. Við þurfum að gæta þess að hagsmunir sjómanna og skipstjórnarmanna fari saman við hagsmuni þjóðarinnar. Við þurfum að setja okkur í spor þessara manna sem eru að veiða, hvað þeir gera og hvað þeir hugsa.

Herra forseti. Ég legg til að hv. sjútvn. skoði eftirfarandi kost sem að einhverju leyti kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingrími J. Sigfússyni, og hljóðar svona:

Skylt og heimilt verði að koma með allan afla að landi. Ekki bara skylt. Skipstjóri ákveði við löndun hvað af afla skipsins falli undir kvóta þess. Annar afli verði eign rannsóknastofnana sjávarútvegsins sem greiði útgerðinni fyrir hann svo lágt verð að ekki borgi sig að gera út á viðkomandi tegund en samt nógu hátt til að hvetja sjómenn til að koma með aflann að landi, t.d. 10--15% af markaðsvirði. Með þessari aðferð er leystur allur vandi með undirmálsfisk og meðafla. Þeir sem hafa komið út á sjó, ég varð nú þeirrar gæfu aðnjótandi að fara einu sinni einn túr á skipi, furða sig á því þvílíkur dýragarður kemur upp með dragnót. Hve margar tegundir koma í nótina. Og það er fráleitt að ætla sér að veiða bara þorsk, bara ufsa eða bara síld. Það kemur alltaf annar afli með og hvað eiga menn þá að gera við þann afla? Með þessari aðferð gætu t.d. síldveiðibáturinn komið með þorskinn að landi. Hann afhendir hann við löndun og fær smáverð fyrir þorskinn. Sjómennirnir munu áreiðanlega sætta sig við að fá lítið verð vegna þess að þeir vita að andvirði þessa afla fer til rannsókna þeim til hagsbóta, rennur til rannsóknastofnana sem er þeim til hagsbóta.

Mönnum þykir alltaf slæmt að henda verðmætum. Ég hef talað við sjómenn sem hafa lent í þeirri stöðu að verða að henda fiski. Þeim finnst það hart. Það á ekki að setja menn í þannig stöðu.

Herra forseti. Við þurfum að gæta þess að hagsmunir sjómanna og skipstjórnarmanna fari ætíð saman við hagsmuni þjóðarinnar. Það er meginmarkmiðið.

Það hefur sýnt sig erlendis þar sem menn hafa gætt mikið að umhverfisvernd að auðvitað streitast aðilar á móti slíku þegar á að fara að setja alls konar viðurlög fyrir rekstri og slíkt. En það hefur líka oft sýnt sig og kannski í flestum tilfellum að fyrirtækin græða á umhverfisvernd. Það kemur nefnilega í ljós að þau þurfa að nýta hráefnið betur og á annan hátt en gert hefur verið, þannig að þau græða á því. Það getur vel verið ef mönnum yrði gert að koma með allan afla að landi, þar á ég líka við innyflin og allt sem fylgir, að menn mundu útbúa skipin þannig að þeir á endanum hagnist á því.

Þegar við sjáum sjónvarpsmyndir af veiðum úti á hafi fylgir alltaf hverju skipi heilt ský af múkka. Og hvað skyldi fuglinn vera að gera? Hann er éta aflann sem er hent, alls konar innyfli, hausa og annað sem hent er. Markmiðið ætti að vera að múkkinn hverfi, hætti að éta aflann og aflinn sé fluttur í land þjóðinni til hagsbóta.