Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 15:52:00 (2542)

1996-01-30 15:52:00# 120. lþ. 79.1 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[15:52]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið, enda málið þess eðlis að það skiptir kannski ekki öllu máli hvort við ræðum það í nokkra klukkutíma eða nokkra daga. Við tæmum það víst seint. En ég kemst ekki hjá því að tjá mig aðeins vegna þess sem hæstv. sjútvrh. sagði um vandamál sem tengjast aflamarki og spurningu um lögleiðingu þess að einhvers konar meðafla verði heimilt að landa. Ég tek það skýrt fram að ég hef aldrei sagt það og aldrei verið þeirrar skoðunar að vandamál sem tengjast útkasti fisks séu eingöngu bundin við aflamark og hafi ekki komið til sögunnar fyrr. Það vill svo til að ég stóð í því að moka þorski út um lensport löngu áður en nokkurt kvótakerfi kom, norður á Hala um jólaleytið fyrir mörgum árum síðan. Þá var ekki kvótanum um að kenna heldur eingöngu því að menn náðu ekki að skipuleggja veiðarnar nógu vel. Það kom of mikið í trollið og eitthvað kramdist undir í móttökunni eins og gengur. Auðvitað hafa þessir hlutir alltaf þekkst og munu áfram verða að einhverju leyti fylgifiskur þess að menn veiði með stórvirkum veiðarfærum úr miklum geymi eins og hafið er.

En hinu verður ekki á móti mælt --- það þýðir ekki og það er barnalegt að lemja höfðinu við steininn í þeim efnum --- að aflamarkskerfinu fylgir viðbótarhætta í þessum efnum, viðbótarfreisting. Það er alveg borðleggjandi. Það þarf ekkert að fjölyrða um það, það skilja það allir menn. Við eigum að ræða málið nákvæmlega eins og það snýr að þessu. Ég tek þar undir orð hv. 3. þm. Vestf. að meðan þetta fiskveiðistjórnunarkerfi er við lýði, hvað sem okkur svo sýnist um það, hvort við erum sanntrúuð á það, algerlega andvíg því eða eitthvað þar á milli, svona heiðin í þeim efnum eins og sumir eru og viljum ræða kost og löst á hlutunum, þá eigum við að geta rætt þetta út frá staðreyndum sem nánast blasa við.

Ég tek ekki gild þau rök sem hæstv. sjútvrh. skaut aðallega fyrir sig í sambandi við það að ekki væri staða til að ræða einhver meðaflaákvæði, að með því væru menn að slaka á ábyrgri fiskveiðistjórnun og það leiddi sjálfkrafa til þess. Ég mótmæli þessu. Ég tel að menn geti eftir sem áður viðhaft mjög ábyrga eða stranga fiskveiðistjórnun eftir því sem þeim sýnist. Í fyrsta lagi er það hægt með því að gera ráð fyrir þessum meðafla ef út í það er farið og áætla fyrir honum og jafnvel bakreikna fyrir honum og hann verður meiri en áætlað var. Mönnum er leyft að geyma veiðiheimildir eða fiskinn óveiddan í sjónum eða taka fram fyrir sig þannig að ég sé ekki að það megi þá ekki alveg eins leiðrétta fyrir meðafla eins og hann hefur reynst á hverju fiskveiðiári. Ég tel reyndar að menn eigi ekki að vera of smámunasamir í þeim efnum. Mín hugmynd hvað varðar t.d. leyfilegan meðafla í þorski hefur verið sú --- ég tek það fram að ég tel nú að menn séu oftast að ræða um meðafla í þorski þegar verið er að ræða um meðafla. Það er ekki sjálfgefið að meðaflaákvæði yrðu bundin við þá tegund en það er náttúrlega nærtækast og mest þörfin þar --- að menn ættu að prófa sig áfram t.d. með því að ákveða eins og 20 þúsund tonn í meðafla á þorski, byrja með þá einu tegund. Það eru sérstök rök fyrir því þegar þorskveiðiheimildir eru jafnlitlar og þær eru nú vegna þess að það er svo erfitt að ná öðrum afla á Íslandsmiðum án þess að fara fram úr í þorski ef menn eru ekki með nema 150 þúsund tonn. Hvað er sagt við skipstjórana hringinn í kringum landið þegar þeir fara út? Reynið að ná í ýsu, reynið að ná í karfa, reynið að ná í ufsa og þið hafi ekki nema þetta af þorski. Þið megið ekki taka meira. Togaraskipstjórarnir t.d. fyrir norðan hjá þeim fyrirtækjum sem reyna að skipuleggja sína hráefnisöflun yfir árið fara út með tiltekinn kvóta af þorski í hvern túr. Þið megið ekki taka meira en 15--20% af þorski. Afgangurinn verður að vera í öðrum tegundum. Þetta er vegna þess að menn eru að reyna að skipuleggja sig, dreifa veiðiheimildunum yfir árið með þá kvöð m.a. á bakinu að halda uppi fullri vinnu í fiskvinnslustöð í landi allt árið.

Svona eru aðstæðurnar. En þetta tekst ekki alltaf og það eru ekki allir sem reyna að standa jafnskipulega að málum. Sumir lenda þarna fram úr, það verða slys o.s.frv. Segjum að það verði ákveðin 20 þúsund tonn af þorski, jafnvel þó að menn gerðu sér ekki rellu út af 5 eða 10 þúsund tonnum til eða frá. Ef fiski sem þessu nemur er hent, þá eru menn engu verr staddir gagnvart lífríkinu þó það yrði leyft að landa þessum afla, ekki satt? Þorskstofninn vex ekkert við það að 20 þúsund tonn fari á hafið á meðan enginn veit af því. Þorskurinn er drepinn samt. Fyrsta forsendan er því sú að ef útkast af þessu tagi, þessari stærðargráðu á sér stað, þá er það ekki á kostnað lífríkisins þó að leyft sé að landa þessum afla. Fyrsta staðreynd.

Í öðru lagi vitum við þá hvað er tekið úr stofninum. En það vitum við ekki endilega nú og í raun og veru er það svo að það er nánast ekki gert ráð fyrir neinu útkasti í áætlunum fiskifræðinga og er það þó nánast staðreynd sem allir viðurkenna í verki.

Síðan skil ég alls ekki, herra forseti, hrollvekjuna á bls. 19 í skýrslunni sem hæstv. sjútvrh. bar fyrir sig. Ég skil hana ekki. Ég ósköp einfaldlega skil ekki þá forsendu sem nefndarmenn virðast hafa gefið sér að með því að leyfa tiltekinn meðafla, t.d. í þorski, áætla fyrir honum, þá skapist hætta gagnvart öðrum tegundum. Eru þær ekki kvótabundnar í dag? Gáfu nefndarmenn sér þá staðreynd að það yrði aukið við kvótann í öðrum tegundum, eða hvað? Hvers konar della er þetta? Eða gáfu þeir sér að sóknin færðist yfir í ókvótabundnar tegundir? Af hverju eru þær ókvótabundnar? Það er af því að það er væntanlega talið að stofninn sé ekki í neinni hættu og það megi þess vegna taka meira úr honum. Þessi framsetning á málinu er lokleysa. Ég lýsi eftir höfundinum. Hver vill taka höfundarábyrgð á þessu meistarastykki, að með því að taka tiltekinn meðafla inn í ákvarðanir um aflamark og breyta engu að öðru leyti þegar flestallar tegundir eru kvótabundnar, skapist hætta á svona hrollvekju, svona rúllettu? Það er kannski nauðsynlegt að lesa þessi ósköp aftur, herra forseti. Það stendur:

,,Ef eftir væri gefið nú í þeim efnum,`` með þínu leyfi, forseti, ,,og aukinn þorskafli heimilaður, t.d. sem aukaafli við veiðar á öðrum tegundum, þá væri þess að vænta að sókn í aðrar tegundir ykist`` --- hvers vegna, ef þær væru kvótabundnar? Hvernig ætti það að gerast? ,,og vandamál vegna umframafla þorsks gætu enn versnað.`` Hvers vegna í ósköpunum? Ef væri nú áætlað fyrir meðaflanum að hann væri föst stærð eða jafnvel leiðrétt eftir á, þá vex ekki neitt við það, ekki neitt. ,,Aukin sókn í aðrar tegundir, til að bæta upp tekjutap vegna minnkaðs þorskafla, gæti síðan leitt til minnkandi stofna þessara tegunda einnig, og þannig gæti vandamálið náð til fleiri tegunda, t.d. ýsu, e.t.v. ufsa, og svo koll af kolli. Á endanum gæti sókn í verðminni tegundir orðið mest, enda heimildir til veiða á þeim þá tiltölulega rúmar, ...`` Hvers vegna ,,þá tiltölulega rúmar`` ef engum ákvörðunum hefur verið breytt um kvótann í kvótabundnum tegundum? Þetta er rugl. Hér eru menn ósköp einfaldlega að reyna að smíða sér rök með því að draga upp einhverja hrollvekju sem engar forsendur eru fyrir og að það er greinilegt að þeir sem þarna hafa vélað um eru bara á móti því að horfast í augu við þetta vandamál eða taka á því. Ég skil ekki þessi ósköp og ég tel engin rök fólgin í því að vísa í þennan texta, engin rök.

[16:00]

Að öðru leyti vil ég segja, herra forseti, varðandi það sem hæstv. ráðherra sagði um undirmálið að það er alveg rétt að það vandamál er vonandi minnkandi m.a. vegna ekki bara friðana, heldur líka af því að stærri möskvar eru notaðir í veiðarfærum. Einnig er spennandi sá möguleiki sem hæstv. ráðherra vék að, um sorteringu eftir stærð, skiljur og annað slíkt, jafnvel möguleikar sem menn eru farnir að spá í um að aðgreina afla á grundvelli mismunandi hegðunar við veiðarfæri. Þá eru þeir fiskar sem hækka sig þegar trollið nálgast teknir inn sérstaklega og svo framvegis. Þetta eru allt mjög spennandi möguleikar en þeir leysa okkur í sjálfu sér ekki, fyrr en eitthvað er orðið að veruleika í þessum efnum, undan vandamálunum sem við erum nú að glíma við og eigum að horfast hreinskilnislega í augu við. Við þurfum ekkert að skammast okkar fyrir það. Það á ekki að vera felumál að það er enn ýmislegt sem mætti betur fara í sambandi við umgengni okkar um auðlindina. Við getum vissulega bent á að það hafa orðið stórstígar framfarir í þessum efnum frá því sem áður var, þegar ekki er lengra síðan en svo að menn á mínum aldri stóðu í veiðiskap þar sem nánast öllum öðrum tegundum en þorski var hent, jafnvel sumum þeim sem nú eru hvað verðmætastar eins og skötusel eða eitthvað því um líkt. (Gripið fram í: Grálúðu.) Grálúðu, það er nú svo furðulegt sem það er (Gripið fram í: Og háfum.) að það er ekki lengra síðan en kannski eins og 15 ár, 20 ár síðan sjósóknin var með þessum hætti. Það var helst ekki staðið í því á togurunum að hirða annað en þorsk, kannski ýsu og eitt og eitt slíkt kvikindi, kannski til gamans en að öðru leyti var þessu hent. Þannig var það nú.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir undirtektir undir þau sjónarmið mín að vissar almennar grundvallarleikreglur og stefnumarkandi atriði eigi heima í frv. af þessu tagi og að til dæmis reglan um sjálfbæra nýtingu eigi gjarnan að vera einn af útgangspunktunum eða forsendum þessa máls. Þetta mun sjútvn. að sjálfsögðu skoða eftir föngum eins og allt annað sem þessu máli tengist.