Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 16:19:00 (2545)

1996-01-30 16:19:00# 120. lþ. 79.1 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[16:19]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 15. þm. Reykv. vék enn að 3. gr. frv. Auðvitað er að þeir bátar sem falla undir þessa grein tilheyra tveimur hagsmunafélögum, þ.e. bæði LÍÚ og Félagi smábátaeigenda. Ég tók hins vegar fram í ræðu minni áðan að ég væri sammála því sem kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að mikil bót hefði orðið á netaveiðinni vegna kvótakerfisins og þar hafi orðið mjög umtalsverðar breytingar. Þau sjónarmið, sem vísað er í í áliti nefndarinnar sem frv. er byggt á, eru því ekki jafnsterk nú og áður var. Ég tók fram að ég teldi eðlilegt að hv. sjútvn. liti á þessi nýju viðhorf þegar hún færi yfir 3. grein frv.

Varðandi þá umræðu sem hefur orðið um meðafla er það alveg rétt sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði að útvegsmenn hafa verið að bæta skipulag veiðanna. Menn skipuleggja þær betur en áður með tilliti til kvótastöðunnar og þá kröfu verður að gera til útvegsmanna. Ef við tækjum upp hugmyndina um 20 þúsund lesta meðafla --- hann fengi sjálfsagt fljótt viðurnefnið meðaflapotturinn --- hvaða fyrirmæli fengju sjómennirnir? Þeir fengju auðvitað fyrirmæli um að ná strax í sem stærstan hlut úr meðaflapottinum þannig að aðrir fái minna. Svo keppast menn við að ná sem stærstum skerf úr meðaflapottinum og hann yrði uppurinn á örfáum dögum eða vikum og svo standa menn í sömu sporum. Ég veit að það er góð hugsun á bak við þetta og ég dreg ekki á nokkurn hátt úr því að ég er alveg sannfærður um að hv. 4. þm. Norðurl. e. og 15. þm. Reykv. meina vel með þessum hugmyndum. En því miður duga þær ekki til þess að leysa vandann. Við eigum að gera þær kröfur og veita útvegsmönnunum það aðhald að þeir skipuleggi veiðarnar. Þar hefur orðið umtalsverð verðbót. Þar er mikil framför og við eigum að stefna að því að loka smáfiskasvæðum og við eigum að þróa veiðarfærin eins og við höfum verið að gera með góðum árangri til þessa. Það er augljóst að við okkur blasir ný tækni sem auðveldar okkur enn frekar að takast á við þetta því að við erum sammála um vandann og að það þurfi að taka á honum. Ég hef ekki trú á að sú leið sem þarna var nefnd dugi og tel að hún mundi frekar skemma fyrir þó að ég viti að góður hugur sé þar að baki.