Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 16:24:42 (2546)

1996-01-30 16:24:42# 120. lþ. 79.1 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[16:24]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er nauðsynlegt að ræða hluta af þessu tagi í rólegheitum þegar nægur tími er til stefnu. En ég get ekki látið því ómótmælt að málið sé einfaldlega svona vaxið eins og hæstv. sjútvrh. sagði. Ef gert væri ráð fyrir einhverjum meðafla mundu allir rjúka til og reyna að ná sem mestu út úr þeim potti. Hvers vegna ættu þeir að gera það? Í fyrsta lagi ef meðaflinn væri það lágt verðlagður og fénýttur í annarra þágu að það svaraði tæplega kostnaði fyrir útgerðina að taka þann afla. Ef eitthvað væri borgaði hún frekar með honum. Ég held að heppilegasta fyrirkomulagið væri gömul hugmynd, þ.e. að áhöfnin ætti frekar að hafa einhvern hagnað af því að taka þetta á land en útgerðin gæti tapað á því. Þá yrði þetta væntanlega þannig að sjómennirnir um borð sæju til þess að þetta kæmi að landi ef þetta kæmi upp á annað borð en útgerðarmaðurinn hvetti til þess að reynt væri að forðast þetta. Auðvitað tæki ekki að ganga á þennan pott fyrr en veiðiheimildir viðkomandi skips væru uppurnar eða því sem næst og þar með reyndi ekki á þetta fyrr en á síðari hluta fiskveiðiársins. Það væri engin ástæða til þess fyrir útgerðarmenn að keppa eftir því að ná úr pottinum sem slíkum vegna þess að það væri væntanlega ekki ætlunin að gera úr honum einhverjar varanlegar veiðiheimildir í framtíðinni. Það er ástæða þess að menn hafa rokið til og sækja núna af miklu kappi á línutvöföldun að þeir eru að gera sér vonir um að í fyllingu tímans myndi það varanleg réttindi. Menn eru væntanlega ekki svo heillum horfnir að láta meðaflapott nokkurn tíma gera það.

Ég held að heppilegast væri að tala ekki um neinn pott og binda sig jafnvel ekki við tiltekið magn heldur láta aðstæðurnar í lýðríkinu ráða því að hve miklu leyti einhver meðafli kæmi og hann yrði svo skráður og fyrir honum yrði reiknað og að hve miklu leyti ekki. Ég held að menn verði að hugsa þetta nokkuð vel og nálgast þetta frá réttum sjónarhóli ef menn eiga að fá einhvern botn í þetta. Kvótahugsunin gengur auðvitað ekki upp hvað þetta úrræði varðar sem mér fannst hæstv. sjútvrh. vera flæktur í og vera svolítið fljótur á sér að slá af hugmyndirnar, a.m.k. með þeim rökum sem hann notaði hér.