Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 16:30:58 (2551)

1996-01-30 16:30:58# 120. lþ. 79.1 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[16:30]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú svo að allur sá vandi sem við erum að tala um varðandi þetta mál byggir á sögusögnum. Við höfum engar vísindalegar niðurstöður um þetta. Við byggjum þetta á frásögnum sjómannanna sjálfra, bæði að því er varðar þennan þátt flotans og eins að því er varðar stærri skipin.

Í skýrslu nefndarinnar sem leggur þetta til er vísað í tvennt, annars vegar að þegar minnstu bátarnir eigi í hlut geti verið um öryggissjónarmið að ræða og hins vegar þess álits að þarna var um talsvert mikinn vanda að ræða að því er netaveiðarnar varðar. Í verstu veðrum skildu menn net eftir í sjó og það kom slæmur afli að landi. Ég held að um það sé í sjálfu sér ekki deilt þó að vísindalegar niðurstöður liggi ekki fyrir. En jafnskarpur málflutningsmaður og hv. 15. þm. Reykv. er, og ég veit að hann vill njóta viðurkenningar sem slíkur, þá finnst mér að hann eigi að fylgjast betur með þróun umræðunnar en svo að hann endurtaki sig í sífellu vegna þess að ég hef í umfjöllun minni um þetta atriði tekið undir það sem hér hefur komið fram, þ.e. að á þessu hefur orðið veruleg breyting. Eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. benti á er það fyrst og fremst vegna kvótakerfisins að þessi veiðiskapur er með allt öðrum hætti en áður var. Það er einmitt þess vegna sem ég hef tekið það fram að það eru rök fyrir því að nefndin við skoðun á þessari grein líti á aðstæður sem eru aðrar í dag en þær voru fyrir aðeins örfáum árum og vitnað er til í röksemdum nefndarinnar fyrir þessari tillögugerð. Og á þessi sjónarmið sem ég hef verið að lýsa finnst mér að hv. 15. þm. Reykv. ætti að hlusta í stað þess að vera í sífelldri þrákelkni með spurningar sínar. Ég veit að hann er metnaðarfullur og vill njóta viðurkenningar sem rökvís og skeleggur málflutningsmaður, sem hann vissulega er.