Varnir gegn landbroti

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 13:51:08 (2564)

1996-01-31 13:51:08# 120. lþ. 80.2 fundur 212. mál: #A varnir gegn landbroti# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[13:51]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að fylgja úr hlaði fyrirspurn sem fram borin er af þeim er hér stendur ásamt hv. þm. Guðna Ágústssyni og hv. varaþm. Drífu Sigfúsdóttur, sem sat á þingi þegar fyrirspurnin var lögð fram. Raunar er eðlilegt að ég hefji mál mitt á þakklæti til náttúruaflanna fyrir hönd íslenskra skattgreiðenda. Ég tek svo til orða þar sem fyrirspurnin snýst um sjóvarnargarða á Suðurlandi og Reykjanesi sérstaklega.

Herra forseti. Ég er ekki viss um að allir geri sér fulla grein fyrir því hættuástandi sem skapast hefur á þessum tveimur landsvæðum. Kemur þar tvennt til. Annars vegar er um að ræða jarðfræðilegar skýringar þar sem suðvesturhornið mun síga í sæ svo nemur allt að einhverjum millimetrum árlega. Má glöggt sjá merki þess t.d. á gömlum bryggjum sem fara að öllu leyti í kaf á háflóði. Þær bryggjur voru vitanlega ekki byggðar til að fara í kaf á flóði heldur að standa upp úr jafnt á flóði sem fjöru. Þá er landbrot víða farið að höggva ískyggilega í ýmis mannvirki. En þetta landsig er ekki eina orsökin. Í desember, janúar og fram eftir febrúarmánuði mun flóðhæð verða með hæsta móti. Ekki skal hér á skömmum tíma lagt í náttúruskýringar á því fyrirbrigði en lán okkar, og vísa ég þar enn til þakklætis til náttúruaflanna, var að veður hafa verið óvenjustillt síðustu mánuði. Hefðu hin dæmigerðu janúarveður brostið á er vitað að tjón á mannvirkjum og af völdum landeyðingar hefðu numið tugum ef ekki hundruðum milljóna króna. Ég nefni nokkur dæmi. Á Álftanesi sem og á Seltjarnarnesi munu íbúðarhús vera í beinni hættu. Í Hafnarfirði munu fyrirtækjaeigendur í miðbænum hafa verið uggandi um húsakynni sín á sjálfan jóladag af ótta við brim í miðbæ Hafnarfjarðar og er þá ekki átt við pólitískt brim í þeim bæ. Í októberfárinu sem gekk yfir kom skarð í hafnargarðinn við Voga á Vatnsleysuströnd. Í næsta áhlaupi er veruleg hætta á að garðurinn gefi sig endanlega og þá um leið fyllist höfnin. Kostnaður við að hreinsa úr höfninni er ómældur. Í Keflavík er ástandið svipað sem og í Sandgerði og þannig má áfram telja. Það má benda á hrikaleg landbrot við Vík í Mýrdal sem og flóðahættu við Stokkseyri og Eyrarbakka.

Herra forseti. Við höfðum lánið með okkur síðustu mánuði. Ekki er víst að svo verði áfram. Veður eru hér válynd. Því spyr ég hæstv. samgrh. hvort hann hyggist grípa til sérstakra aðgerða til varnar mannvirkjum á þeim svæðum sem um ræðir. Aðgerðir eru nauðsynlegar en ég tel hyggilegra að ráðast í þær áður en frekari skemmdir verða og hindra þannig tjón upp á tugi milljóna króna úr vösum skattgreiðenda. Segja má að hæstv. ráðherra sé spurður um forvarnastarf á þessu sviði.