Upptökumannvirki til skipaviðgerða

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 14:02:12 (2569)

1996-01-31 14:02:12# 120. lþ. 80.3 fundur 223. mál: #A upptökumannvirki til skipaviðgerða# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÓÖH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[14:02]

Fyrirspyrjandi (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég ber fram fsp. til hæstv. samgrh.:

,,1. Hefur ríkissjóður á sl. fjórum árum tekið þátt í kaupum eða viðhaldi á eldri hafnar- eða upptökumannvirkjum?``

Í hafnalögum frá 1994, 26. gr., kemur skýrt fram að aðeins er ætlunin að greiða vegna stofnkostnaðar hvað hafnaframkvæmdir varðar en þar segir í 3. lið að ríkissjóður skuli greiða allt að 60% stofnkostnaðar við framkvæmdir, þar á meðal upptökumannvirki fyrir skip.

,,2. Hefur verið gerð greining á þörfum fyrir upptökumannvirki til skipaviðgerða? Liggur slík greining til grundvallar við núverandi forgangsröð og áætlanagerð um upptökumannvirki?``

Ég vil benda þar á 29. gr. hafnalaga frá 1994 en þar er skýrt kveðið á um að slík forgangsröðun framkvæmda skuli liggja til grundvallar þegar framkvæmdir í einstökum höfnum, landshlutum eða landinu öllu eru ákveðnar.

,,3. Hafa fjárveitingar ríkisins til upptökumannvirkja, til skipasmíða og skipaviðgerða á sl. fimm árum skekkt eðlilega samkeppnisstöðu fyrirtækja í skipaviðgerðum í landinu?``

Hér er komið inn á mjög mikilvægt mál um að gætt sé fyllstu arðsemi og ekki sé skapað neitt óhagræði innan skipasmíðaiðnaðarins umfram það sem nauðsynlegt er. En þær upplýsingar sem ég hef benda til þess að um umframfjárfestingu sé að ræða og að menn hafi ekki nýtt þá fjárfestingu sem fyrir hendi er svo sem hér í Reykjavík.

,,4. Hefur verið unnið í samræmi við niðurstöður skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins A\&P Appledore International Ltd., sem var unnin fyrir iðnaðarráðuneytið 1989, en í þeirri skýrslu var varað við frekari fjárfestingum í upptökumannvirkjum í landinu? Gilda þær enn um hagkvæmni skipasmíðaiðnaðarins í landinu?``

Í þessari skýrslu sem ég nefni kemur fram að varað er við því að greiða upp uppsafnað tap í greininni og að skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækjanna því slíkt muni koma niður á skipasmíðaiðnaðinum og útgerðinni þegar til lengri tíma er litið.