Ferjuflug um Keflavíkurflugvöll

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 14:23:53 (2580)

1996-01-31 14:23:53# 120. lþ. 80.4 fundur 244. mál: #A ferjuflug um Keflavíkurflugvöll# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[14:23]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég hef ekki heyrt um það fyrr að Alþjóðaflugmálastofnunin hafi gert athugasemdir við Reykjavíkurflugvöll af öryggisástæðum og veit satt að segja ekki hvað hv. þm. er að tala um þar. En það er sjálfsagt að kynna sér málið og reyna að fá upplýsingar um það hvað þingmaðurinn er að fara í þeim efnum. Ég kannast ekki við slíkt álit.

Ég vil jafnframt segja að sú hugsun hefur annað slagið skotið upp kollinum að leggja Reykjavíkurflugvöll niður, eins og mér heyrðist á hv. þm. að hann væri að gera skóna, ef nauðsynlegt er að hætta flugi um flugvöllinn vegna ráðhúss, Alþingishúss og annars slíks og að við séum í mikilli hættu í þessum sal. Þá á það auðvitað einnig við um innanlandsflug, flug áhugamanna og annað þvílíkt. Eina rökrétta ályktunin sem dregin verður af orðum hv. þingmanns er þá sú að hann mun í öðru skrefi ætlast til þess að innanlandsflugið færist til Keflavíkurflugvallar sem ég held að sé miklu flóknara mál og alveg sýnilegt að sumar áætlunarleiðir munu þá leggjast niður. Sauðárkrókur liggur beint við. Ég skal ekki segja um Akureyri, en ætli það yrði ekki áfram flogið til Egilsstaða, hv. 2. þm. Austurl.? (JónK: Hann er ekki viss um það.) Hann er ekki viss um það. Það má svo sem velta mörgu fyrir sér í þessu sambandi. En ég kannast ekki við að Alþjóðaflugmálastofnunin hafi gert athugasemdir við öryggismálin á Reykjavíkurflugvelli.