Kvikmyndaauglýsingar í sjónvarpi

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 14:34:46 (2584)

1996-01-31 14:34:46# 120. lþ. 80.5 fundur 236. mál: #A kvikmyndaauglýsingar í sjónvarpi# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[14:34]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svörin og enn fremur það sem hæstv. ráðherra hefur aðhafst í málinu. Ég er að sjálfsögðu ánægður með að bæði Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð og auglýsinganefnd, sem starfar á vegum þess, hafa sinnt þessu máli. Sömuleiðis hefur umboðsmaður barna látið það til sín taka. Ég sætti mig einnig prýðilega við að reynt sé að ná fram úrbótum með góðu, ef svo má að orði komast, að reynt sé með fortölum og með því að benda mönnum á gildandi lög að bæta ráð sitt. Því miður læðist að manni sá grunur að hér þurfi að taka nokkuð fast á málum. Þetta á sér þann aðdraganda að vakin var athygli á þessu fyrir ári og það hafði einhver tímabundin áhrif en síðan sótti strax í sama farið ef ekki í hið verra. Ég segi það hiklaust sem skoðun mína að ef ekki fæst á þessu tafarlaus úrbót og þessar ofbeldisauglýsingar hverfa þá á að beita mjög hörðu gagnvart framferði af þessu tagi. Það er ekki á svo mörgum stöðum þar sem er þó til að dreifa ótvíræðum lagaákvæðum til þess að verja sig með gagnvart þeirri ofbeldisdýrkun og ofbeldisöldu sem ríður yfir þjóðfélögin. En það er í þessu tilviki. Það eru skýlaus lagaákvæði sem eiga að vernda börn og ungmenni fyrir þessum hlutum og þeim á þá að beita. Gagnvart ýmsum öðrum þáttum þessa vandamáls sem auðvitað er margslungið og kemur víða við, og á ég þá við þessa ofbeldisdýrkun og ofbeldisöldu sem yfir gengur, er hins vegar úr vöndu að ráða. En í þessu tilviki á það ekki að aftra mönnum að taka fast á málum að það er við ótvíræð lagaákvæði að styðjast.

Ég skora á hæstv. ráðherra að fylgja málinu eftir með sama hætti og hann hefur hafið það. Dugi ekki annað til á hann að vera ófeiminn við að beita hörðu á grundvelli þeirra heimilda sem hann hefur samkvæmt lögum.