Skattareglur gagnvart listamönnum

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 15:01:09 (2590)

1996-01-31 15:01:09# 120. lþ. 80.7 fundur 239. mál: #A skattareglur gagnvart listamönnum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[15:01]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. fjmrh.:

,,Hyggst ráðherra beita sér fyrir breytingum á lögum þannig að íslenskir listamenn, eins og Björk Guðmundsdóttir og Kristján Jóhannsson, sem njóta heimsathygli og hafa veruleg fjármálaleg umsvif, geti verið með starfsemi sína í íslensku skattaumhverfi?``

Tilefni þessarar fyrirspurnar eru fréttir fyrir áramót um að þessir listamenn hafi kosið að vera með skattalegan þátt starfsemi sinnar erlendis. Þetta er mikilvægt mál en það ber að skoða það í víðara samhengi. Ég, ásamt öðrum Íslendingum, er mjög stoltur af þessum listamönnum sem hafa öðlast heimsfrægð. Þeir njóta vinsælda og virðingar ekki einungis erlendis heldur einnig hérlendis. Hins vegar starfa þau í atvinnugrein sem er ein sú stærsta í heimi. Það felst ótrúlega mikil verðmætasköpun m.a. í plötuútgáfum, upptökum, myndböndum, miðlunum, geisladiskum, hljómleikum og kvikmyndum svo fátt eitt sé nefnt.

Björk Guðmundsdóttir og Kristján Jóhannsson eru ekki einungis einstaklingar heldur einnig fyrirtæki með umsvifamikinn atvinnurekstur alveg eins og frystihús eða álver og þau veita fjölda manns atvinnu. Ég tel að það eigi að breyta skattalögum þannig eða skoða þau þannig að þessi starfsemi gæti komið hér til skatta og verið í íslensku efnahagsumhverfi. Ég vil laða þessa starfsemi að Íslandi ásamt annarri sem við getum bæði haft atvinnu og tekjur af. Má þar nefna t.d. alþjóðlega fjármálastarfsemi. Við notum skattamál í viðræðum við álver svo tekið sé nýlegt dæmi. Við eigum að brjótast út úr þeim hugsunarhætti að hugsa aðeins um fiskstofna og rafmagn þegar við erum að tala um alþjóðaviðskipti. Við getum litið á þessa listamenn, Björk og Kristján, sem vannýtta fiskstofna ef mönnum líður betur við þá samlíkingu. Landkynning þessara einstaklinga er stórkostleg og milljónir manna vita það eitt um Ísland að Björk Guðmundsdóttir kemur þaðan. Vinsemd þeirra og óþreytandi áhugi á að koma landinu að á alþjóðlegum vettvangi lýsir því kannski einna best að hér er um okkar bestu sendiherra að ræða.

Þessi fyrirspurn snýst ekki um að hækka eða lækka persónulega skatta Bjarkar Guðmundsdóttur eða Kristjáns Jóhannssonar heldur að þau og þeirra starfslið geti starfað hér í okkar umhverfi. Við eigum að styðja þessa starfsemi og það ber að efla hana. Í ljósi þess er fyrirspurnin fram komin og hún er tilefni til að skoða þessi mál í víðara samhengi.