Skattareglur gagnvart listamönnum

Miðvikudaginn 31. janúar 1996, kl. 15:11:27 (2593)

1996-01-31 15:11:27# 120. lþ. 80.7 fundur 239. mál: #A skattareglur gagnvart listamönnum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur


[15:11]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég vissi það svo sem að hv. þm. var ekki að hugsa um lítilmagnann þegar hann var að spyrja um skattfrelsi þessara ágætu Íslendinga sem vill svo til að ég þekki báða allvel, annars vegar stórsöngvarann okkar sem er ágætur kunningi minn og hins vegar frænku mína, Björk Guðmundsdóttir. Það hvarflaði kannski að einhverjum að verið væri að hugsa um þetta fólk persónulega en auðvitað er hv. þm. fyrst og fremst að hugsa um það hvernig hann geti náð í skattfé af fjármunum og umsvifum þessara einstaklinga. (Gripið fram í: Og eflt atvinnulífið.) Og þar með eflt atvinnulíf hér á landi. Þessi fyrirspurn gaf mér að sjálfsögðu tilefni til að rifja það upp að við höfum á undanförnum árum gjörbreytt íslenskum skattalögum þannig að nú standast íslensk skattalög, sérstaklega skattalög sem snúa að fyrirtækjum og reyndar líka að einstaklingum, fyllilega samkeppni við skattalög í nágrannalöndunum. Nú er það svo að þau fyrirtæki sem við höfum átt í samvinnu við hér á landi og hafa búið við sérstök skattalög hafa beðið um að fá að færa rekstur sinn undir íslensk skattalög. Og nú er það svo að íslensk skattalög þvælast ekki lengur fyrir fyrirtækjum sem eru að leita eftir upplýsingum hér á landi um rekstrarfyrirkomulag því að þau eru með þeim hætti nú að þau jafnast fyllilega á við skattalög annarra ríkja. Við getum hins vegar aldrei keppt við, og munum vonandi aldrei reyna að keppa við skattalög sem eru í skattavinjum eins og Mónakó og Bahamaeyjum. Það getum við ekki gert og ég tel að menningarríki eins og Ísland, réttarríki eins og Ísland, eigi frekar samleið með öðrum þjóðum sem eru að reyna að koma í veg fyrir að slíkar skattavinjar leiði til þess að í raun séu peningar til staðar í ríkjum sem veita enga þjónustu þeim sem greiða þá litlu skatta sem af þeim peningum fást þar. Þetta tækifæri hér hef ég fyrst og fremst notað til þess að vekja athygli á þeim hagstæðu breytingum sem hafa átt sér stað á íslenskum skattalögum að undanförnu. Ég þakka hv. þm. fyrir að gefa mér þetta tækifæri til þess að lýsa þeim breytingum.