Veiting prestakalla

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 10:50:46 (2600)

1996-02-01 10:50:46# 120. lþ. 82.2 fundur 273. mál: #A veiting prestakalla# (heildarlög) frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[10:50]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju minni með það að hér skuli vera lagt fram frv. til laga um veitingu prestakalla og þær breytingar lagðar til sem frv. gerir ráð fyrir. Ég held það fari ekki á milli mála að þörf er á því að taka þessa löggjöf til meðferðar og ég tel að þær breytingar sem hér er verið að gera ráð fyrir að verði séu til bóta. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram. Það er nauðsynlegt að hafa þann hátt á, sem 1. gr. frv. gerir ráð fyrir, að öll prestaköll skuli ávallt auglýst til umsóknar. Mér finnst nauðsynlegt að það sé skýrt og klárt í lögum, að þar fari ekkert á milli mála.

Sömuleiðis tel ég að það hljóti að vera til mikilla bóta, eins og kemur fram í 3. gr. frv., að sett sé stöðunefnd sem meti umsóknir út frá faglegum sjónarmiðum en taki einnig tillit til sérstakra staðbundinna aðstæðna í viðkomandi prestakalli. Auðvitað eru þetta allt saman erfið og viðkvæm mál eins og starfsmannamál almennt. Ég held hins vegar að það fari ekki á milli mála að ráðningar í stöður presta eru annars konar og ef til vill vandasamari ráðningar en ráðningar í stöður almennt. Starf prestsins er mjög sérstakt. Það er vandasamt og mjög mikilvægt starf og þess vegna ber að vanda mjög val í þessar stöður og umfram allt að hafa reglur skýrar um það með hvaða hætti skuli valið og hverjir skuli velja í stöðurnar og beri ábyrgð á því.

Ég vil taka fram við þessa umræðu að afstaða mín er sú að það eigi ekki að hlaupa upp til handa og fóta og breyta lögum þótt deilur verði í einstökum söfnuðum. Það er nánast lífsins gangur að það sé deilt í okkar samfélagi um menn og málefni. Ég held því að þótt deilur komi upp í austurbænum í höfuðborginni þá séu þær fyrst og fremst til að læra af þeim og óþarfi að rjúka til og breyta lögum þess vegna. Skoðun mín er samt sú að e.t.v. ætti að ganga lengra en frumvarpið gerir ráð fyrir. Ég get að ýmsu leyti tekið undir það sem hv. 4. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, nefndi. E.t.v. ætti að gera róttækari breytingar á þessum málum. Ég hefði t.d. talið að það mætti ræða þann kost að prestar væru ráðnir til fimm ára í senn eins og venjan er með ýmsa embættismenn. Síðan væri að sjálfsögðu gert ráð fyrir þeim möguleika að þeir væru endurráðnir en jafnan væri þetta fimm ára ráðning. Þannig ættu prestarnir bærilega útgönguleið frá söfnuði sínum og söfnuðurinn sömuleiðis bærilega útgönguleið frá presti sínum. Þannig gæti þetta gengið með eðlilegum, skýrum og skilmerkilegum hætti. En þá kemur upp sú hætta að slíkum endurnýjunarreglum fylgir oft tiltekið agaleysi, þ.e. ef stöðugt er verið að skipta um embættismenn í mikilvægum stöðum. Ég tel samt að prestsstarfið sé þannig að ef til vill gæti þetta verið bæði söfnuði og viðkomandi prestum til góðs. Á þessu stigi mun ég hins vegar ekki leggja fram neinar breytingar eða leggja áherslu á að þessu verði breytt í slíkt horf núna. Ég tel rétt að sjá hvaða afleiðingar þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir hafa í för með sér, hvort ekki skapist ró í þessum málum og hægt verði að halda þannig á ráðningarmálum presta að viðunandi sé. En ég tel nauðsynlegt að huga að því hvernig þessi mál geti best verið.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki fleiru við þetta að bæta á þessu stigi. Ég tel að það frumvarp sem hér er lagt fram og hæstv. dóms- og kirkjumrh. mælti fyrir sé til bóta og lýsi stuðningi mínum við það.