Veiting prestakalla

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 11:01:31 (2602)

1996-02-01 11:01:31# 120. lþ. 82.2 fundur 273. mál: #A veiting prestakalla# (heildarlög) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[11:01]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er mjög eðlilegt í tilefni af umræðu um þetta frv. að umræður snúist um aðra þætti í málefnum þjóðkirkjunnar. En þetta afmarkaða frv. lýtur aðeins að því hvaða lagareglur gilda um veitingu prestakalla. Ég minni á að gildandi lög og þetta frv. sem hér liggur fyrir kveða á um að fjórðungur sóknarmanna getur óskað eftir því að almenn atkvæðagreiðsla fari fram þegar prestur er ráðinn.

Í þessum lögum og frv. sem hér liggur fyrir er ekki verið að fjalla um starfsskyldur eða ábyrgð presta og ekki um stjórnun kirkjunnar eða einstakra sókna. Við höfum verið að fjalla um þessi mál á undanförnum árum. Í kirkjumálaráðuneytinu hefur verið mótuð sú stefna að það sé rétt að viðhalda þjóðkirkjuskipulaginu en við þurfum að stíga ákveðin skref til að auka sjálfstæði kirkjunnar í sínum innri málum. Það hefur verið unnið að gerð rammalöggjafar um stöðu kirkjunnar og hennar innri mál. Þessi rammalöggjöf hefur verið til umfjöllunar hjá ráðuneytinu og kirkjustjórninni. Það er að mínu viti eðlilegt að taka þessar spurningar sem hér hafa komið upp og allar eru fullkomlega eðlilegar og nauðsynlegar til umræðu á Alþingi þegar við fjöllum um frv. Ég hafði vonast til þess að geta lagt það fram á þessu þingi en það verður að ráðast af því hvernig lokavinnan við frv. gengur. Ég hefði talið eðlilegt að þessi sjónarmið komi til umfjöllunar þegar það mál kemur til meðferðar í þinginu því að þetta frv. fjallar einvörðungu um það hvernig staðið skuli að ráðningu prestanna en hvorki um starfsskyldur þeirra né ábyrgð að öðru leyti né skipulagið innan kirkjunnar. Það á eðli máls samkvæmt heima í annarri löggjöf. Með því að ég segi þetta er ég alls ekki að draga úr því að menn ræði þau álitaefni sem vakin hefur verið athygli á. Þvert á móti tel ég mikilvægt að þau séu rædd í þinginu en bendi á að það er eðlilegra að gera það þegar þessi löggjöf kemur síðar til umfjöllunar.