Veiting prestakalla

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 11:09:41 (2604)

1996-02-01 11:09:41# 120. lþ. 82.2 fundur 273. mál: #A veiting prestakalla# (heildarlög) frv., HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[11:09]

Hjálmar Jónsson:

Virðulegi forseti. Hæstv. kirkjumálaráðherra hefur reyndar komið að því sem ég vildi koma á framfæri að það væri eðlilegt að ræða þetta mál miklu betur og ítarlegar þegar lagt verður fram tilbúið frv. um stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Þar er eðlilegt að taka þetta allt saman inn. En varðandi þessar smávægilegu breytingar á frv. til laga um veitingu prestakalla, þá er varla efni til þess.

Hins vegar er ástæða til að fagna þeirri umræðu sem hér fer fram og því að menn lýsi því yfir að þeim sé ekki sama um hvernig gangi í samskiptum presta og safnaða. Ég er í þeim hópi og lýsi því einnig yfir að tengsl prests og safnaða hljóta að vera góð þegar allt er með felldu en vissulega getur komið upp að menn deili. Þjóðkirkjan riðar ekki til falls þó nokkrir menn deili. Þeir eru ekki margir í þessu tilviki en fleiri sem hafa áhyggjur af því hins vegar.

Kristur sagði forðum og hann mundi nú segja inn í þessa deilu: ,,Farðu og sæstu við bróður þinn.`` Það er ekki hægt að sinna safnaðarmálum svo vel sé nema menn séu sáttir og það er þetta sem ég vil endilega koma á framfæri.

Varðandi æviráðningu, þá er eðlilegt eins og ég áður sagði að æviráðning presta sé tekin til endurskoðunar eins og annarra embættismanna en ekkert fyrr og ekkert síðar hjá þeim.