Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 11:29:03 (2606)

1996-02-01 11:29:03# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[11:29]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þar sem ég á sæti í allshn. sem fær þetta mál til meðferðar er ástæðulaust fyrir mig að hafa mörg orð um það almennt. Ég vil aðeins ræða það sem hæstv. ráðherra gerði einnig að sérstöku umræðuefni í sinni ræðu, þ.e. heimildir til veðsetningar skips með aflaheimild.

Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði að þetta er í fjórða sinn sem slíkt frv. er lagt fram og í þau þrjú skipti sem það hefur áður verið lagt fram á Alþingi hafa verið í því ákvæði um að veðsetning skips tæki einnig til aflaheimilda sem skipið hefði.

[11:30]

Ég skal alveg viðurkenna að þetta ákvæði í frv. fór fram hjá okkur alþýðuflokksmönnum í síðustu ríkisstjórn þegar við afgreiddum það til þings. (Gripið fram í: Þrisvar sinnum?) Meðal annars vegna þess að frv. var þar sérstaklega kynnt sem frv. sem ætti fyrst og fremst lagfæra og færa ákvæði um samningsveð til nútímahátta. Það var ekki fyrr en málið hafði komið inn á Alþingi sem okkur varð ljóst, og engin ástæða til þess að liggja á því, að verið var að leggja til að gera mjög umfangsmikla breytingu, þ.e. þá breytingu að heimila útgerðarmönnum með lögum eða við getum líka orðað það þannig að heimila lánveitendum með lögum að taka veð, ekki bara í skipi heldur einnig aflaheimildum þess. Ég held að menn muni það vel að við í Alþfl. féllumst ekki á að afgreiða frv. með þeim hætti. Afgreiðsla þess gekk ekki fram því mér er ekki kunnugt um að þingmenn annarra flokka hafi viljað stuðla að því með hæstv. sjútvrh. að málið yrði afgreitt þannig. Það lá því fyrir þá þegar að það var ekki þingmeirihluti fyrir því.

Morgunblaðið rekur þessa sögu nokkuð í dag á bls. 10 og kynnir það undir fyrirsögninni, með leyfi forseta: ,,Famsóknarþingmenn á Reykjanesi taka upp röksemdir krata.`` Blaðið segir orðrétt svo, með leyfi forseta undir millifyrirsögninni: ,,Alþýðuflokkur hindraði samþykkt``:

,,Er frumvarpið um samningsveð var lagt fram á Alþingi í desember 1994 var það gagnrýnt harðlega af hálfu Alþýðuflokksins, sem hélt því fram að með umræddu ákvæði væri stjórnvöldum gert erfiðara fyrir að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu. Fyrsta grein laga um stjórn fiskveiða, þar sem kveðið er á um að fiskimiðin séu sameign þjóðarinnar og úthlutun veiðiheimilda skapi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði yfir veiðiheimildum, gerði stjórnvöldum kleift að breyta kerfinu án þess að handhafar kvóta gætu gert neinar kröfur um skaðabætur. Ef það yrði hins vegar lögfest að veðsetja mætti kvóta, mætti túlka það svo að ef ríkið breytti eða afnæmi kvótakerfið, ættu þeir skaðabótakröfu, sem hefðu tekið veð í skipi og veiðikvóta.

Vegna andstöðu Alþýðuflokksins dagaði frumvarpið uppi í þinginu.``

Ég tel að ég þurfi ekki að bæta mörgum orðum við þessa frásögn Morgunblaðsins því þarna er rétt skýrt frá. Það er ef til vill ástæða fyrir mig að geta þess sérstaklega að andstaða mín við málið mótaðist ekki síst af því að í þáverandi ríkisstjórn, þ.e. ekki í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar heldur ríkisstjórninni sem sat þar á undan, hafði ég forustu um það innan Alþfl. að krafa var gerð um að í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða kæmi ákvæði um að fiskimiðin væru sameign þjóðarinnar. Á það sjónarmið var fallist af þáverandi þingmeirihluta og þetta ákvæði sett inn í greinina. Þess vegna þótti mér og öðrum alþýðuflokksmönnum ástæða til að stöðva afgreiðslu málsins, sem að okkar áliti var til þess fallið að grafa undan þessu ákvæði í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða.

Ég vil, virðulegi forseti, síðan aftur víkja að frásögn Morgunblaðsins í dag en þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Það [þ.e. frv.] var lagt að nýju fyrir ríkisstjórn og fyrir þingflokka stjórnarflokkanna í desember síðastliðnum og mætti þá strax harðri andstöðu þingmanna Reykjaness í þingflokki Framsóknarflokksins. Athyglisvert er að þeir hafa nú uppi nákvæmlega sama rökstuðning og alþýðuflokksmenn fyrir rúmu ári`` segir í Morgunblaðinu. Síðan er tekið viðtal við Siv Friðleifsdóttur, þingmann Reykn. þar sem hún lýsir þessu sjónarmiði með nákvæmlega sömu orðum og við gerðum haustið 1993. Og loks segir Morgunblaðið:

,,Eftir langar rökræður í þingflokki Framsóknarflokksins náðist loks samstaða innan hans um að leggjast gegn því að umrætt ákvæði yrði í frumvarpi dómsmálaráðherra.``

Ég tel enga ástæðu til að efast um að þessi frásögn Morgunblaðsins sé nákvæmlega rétt. Ég vil aðeins segja að ég óska Framsfl. til hamingju með það að hafa náð þessu ákvæði út úr frv. og ekki síst þingmönnum Framsfl. í Reykjaneskjördæmi sem höfðu um það frumkvæði með sömu röksemdum og við í Alþfl. Þetta er vissulega þakkarvert og ég lýsi ánægju minni með þann árangur sem þingmenn Framsfl. hafa náð í þessu efni, því þeir byggja á sömu röksemdarfærslu og við alþýðuflokksmenn þegar við stöðvuðum afgreiðslu frv. á sínum tíma.

Hæstv. dómsmrh. hefur í orðræðum látið að því liggja að þetta skipti svo sem ósköp litlu máli. Hann hefur látið í það skína að menn hafi ekki gert sér grein fyrir í hverju þessi tillaga hans fælist og væru haldnir þeim misskilningi að hún hefði falist í því að hægt væri að tak veð í aflaheimildum ,,per se``, þ.e. menn gætu tekið veð í aflaheimildum sérstaklega án þess að veðtaka fylgdi um leið í skipinu. Það hefur engum manni dottið þetta í hug og það er alveg fráleitt af hæstv. ráðherra að nota þetta sem röksemd gegn afstöðu Framsfl., Alþfl. og að ég held Alþb. líka. Við erum ekki haldnir neinum misskilningi í þessu efni. Hins vegar ef lánastofnanir hafa tekið veð í skipi sem hefur haft aflaheimildir, eins og flest skip hafa, a.m.k. öll þau sem gerð eru út til fiskveiða við Ísland, þá hafa þær --- vegna þess að þær hafa ekki getað tekið veð í aflaheimildum skipsins um leið og þær hafa tekið veð í skipinu sjálfu --- farið þess á leit við eigendur skipanna að þeir gæfu yfirlýsingu um að þeir mundu ekki svo lengi sem veðið væri í skipinu selja eða leigja aflaheimildir frá því nema með samþykki lánastofnunarinnar. Það að þetta þyrfti að gera var það sem átti að afnema með tillögu hæstv. ráðherra. Þessi yfirlýsing hefur hins vegar ekki sama gildi og að taka veð í umræddum heimildum vegna þess að þrátt fyrir hana geta útgerðarmenn og eigendur skipa framselt, leigt eða selt aflaheimildir því að veðið sem lánastofnanirnar eiga í skipinu nær ekki til þeirra. Þetta er áhætta sem lánastofnanir hafa þurft að taka í sambandi við lánveitingar til útgerðarfyrirtækja. Þetta er áhætta sem lánastofnanir hefðu ekki þurft að taka ef tillaga sjútvrh. hefði náð fram að ganga og þetta er sú áhætta sem þær verða áfram að taka ef tillagan verður samþykkt eins og hún er nú frágengin. Það er því mesti misskilningur að þeir sem ekki hafa verið sammála ráðherranum hafi ekki verið sammála honum af einhverjum misskilningi. Menn vissu nákvæmlega um hvað þeir voru að tala.

Það er ekki heldur rétt að hæstv. ráðherra hafi ávallt verið þeirrar skoðunar að það skipti litlu máli hvort ákvæðið sem nú hefur verið fellt út væri inni í lögum eða ekki. Í ágætri úttekt sinni í morgun teflir Morgunblaðið nefnilega fram orðum ráðherrans frá því í fyrri tíð gegn orðum ráðherrans nú til að sýna fram á að þeir sem hafa verið andvígir því að þessi tillaga hans næði fram að ganga hafa ef til vill náð þeim árangri að sannfæra hæstv. ráðherra um réttmæti síns málstaðar því að í seinni tilvitnuninni er hann kominn í andstöðu við það sem hann segir sjálfur í þeirri fyrri. Morgunblaðið rekur þetta svona, með leyfi forseta. Þar segir:

,,Þorsteinn Pálsson dómsmálaráðherra sagði fyrir rúmu ári, er deilt var um málið milli þáverandi stjórnarflokka: ,,Aflaheimildir eru að sjálfsögðu veðsettar í dag. Það er forsenda þorra lánaviðskipta við útgerðirnar í landinu og um leið það öryggi, sem innstæðueigendur hafa. Það væru ekki margir fúsir að leggja sparifé sitt í banka ef bankastjórunum væri óheimilt að taka veð í aflaheimildunum, því ekki er mikils virði að taka veð í skipi, sem ekki hefur veiðirétt. Við búum hér við löggjöf, þar sem er með skýrum hætti kveðið á um að fiskimiðin eru sameign þjóðarinnar, en veiðirétturinn er á höndum útgerðarinnar. Sá réttur felur í sér verðmæti og er því takmörkuð eignarréttindi. Það er heimilt að framselja hann og það væri skringilegt ef menn gætu ekki ráðstafað honum með takmarkaðri hætti með því að veðsetja hann.````

Þetta var afstaða hæstv. sjútvrh. þegar deilurnar stóðu í fyrrv. ríkisstjórn um þetta ákvæði hans. Nú segir hæstv. ráðherra að það skipti engu máli hvort ákvæðið er með eða ekki með. Einhver hefur því fengið hæstv. ráðherra til að skipta um skoðun og er það vel, því ég les ummæli hans þannig að hann beiti sér ekki lengur fyrir því að tillagan sem hann bar fram bæði í fyrrv. og núv. ríkisstjórn um þetta efni verði samþykkt. Ég tók hins vegar vel eftir því þegar hann sendi samstarfsmönnum sínum og þá ekki síst þingmönnum Framsfl. í Reykjaneskjördæmi nokkra pillu fyrir þeirra afstöðu, því hann sagði að afstaða meiri hluta þingmanna, þ.e. að hafa ekki umdeild ákvæði í lögum, bæri vott um að mikill meiri hluti þeirra styddi frjálst framsal aflaheimilda. Hvað kemur það málinu við? Það er nú ekki mikið. Hæstv. ráðherra getur því ekki dregið þá ályktun af afstöðu þingmanna sem tjáð sig hafa um málið, þar á meðal þingmanna Framsfl. í Reykjaneskjördæmi, að þeir séu að lýsa því yfir að þeir séu sammála því að aflaheimildir eigi að vera að fullu framseljanlegar. En af hverju sagði hæstv. ráðherra þetta? Vegna þess að hann veit mætavel að af hálfu þingmanna Framsfl. í Reykjaneskjördæmi hefur það sjónarmið mjög sterklega komið fram, nú síðast hjá hv. þm. Hjálmari Árnasyni, að það bæri að afnema frjálst framsal aflaheimilda. Þetta kom hv. þm. m.a. fram með í nýlegu blaðaviðtali og var mjög afdráttarlaus í þessari afstöðu sinni. Nú ætla ég ekkert að fjalla um afstöðu þessa hv. þm. eða annarra þingmanna Framsfl. um afsal aflaheimilda, um að afnema frjálst afsal aflaheimilda. Þeir eru frjálsir að hafa þá skoðun sína, að sjálfsögðu. En hæstv. ráðherra gat ekki látið hjá líða að senda stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar, þingmönnum Framsfl. í Reykjaneskjördæmi þessa pillu, að með því að hafa þessa afstöðu til veðsetningar á aflaheimildum væru þeir að undirgangast það jarðarmen að falla frá sinni fyrri afstöðu um framsal aflaheimilda. Þannig að eitthvað er hæstv. ráðherra þungt í geði til þeirra þingmanna Framsfl. sem hafa beitt sér fyrir sömu afstöðu og Alþfl. hafði í síðustu ríkisstjórn og fært það mál til sigurs. Ég ítreka það, að ég er þakklátur þessum þingmönnum Framsfl. fyrir þennan árangur og að hafa beitt sér í málinu með þeim röksemdum sem þeir gerðu. Og ég er líka þakklátur hæstv. sjútvrh. fyrir það að telja málið litlu skipta nú þegar hann hefur hvort eð er tapað því.