Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 11:46:04 (2608)

1996-02-01 11:46:04# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[11:46]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði í upphafi ræðu minnar að þar sem ég ætti sæti í þeirri nefnd sem fær þetta frv. til umfjöllunar teldi ég ekki ástæðu til að ræða almennt um efnisatriði þess heldur mundi ég velja sama kost og hæstv. sjútvrh. og verja mest öllu máli mínu í að ræða veðsetningu aflaheimilda sem ekki er í frv. Þar fylgdi ég fordæmi hæstv. sjútvrh. sem mestallan sinn ræðutíma sinn ræddi einmitt þetta efni sem ekki er í frv. Ég átti því von á að hv. þm. spyrði hæstv. sjútvrh. ekkert síður hvernig á því stæði að hann verði svona miklum tíma til að ræða mál sem ekki eru í frv. Ég held að ég þurfi ekki að skýra það frekar.

Hv. þm. spyr hvað ég segi um veðsetningu greiðslumarks. Munurinn er að sjálfsögðu sá að við erum annars vegar að tala um nýtingu náttúrauðlinda sem lögum samkvæmt er þjóðareign og hins vegar um nýtingu auðlinda sem ótvírætt er í eigu bænda. Greiðslumarksákvæðin eru hins vegar ákvæði sem sett hafa verið í samningi bænda og ríkisvaldsins um verðábyrgð ríkisvaldsins á framleiðslunni. Munurinn er því sá að annars vegar er verið að tala um nýtingu auðlinda sem eru í þjóðareign. Aflamarkið eða kvótakerfið er aðeins tímabundin stjórnunaraðferð til þess að veita einstaklingum aðgang að náttúruauðlind sem þjóðin á. Hins vegar er um að ræða náttúruauðlind sem er í einkaeign, eign bænda sem þeir nýta til búskapar. Ég held að enginn hafi látið sér til hugar koma, a.m.k. ekki um áratuga skeið, að leggja fram á Alþingi frv. til laga um það að þjóðnýta bújarðir bænda.