Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 11:48:19 (2609)

1996-02-01 11:48:19# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[11:48]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er að sínu leyti merkilegt innlegg í umræðuna að alþýðuflokksmenn gefi yfirlýsingu um það að þeir hafi ekki í hyggju að þjóðnýta bújarðir bænda. En um það snýst umræðan ekki. Engu að síður væri fróðlegt að vita hvort hv. þm. gerir ráð fyrir því að leggja fram breytingartillögur við þetta frv. eða beita sér fyrir breytingum á því í hv. allshn. En við erum ekki að ræða hér um stjórn fiskveiða, við erum að ræða um það með hvaða hætti veðsetningar séu sem tryggastar. Þess vegna væri fróðlegt að vita hvort hv. þm. er sömu skoðunar og fyrrv. hæstv. viðskrh. um það að lánastofnanir séu með tryggingar sínar fullkomlega í lagi. Það er grundvallaratriði að ekki sé staðið þannig að málum með löggjöf að um það ríki óvissa. Þetta varðar aðalatvinnuveg þjóðarinnar og það er eðlileg og skilyrðislaus krafa til okkar þingmanna að við göngum þannig frá hnútunum í þessu máli að það ríki engin óvissa um veðsetningu í sjávarútvegi þar sem hún getur skaðað hagsmuni sjávarútvegsins og skapað vissa hættu gagnvart lánastofnunum og þeim aðilum sem leggja fram fjármuni í þessa mikilvægu atvinnugrein.