Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 12:02:31 (2615)

1996-02-01 12:02:31# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[12:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. ráðherrann og hv. síðasti ræðumaður héldu sig í salnum því að ég hef áhuga á því að eiga aðeins við þá orðastað. Í fyrsta lagi vil ég segja að það er auðvitað enginn vafi á því að það er full þörf á þessari heildarendurskoðun lagaákvæða um veðrétti og samningsveð og hvað það nú allt heitir. Fróðir menn upplýsa að að stofni til séu gildandi ákvæði enn frá árinu 1887 og lagaákvæði um þessi efni eru á víð og dreif en ekki til í einum heildstæðum lagabálki. Mér finnst því rétt að það týnist ekki alveg út úr umræðunni, sem að öðru leyti virðist ætla að snúast fyrst og fremst um það sem ekki er í frv., að hér er auðvitað á ferðinni þörf heildarendurskoðun á mikilvægum lagaákvæðum. En ég get því miður ekki annað, herra forseti, en gengið þann slóða sem tveir forverar mínir í ræðustóli, hæstv. ráðherra og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, hafa troðið og rætt fyrst og fremst um ákvæði 31. gr. frv. Það lýtur að spurningunni um veðsetningu veiðiheimilda með fiskiskipi eða ekki.

Þau tíðindi hafa orðið með framlagningu þessa frv. að núverandi frv. er að því leyti breytt að þar er horfið út það ákvæði sem áður var inni í eldri frumvörpum --- frumvörpum sem í þrígang hafa verið sýnd á Alþingi áður um þetta efni --- um að þegar skip er sett að veði, sé heimilt að semja í veðbréfi um að veðrétturinn skuli einnig ná til veiðiheimilda.

Það er líka búið að vera dálítið fróðlegt að fylgjast með því hvernig saga þessa máls hefur verið umskráð á síðum dagblaða og jafnvel í ræðum hér á þingi. Er nú svo komið að Alþfl. sem sérstaklega hefur eignað sér hetjuskap í þessum efnum er eiginlega að missa heiðurinn yfir til Framsfl. (Gripið fram í: Á þessu sviði sem öðrum.) Já, ekki er við gott að búa. En vandinn er sá að Alþfl. hefur nokkuð sérkennilega sögu í þessu máli sem er líka nauðsynlegt að rifja upp. Ég ætla einmitt að gera það og inna eftir skýringum á því hvernig á því stendur að frv. um samningsveð var í þrígang flutt sem stjfrv. án fyrirvara af ríkisstjórn sem Alþfl. sat í, þar á meðal hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, þáv. hæstv. ráðherra ýmissa málefna, ýmist heilbrigðis-, viðskipta-, iðnaðar- eða hvað það nú var. (Gripið fram í: Þeir létu plata sig svo oft.) Og aldrei heyrði ég það að þessu stjfrv. fylgdi nokkur fyrirvari. Það var flutt sem venjulegt stjfrv. án þess að skýrt væri frá fyrirvara. Það hélt ég, herra forseti, að þýddi samkvæmt öllum venjum og hefðum að það nyti stuðnings beggja stjórnarflokkanna, a.m.k. þeirra ráðherra sem sætu í ríkisstjórn. Ég kannast ekki við að það hafi verið til siðs að flytja stjórnarfrumvörp ef þau nytu ekki a.m.k. stuðnings ríkisstjórnar öðruvísi en láta þess þá getið og fordæmi eru fyrir því að ráðherrar hafa flutt frumvörp í eigin nafni við þær aðstæður að einstakir ráðherrar í viðkomandi ríkisstjórn hafa ekki treyst sér til að styðja þau. Þau fordæmi eru þekkt. Síðan kemur hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hér og upplýsir að þetta hafi einfaldlega farið fram hjá Alþfl. Látum það nú vera þó að það hafi farið einu sinni fram hjá honum og jafnvel tvisvar sinnum. En að það skuli gerast þrisvar sinnum er alveg stórkostlegt. Að stjfrv. með tilteknu deilumáli skuli þrisvar sinnum geta farið fram hjá öðrum stjórnarflokknum með þessum hætti er heimsmet, leyfi ég mér að upplýsa. Ég legg til að Alþfl. hafi það í huga verði hann á lífi á næstu öld og komist oftar í ríkisstjórn að lesa betur stjfrv. áður en hann skrifar upp á þau. (Gripið fram í.)

Staðreyndin er auðvitað sú án þess að það skipti öllu máli að það var fyrst og fremst andstaða þingmanna Alþb. við þetta ákvæði sem stöðvaði málið í þinginu. Það liggur fyrir. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sem var á fyrra kjörtímabili fulltrúi Alþb. í allshn., getur vitnað um þessi mál sem og fundargerðir þeirrar nefndar o.s.frv. Hæstv. sjútvrh. kom á þeim tíma fram í fjölmiðlum og kenndi þingmönnum Alþb. um að málið var stöðvað. En nú er sem sagt svo komið að framsóknarmenn sem reyndar vel að merkja lögðust gegn frv., a.m.k. fulltrúar Framsfl. í sjútvn. á fyrra kjörtímabili, um það get ég borið vitni, eigna sér sérstaklega heiðurinn af þessu afreki. En það er sama hvaðan gott kemur og Lilja er jafngott kvæði í dag þó að allir vilji nú hafa kveðið hana.

Það er reyndar líka þannig að málflutningur hæstv. sjútvrh. í þessum efnum væri þess virði að vera skoðaður í sögulegu samhengi. Einnig mætti fara yfir það hvernig hæstv. sjútvrh. framan af í málinu lagði ofurkapp á að þetta næði fram að ganga og taldi þetta úrslitamál, en kemur nú og segir að þetta skipti svo sem engu máli hafandi auðvitað verið beygður í málinu.

Mér finnst hæstv. sjútvrh. viðhafa allt of strákslegan málflutning þegar hann gerir andstæðingum þess að þessi ákvæði séu í frv. upp þá skoðun að með því séu þeir að ganga sérstakra erinda óprúttinna útgerðarmanna sem vilja rýra veð lánastofnana með því að svindla undan veiðiheimildum. Þetta er lágkúrumálflutningur, hæstv. sjútvrh. Auðvitað er ekkert slíkt á ferðinni. Þetta mál snýst ekki um það. Þetta mál snýst um það sem allir menn hljóta að sjá að ef það er lögfest að veiðiheimildir myndi veð. Jafnvel þó að sameignarákvæði séu áfram við lýði í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða, þá verður þetta smátt og smátt að mjög mikilvægum veðum í efnahagslífinu og þrýstingur skapast á stjórnvöld um að rýra þau ekki með neinum breytingum. Þó það kunni að vera rétt hjá hæstv. sjútvrh. --- ég hallast reyndar að því að vera nær honum í því sjónarmiði en hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, að það mundi ekki endilega skapast skaðabótaskylda á stjórnvöld af hálfu lánastofnana þó að breytingar yrðu gerðar á fiskveiðistjórnkerfinu --- þá er hitt alveg augljóst mál að þegar svo væri komið að allar helstu lánastofnanir, sjóðir og bankar ættu gífurlegra hagsmuna að gæta í því að veðin yrðu ekki rýrð, yrði þrýstingurinn gífurlegur um að gera engar breytingar sem yllu slíku. Þetta sjá allir menn. Málið snýst fyrst og fremst um framtíðina, um stöðu stjórnvalda gagnvart þessum efnum í framtíðinni. Hvort sem það er lagalegt atriði eða pólitískt og efnahagslegt þá hljóta allir að sjá að eftir einhver ár, fimm eða tíu eða svo, þegar stór hluti fiskiskipaflotans væri búinn að skipta um eigendur eða samningar ganga milli eigenda skipanna eða lánastofnana sem þýddi að veðbönd væru komin á veiðiheimildirnar í mjög ríkum mæli, þá yrði staðan sú að afar litlu yrði hægt að hreyfa í þessum efnum jafnvel þó að að lögum hefðu stjórnvöld stöðu til þess á grundvelli 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða.

Það sem mundi gerast væri meira en þetta. Þetta yrði ekki bara spurning um það hvort menn gætu breytt um fiskveiðistjórnunarkerfi og hætt að reikna út eitthvert aflamark. Það yrði beinlínis þrýstingur á það að halda uppi þessu veði með því að standa þannig að málum að verðgildi aflaheimildanna héldist sem slíkt, ekki bara að þær mynduðu veð. Það held ég að sé alveg augljóst mál. Ég er sannfærður um að fátt mundi festa betur í sessi óbreytt kvótakerfi með frjálsu framsali veiðiheimilda þannig að verðgildi veiðiheimildanna og þar með veðhæfnin héldist, en akkúrat breyting af þessu tagi.

Það er sagt hér eða var sagt í fyrri frumvörpum að þegar skip er sett að veði er heimilt að semja í veðbréfi um að veðrétturinn nái einnig til veiðiheimilda skips. Þó að þetta sé sett fram með afar sakleysislegum hætti voru ýmsir og eru sem vildu ganga lengra. Það liggur fyrir. Margir höfðu mestan áhuga á því að veiðiheimildirnar yrðu sjálfkrafa veð með skipi, sjálfkrafa, ,,átómatískt``, ef hæstv. sjútvrh. skilur það betur. Ég skal vitna í því sambandi í bréf formanns allshn., hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur, til sjútvn. í desember 1994. Þá óskaði allshn. eftir því að sjútvn. léti í ljós álit sitt á brtt. við frv. og með leyfi forseta var þetta svohljóðandi, þetta er stutt bréf:

,,Allshn. óskar eftir áliti sjútvn. á drögum að brtt. við 3. mgr. 31. gr. frv. til laga um samningsveð, 88. mál. Núverandi ákvæði hljóða svo: Þegar skip er sett að veði er heimilt að semja í veðbréfi að veðrétturinn nái einnig til veiðiheimilda skips. Lagt er til [þ.e. af allshn.] að það verði svohljóðandi [þ.e. ákvæðið]: ,,Þegar skip er sett að veði skal litið svo á að veðrétturinn nái einnig til aflahlutdeildar skips, nema um annað sé samið í veðbréfi.````

Málið liggur svona, að það var og er örugglega áfram úti í þjóðfélaginu a.m.k., ef ekki jafnvel á þingi, áhugamál ákveðinna hagsmunaaðila að negla þetta enn fastar en menn þó þorðu að sýna í frv. og leggja til að veiðiheimildirnar verði sjálfkrafa sjálfvirkt veð með skipi þannig að engu sé síðan hægt að hreyfa. Staðreynd málsins er hins vegar sú að sjútvn. varð afar lítt hrifin af þessu ákvæði og þar var mikil andstaða við þessi ákvæði meðan málið var þar í umfjöllun. Reyndar fór það svo að lokum að sjútvn. frestaði því að senda frá sér nokkurt álit. Að mati nefndarinnar var um svo stórt mál að ræða þannig að aldrei var endanlega frá því gengið hver hefði orðið umsögn sjútvn., a.m.k. ekki á þessu ári sem hér um ræðir.

Ég held að vandamálin sem menn eru hér að glíma við séu afleidd. Þau eru afleidd af því að menn hafa ekki mannað sig upp í að ganga frá því með fullnægjandi hætti í lögum og ég vil segja helst einnig stjórnarskrá, hvað veiðiheimildirnar séu. Ég held að við stæðum ekki í þessu þrasi og okkur væri kannski sama með hvaða hætti veiðiheimildirnar eru veðsettar eða ekki veðsettar ef búið væri að ganga frá því í lögum og í stjórnarskrá á grundvelli skilgreiningar, hvað veiðirétturinn sé. Það er vandamálið að mínu mati. Það er því miður ekki nóg, þó það sé auðvitað gulls ígildi að hafa það í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða að fiskimiðin og fiskstofnarnir séu sameign. Það er mikilvægt. Það var afar mikilvægt að ná því inn og það er komið þangað vegna baráttu Alþb. Það er rétt að kratarnir hafi það í huga einnig og Morgunblaðið líka. Alþb. flutti fyrst flokka á þingi brtt. sem þá voru því miður felldar um sameignarákvæði á auðlindinni. Strax 1983 fluttum við nokkrir þingmenn Alþb. slíkt ákvæði. Við endurfluttum það. Það var aftur fellt. En svo kom að því að menn höfðu vitkast, við fengum liðsmenn úr ýmsum áttum og nú vilja auðvitað allir Lilju kveðið hafa eins og oftar.

En jafnvænt og mér þykir um þetta ákvæði, þá segi ég alveg hiklaust: Því miður gengur það of skammt. Það þarf meira til. Að mínu mati þarf það til í fyrsta lagi að þetta sameignarákvæði á að koma inn í stjórnarskrá og það ætti að mínu mati að vera víðtækara. Það ætti að taka til allra náttúruauðlinda sem ekki eru sannanlega í einkaeign, á grundvelli einkaeignar á landi eða öðru slíku, t.d. til jarðhita, orku fallvatna og annarra slíkra hluta. (Dómsmrh.: En veiðiréttarins?) Nei. Ja, akkúrat. Þá skulum við ræða það, hæstv. ráðherra. Hvað vantar þá til að málinu sé lokað? Það vantar skilgreiningu á veiðiréttinum. Það vantar í lög þá skilgreiningu á veiðiréttinum sem menn eru að bögglast með. (Dómsmrh.: Hver á að eiga hann?) Veiðirétturinn á að vera að lögum, hæstv. sjútvrh., afnotaréttur. Því sem á að bæta við 1. gr. er að í framhaldi af því að skilgreina í lögum að auðlindin er sameign þjóðarinnar og fiskstofnarnir eru sameign þjóðarinnar, þá komi að veiðiréttur sem einstökum útgerðaraðilum eða öðrum slíkum sé úthlutaður sé afnotaréttur og það nánar skýrt þannig að það sé algerlega neglt niður að þar er ekki um eignarrétt að ræða heldur afnotarétt sem er tímabundinn og tekur mið af þeim lögum sem hverju sinni gilda um ráðstöfun þessara sameiginlegu auðlindar í þágu þjóðarhagsmuna.

[12:15]

Það er mín niðurstaða eftir að hafa þó nokkuð velt þessum málum fyrir mér að þetta sé það sem aðallega bögglast fyrir mönnum. Þarna þarf að koma skýr lagaleg skilgreining á því hvers eðlis þetta fyrirbæri er á meðan það er við lýði. Og það verður auðvitað við lýði í einu eða öðru formi. Það er alveg ljóst að í einu eða öðru formi verða einhverjar takmarkandi reglur í gildi vegna þess að auðlindin er ekki ótæmandi og tæknin og efnahagsleg geta landsmanna er slík að það er ekki fyrir séð að aftur sé hægt að sleppa öllu lausu í þessum efnum. Ég held að því trúi enginn maður. En hvort sem um verður að ræða heimild á grundvelli sóknar eða veiðiréttar, þarf að vera skýrt að þarna er verið að ráðstafa afnotarétti að sameiginlegri auðlind. Ég held að með því mætti leysa ýmis vandamál sem nú eru að bögglast fyrir mönnum.

Herra forseti. Að öðru leyti ætla ég ekki að hafa um þetta mörg orð. Ég lít svo á að lögfesting frv. eins og það liggur hér fyrir þýði ósköp einfaldlega óbreytt ástand. Og ég tel að óbreytt ástand sé í raun og veru það skásta við núgildandi aðstæður. Og hvað þýðir þetta óbreytta ástand? Það þýðir að mínu mati að það er ekki aðeins útgerðin í landinu sem verður að búa við þá áhættu að fiskveiðistjórnunarkerfið geti breyst. Hún verður að taka þá áhættu og veit að hún getur ekki sótt neinn rétt, hvorki á grundvelli hefðar eða þess að hafa haft þennan afnotarétt um árabil. En lánastofnarnir þurfa líka að ganga þannig frá sínum málum að þær taki einnig mið af þessari áhættu. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm., Sighvati Björgvinssyni, að ef þessi veðréttarheimild hefði komið inn hefði áhætta lánastofnananna gagnvart breytingum á stjórnkerfi fiskveiða verið orðin önnur, komin í annað samhengi heldur en útgerðar. A.m.k. er hætta á því. Og það á ekki að gera. Þeir sem veita lán eða veita sjávarútveginum einhverja fjármálalega þjónustu verða að sjálfsögðu að búa við sömu aðstæður hvað þetta snertir og útgerðin sjálf, þ.e. að stjórnvöld hafa rétt til þess að gera þarna á breytingar. Sá réttur hefur verið sérstaklega tryggður í lögum. Fyrst og fremst með sameignarákvæðinu í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða og einnig með yfirlýsingum um að til þess geti hvenær sem er komið að kerfið taki breytingum. Við skulum ekki gleyma því í þessu sambandi að enn sem komið er er það svo, þrátt fyrir rúmlega áratugar sögu kvótakerfisins, að lengri hlutann af líftíma þess hefur verið byggt á tímabundnu gildi laga til eins eða tveggja ára í senn. Meiri hlutann af líftíma kvótakerfisins hefur þetta verið bráðabirgðaástand að lögum og auðvitað er eðlilegt að áhætta fylgi því.

Herra forseti. Þegar menn fara út í þau ósköp að rugla þessu saman við meðferð á greiðslumarki í landbúnaði á grundvelli búvörusamninga, þá veit ég að bæði ég og herra forseti erum svo hneykslaðir að við eigum ekki orð. Auðvitað er hlutdeild bónda í samningi um tiltekinn fjárstuðning ríkisins til takmarkaðs tíma við landbúnaðinn gersamlega ósambærilegur hlutur. Greiðslumarkið er ekki annað. Sá samningur liggur fyrir. Hann hefur lagastoð. Hann er afmarkaður í tíma þannig að veðhafinn veit nákvæmlega hvar hann stendur gagnvart því. Það er í gildi böuvörusamningur til tveggja, fimm eða þriggja ára og á grundvelli hans byggir greiðslumarkið. Það er afmarkaður fjárstuðningur við tiltekna framleiðslu og er auk þess tengt jörð í einkaeign. Ég bið menn að vera ekki að rugla umræðuna með því að blanda saman nánast óskyldum hlutum sem í raun eiga ekkert sameiginlegt nema nafnið sem menn setja á hvort tveggja, þ.e. kvótann.