Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 12:26:03 (2617)

1996-02-01 12:26:03# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[12:26]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þótt við hæstv. sjútvrh. séum sammála um sumt og stundum margt, erum við greinilega ósammála um þetta atriði. Nú er ég ekki lögfræðingur og enn minni spekingur í þessum veðflækjumálum öllum. Þar af leiðandi treysti ég mér ekki til að taka stórt upp í mig varðandi lagalega túlkun um nákvæmlega þessi atriði í núinu. Mundi þetta sem sagt einhverju breyta strax, svipað og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson fullyrti áðan? Ég er ekki mjög dómbær á það, ég viðurkenni það fúslega. En ég er sannfærður um hitt að í framtíðinni mundi þessi þróun festa kvótann rækilegar í sessi en e.t.v. nokkuð annað. Ég er líka andvígur því að í reynd erum við að lenda út á þá braut að vera með reikningsleg verðmæti, tilbúin verðmæti sem eru ekki endilega á líðandi stundu í samræmi við efnislegar forsendur. Það er hættan þegar búið er til eitthvert pappírsgildi eins og veiðiheimild. Auðvitað á það ekki að vera þannig þegar tekið er veð í hlutunum að það sé á grundvelli einhverra slíkra reikningslegra gilda sem menn meta veð sitt. Það á að vera spurningin um arðinn sem hægt er að ná af þeirri starfsemi sem verið er að lána til á hverjum tíma. Er ekki verið að búa til nákvæmlega sömu hættuna ef veiðiheimildir eru gerðar að jafnvel grundvallarundirstöðu lánveitinga í sjávarútvegi og hér hefur um áratugi viðgengist varðandi steinsteypu? Íslenskar lánastofnanir og bankar hafa ekki litið á það hvers virði sá rekstur er sem verið er að ráðast út í eða hversu gáfuleg áform einstaklings í atvinnurekstri eru, heldur hitt hvort amma hans ætti stórt einbýlishús sem hægt væri að veðsetja, hvort það væri nógu mikil steinsteypa einhvers staðar á bak við til að taka veð í. Ég held að sú hætta gæti líka komið upp ef menn slökuðu á og gæfu eftir. Ég sé þetta ekki sem ,,annaðhvort-eða-ákvörðun`` í einum punkti, heldur lít ég frekar á þetta sem spurningu um ferli eða þróun sem ég væri mjög hræddur við.