Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 12:28:29 (2618)

1996-02-01 12:28:29# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[12:28]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Sú hætta sem hv. þm. sér fyrir lýtur fyrst og fremst að því að það er heimilt að framselja aflaheimildir en ekki að því að þessi afnotaréttur geti verið andlag veðréttar. Framsalið felur í sér ríkari rétt en veðheimildin. Og það er aldrei svo að sá sem tekur veð í einhverjum verðmætum geti verið fullkomlega öruggur um það að veðið standist. Það eru alltaf möguleikar á því að veð eyðist með einum eða öðrum hætti. Lánastofnanir eru því alltaf undirorpnar þeirri áhættu að Alþingi ákveði einn góðan veðurdag að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu og þá er veiðirétturinn ekki skilgreindur með þessum hætti. Hins vegar er sú áhætta auðvitað mjög lítil. Þótt menn breyti um fiskveiðistjórnunarkerfi ætla menn að halda áfram að gera út á Íslandi og gefa skipunum veiðirétt og sá veðiréttur yrði áfram verðmætur þótt það yrði veiðiréttur í sóknarmarki eða einhverju öðru kerfi. Hann felur alltaf í sér verðmæti þannig að sú áhætta er ekki mikil.

Aðalatriðið er að það hefðu ekki verið stigin nein ný skref þótt réttur útvegsmanns til þess að framselja veðsetta aflaheimild hefði verið takmarkaður. Þvert á móti má færa að því gild rök að það að takmarka rétt útvegsmanns til þess að framselja veðsetta aflaheimild hefði gefið löggjafarvaldinu heldur sterkari stöðu ef það kysi síðar að hverfa frá þessu kerfi. Það er fyrst og fremst frelsi útvegsmannsins til þess að framselja sem getur valdið því að það myndist smám saman sterkari hagsmunalegur þrýstingur og sterkari samstaða um það að hverfa ekki frá því kerfi.