Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 12:35:45 (2621)

1996-02-01 12:35:45# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[12:35]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég get verið sammála hv. þm. um að auðvitað er æskilegt að ganga frá þessum málum með skýrum hætti. Það er enginn að biðja um að þetta sé látið vera einhverri óvissu undirorpið umfram það sem efni standa til. En á hinn bóginn verður að horfast í augu við að þetta tengist afar stóru og umdeildu máli. Það væri barnaskapur að horfast ekki í augu við það. Það er verið að afgreiða meira en bara einfalt bókhaldsatriði eða pappírsatriði að svo miklu leyti sem þetta tengist stöðu núverandi stjórnkerfis fiskveiða.

Hv. þm., formaður allshn., las hér upp tillögu sem allshn. sendi sjútvn. til umsagnar í janúar 1995. Það var í líklega þriðju tilraun sem gerð var á því kjörtímabili til að ná málinu í gegn. Það er vissulega rétt að þá var komin fram hugmynd um að vísa beint til 1. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Ég var hins vegar þeirrar skoðunar og er enn að sú tenging gæti verið varasöm nema hún væri með alveg sérstökum og tilteknum hætti. Eins og hv. þm. e.t.v. man þá var ég satt að segja ekki viss um að það væri yfir höfuð til bóta að tengja þetta við 1. gr. nema það væri gert með tilteknum hætti og þá öðruvísi. Þ.e. að það væri þá sagt að sama skyldi gilda gagnvart veðandlaginu og gilti um veiðiréttinn gagnvart útgerðinni, að menn yrðu að taka á sig þá óvissu að þetta gæti hvenær sem er breyst. Auðvitað hefði verið hægt að hugsa sér að ganga með svipuðum hætti frá orðalagi þessa frv. um samningsveð og væri hægt að gera í lögum um stjórn fiskveiða og ég var að víkja að hér áðan og tengist þá því að skilgreina fyrirbærið aflamark eða veiðirétt. Auðvitað hefði verið hægt að hugsa sér að skilgreina veðandlagið í þessu sérstaka tilviki og tengja það þeirri óvissu sem væri vegna þess að um tímabundið ,,stjórnkerfi fiskveiða`` væri að ræða.