Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 12:41:00 (2624)

1996-02-01 12:41:00# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[12:41]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Þótt veðsetning aflaheimilda hafi verið mest til umræðu í dag varðandi þetta frv. þá er það nú svo að hér er verið að gera allmiklar lagfæringar á íslenskum rétti. Það yrði mikil réttarbót ef samþykkt yrðu frá Alþingi heildarlög um samningsveð. Eins og tekið er fram í greinargerð með frv. er núverandi löggjöf um þessi efni á víð og dreif og ákvæðin auk þess frá ýmsum tímum, það elsta frá 1869 og hið yngsta frá 1989.

Núgildandi löggjöf er ekki almenn löggjöf og hún lætur ósvarað mörgum helstu álitaefnum á sviði veðréttarins eins og tekið er einnig fram í athugasemdum með frv. Lögfesting skýrra heildarreglna á sviði veðréttarins yrði því án efa ánægjuefni mörgum sem með veðréttarleg málefni sýsla. Það er þó sérstakt ánægjuefni að fallið skuli hafa verið í nýjustu gerð frv. frá því að lögfesta þá framkvæmd sem viðgengist hefur að veiðiheimildir séu veðsettar. Hátíðlegt ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða sem kveður á um að auðlindir sjávar séu sameign þjóðarinnar hefur mátt sín lítils gagnvart hagsmunum þrýstihópa, lánastofnana og útgerðarmanna, sem reyndar hafa farið með auðlind þjóðarinnar sem sína eigin. En jafnvel þótt ákvæðið sé fellt út úr núgildandi frumvarpsdrögum tók hæstv. sjútvrh. það skýrt fram í ræðu sinni áðan að framkvæmdin yrði engu að síður viðhöfð áfram og var helst að skilja á máli hans að þar með væri sú framkvæmd réttlætanleg. Það er auðvitað með öllu óviðunandi að svona skuli haldið á málum. Það væri e.t.v. eðlilegra fyrir hæstv. sjútvrh. að beita sér fyrir því að ákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða yrðu afnumin þar sem auðlindir sjávar ættu ekki að vera sameign þjóðarinnar heldur einungis eign tiltekins hluta hennar. Slík vinnubrögð væru e.t.v. hreinlegri. Hitt er þó undarlegra að mínu mati að hæstv. sjútvrh. sem er löglærður, skuli ekki þykjast sjá mun á því hvort menn upp á sína eigin ábyrgð taki að veði eign sem aðrir eiga eða því hvort slík framkvæmd sé lögfest. Það er að sjálfsögðu allt annar hlutur og kemur þeim verst sem veðið tekur. Þetta veit hæstv. ráðherrann og réttlætir þessi staðreynd á engan hátt það athæfi að reyna að lögfesta slíka veðsetningu. Það er stór munur þar á. Hún verður áfram að vera á ábyrgð þeirra sem vilja taka slík veð sem tryggingu í viðskiptum.

Það er vikið að því í athugasemdum með frv. að núgildandi veðlöggjöf hafi borið skaða af því að breytingarnar sem á henni hafa verið gerðar hafi verið tilkomnar vegna þrýstings frá einstökum atvinnugreinum sem hafa mikla þörf fyrir rekstrarfé. Dæmi þessa eru nefndar atvinnugreinar eins og sjávarútvegur, iðnaður og landbúnaður. Í athugasemdum með frv. er fullyrt að með breytingum þessum hafi meira verið hugsað um að leysa bráðan vanda tiltekinna atvinnugreina eða að veita ákveðnum lántakendum aukið öryggi í stað þess að huga að heildstæðum lausnum er komi öllum jafnt til góðs. Þessi orð í athugasemdum frv. sem eru viðhöfð um eldri veðlöggjöf eiga jafnt við um hið nýja frv. og það er jafnmikilvægt í dag og það hefur alltaf verið að almenn löggjöf sem þessi sé vönduð og til þess fallin að koma sem flestum til góða.

Sú breyting sem gerð hefur verið á frv. varðandi veðsetningu aflaheimildar felur í sér ákveðna afstöðubreytingu. Mér sýnist erfitt að skilja hana sem svo að í raun og veru hafi ekkert gerst. Það hefur nefnilega gerst að hagsmunahópar, lánastofnanir og útgerðarmenn hafa beðið lægri hlut fyrir réttlætinu. Það hefur unnist varnarsigur eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon orðaði það áðan, hver svo sem getur eignað sér hann. Og ég ætla mér allra síst að fara að blanda mér í þá deilu hér hverjir hafi átt upphafið eða geti eignað sér það að þetta ákvæði hafi verið tekið út úr frv.