Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 14:09:21 (2633)

1996-02-01 14:09:21# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[14:09]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér er nú stórum léttara að heyra að hv. þm. áskilur sér rétt til að hafa persónulega skoðun í þingflokki sjálfstæðismanna, ekki síst vegna þess að hann hefur undirritað á Alþingi drengskaparyfirlýsingu um að fara eftir sannfæringu sinni sem þingmaður. Það er því mjög gott að heyra að hann skuli hafa sjálfstæða skoðun í þingflokki sjálfstæðismanna. En mig undrar það að honum skuli finnast óeðlilegt að sömu vinnubrögð gildi í þingflokki framsóknarmanna. Ég veit ekki betur en að þingmenn almennt telji sig hafa rétt til þess að halda við sína skoðun hver svo sem meiri hluti eða minni hluti er í þeirra flokki ef þeir telja það mál sem til umfjöllunar er það mikilvægt að það samrýmist ekki samvisku þeirra að láta af sinni skoðun. Ég skil ekki þessar athugasemdir sem hv. þm. gerði við starfshætti framsóknarmanna. Það er að vísu ekki mitt að halda uppi vörnum fyrir framsóknarmenn. Það er sjálfsagt þeirra að gera það nema kannski hv. þm. líti svo á að þeir megi ekki gera það nema með heimild ráðherra sinna.