Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 14:20:46 (2637)

1996-02-01 14:20:46# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[14:20]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrðist á ræðumanni að hann hafi verið sammála því sjónarmiði mínu að áhrifin af því að taka þetta út úr frv. væru fyrst og fremst í þá veru að styrkja stöðu sameignarákvæðis í lögunum um stjórn fiskveiða. Ég tel mikilvægt að benda á að af hálfu allra þeirra sem hafa útskýrt andstöðu sína við heimild til að veðsetja veiðiheimildir hefur það verið á þeim forsendum að menn vilja senda þau skilaboð frá þinginu að menn tefli ekki á tvær hættur með eignarhaldið á auðlindinni. Það er grundvallaratriði sem mér finnst að verði að undirstrika alveg sérstaklega sem niðurstöðu úr þessari umræðu.

Hitt er svo annað mál hvort sú ástæða býr að baki skoðunum manna um að taka upp veiðileyfagjald. Það er sjálfstætt umræðuefni sem tengist þessu ekki svo mjög. Þó er ég þeirrar skoðunar og benti á það í ræðu minni að þegar menn styrkja sameignarákvæðið og eru sammála um að það séu áhrifin af þessum skorti á efni í frv., þá eru menn að veikja málflutning og rökstuðning þeirra sem tala fyrir veiðileyfagjaldi eða auðlindaskatti. Þeir leggja það sem forsendu fyrir málflutningi sínum að þróunin stefni í þá átt að hætta sé á því að sameignin verði séreign og veiðileyfagjaldið sé andsvar við þeirri þróun. Með því að vera sammála um að sameignarákvæðið sé styrkt, eru menn jafnframt að viðurkenna að málflutningur þeirra sem tala fyrir veiðileyfagjaldi hefur veikst, þeir hafa minni rök eftir en áður fyrir sínu máli.