Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 14:26:49 (2640)

1996-02-01 14:26:49# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[14:26]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það hljóti að vera mun skýrara ef það er alveg ótvírætt að þjóðin á auðlindina. Þá er frekar hægt að heimila að aflaheimildir séu boðnar út eða leigðar og veð miðað við það. Ég get því alls ekki skilið hvernig viðkomandi þingmaður hugsar þetta mál.

Varðandi það síðastnefnda að þetta sé skattamál en tengist ekki stjórnun fiskveiða, þá er grundvallarvandinn að það er mismunur á teóríu og praxís. Lögin segja eitt í orði, en á borði eru þessar fiskveiðiheimildir færðar örfáum mönnum til afnota. Síðan versla þeir með þessar heimildir sín á milli. Það gengur ekki upp í praxís. Það verður því að tryggja að þarna sé samræmi. Ef taka á mark á 1. gr. er rökrétt og nauðsynlegt að leigja afnotin. Þar á ég við að leigja afnotin til takmarkaðs tíma og jafnvel að bjóða þau út. Að mínu mati er það eina leiðin til að tryggja að þjóðin njóti afraksturs auðlindarinnar miðað við aflamarkskerfið. Auðvitað er hægt að hugsa sér allt annað kerfi, en með aflamarkskerfið í huga er hægt að tryggja að það sé samræmi þarna á milli. Ég hlusta ekki á að þetta tengist ekki lögunum um stjórnun fiskveiða. Þetta er algert grundvallaratriði.