Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 14:38:21 (2643)

1996-02-01 14:38:21# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[14:38]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég finn það í gegnum þessa umræðu hjá hv. 10. þm. Reykn., Kristjáni Pálssyni, að honum gremst að þetta mál hefur vakið þjóðarathygli. Það hafa orðið pólitísk tíðindi. Þriggja ára stríði um þetta mál er lokið. Það er komin niðurstaða í það. Auðvitað er eðlilegt að það sé talað við þá aðila og einhverja menn úr þeim flokki sem komu þeirri niðurstöðu fram í stjórnarflokkunum. Það þýðir því ekki að vera með slíka afbrýðisemi út í einstaka félaga sína í hinum flokknum sem standa heilir að þessari ríkisstjórn. Ég skil vel fjölmiðlana að þeir fjalli um þetta mál og segi frá því hvernig það hefur gerst.

Ég vil minna hv. þm. Kristján Pálsson á það að svo langt sem ég man orðið aftur, þá hefur sjútvrh. verið í hans eigin flokki. Þorsteinn Pálsson, hæstv. sjútvrh., hefur verið þarna síðan 1991 (Gripið fram í: Hann man ekki lengra.) þannig að ... (Gripið fram í: Hann er enn þá í Sjálfstfl.) þetta er svona sá tími sem menn muna í svipinn, fimm ár aftur í tímann. Hann hefur farið með þennan málaflokk, gert það á margan hátt myndarlega þó ég hafi ekki stutt hann í öllum atriðum. Sjálfstæðismenn verða að átta sig á því að í þeirra þingflokksherbergi er lykilmaðurinn í sjávarútvegsmálum. Það þýðir ekkert að vera að skamma Framsfl. eða fortíðina. Það þýðir ekkert að vera alltaf að berja á fortíðinni. Hún er farin. Það er framtíðin sem blasir við og málefni hennar sem menn eiga að ræða. Menn tapa alltaf á því að vera í þessu fortíðarnuddi.