Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 14:49:28 (2647)

1996-02-01 14:49:28# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[14:49]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf gaman að heyra hv. þm. Einar Odd fjalla um sjávarútvegsmál. Hann gerir það yfirleitt af kunnáttu og þekkingu og ég er honum sammála um að afnotaréttur á auðlind hlýtur ævinlega að vera séreignarfyrirbæri. Þá gildir einu hvort menn viðhalda einhvers konar aflamarkskerfi, sóknarmarkskerfi eða einhverju öðru. Það er ævinlega á höndum einhverra einstaklinga að nýta auðlindina og sá réttur verður þá þeirra eign. Ég deili því ekki við hann um það efni.

Hins vegar mótmæli ég þeim ummælum hans að það sé sýndarmennska að setja ákvæði í lög um stjórn fiskveiða varðandi sameign þjóðarinnar á auðlindinni. Kjarni málsins er einmitt að hafa þetta ákvæði inni til þess að koma í veg fyrir að þessi afnotaréttur sé það sterkur að það verði að borga menn út úr honum. Við getum með einföldum hætti breytt lögum sem hafa áhrif á þennan afnotarétt án þess að borga rétthafa neinar bætur. Við getum fjölgað þeim sem hafa réttinn til þess að nýta auðlindina án þess að borga þeim sem fyrir eru neinar bætur fyrir það o.s.frv. Það er því algert grundvallaratriði að hafa þetta sameignarákvæði ef við ætlum okkur að geta breytt lögunum í framtíðinni. Ég tel því að ummæli hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar um þetta atriði séu á misskilningi byggð.