Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 15:04:01 (2656)

1996-02-01 15:04:01# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[15:04]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Þessi umræða hefur um margt verið athygli verð og réttilega er á það bent að meginhluti umræðunnar hefur snúist um það ákvæði í frv. sem ákveðið var að fella út. Það í sjálfu sér fullkomlega eðlilegt. En það er ástæða til þess í lok þessarar umræðu eða undir lok hennar, hversu löng svo sem hún verður, að ítreka það að þetta ákvæði sem hér hefur mest verið fjallað um fól ekki í sér neins konar yfirlýsingu um að heimila ætti með því veðsetningu aflaheimilda vegna þess að veðsetning aflaheimilda er heimil og fer fram. Ég hygg að það séu fá skip með aflaheimildir sem ekki eru veðsettar. Ýmsir talsmenn þess að fella niður ákvæðið hafa lagt á það áherslu að þetta sé í raun staðan eins og talsmenn Alþb. sem hafa talað mjög málefnalega um þessa hluti. En samt sem áður er það svo að sumir hv. þm. sem hér hafa talað hafa í reynd verið þessarar skoðunar og telja þess vegna að með því að fella þetta ákvæði niður þá sé ekki lengur leyfilegt að veðsetja aflaheimildir. Þetta er að sjálfsögðu misskilningur. Það er líka ástæða til að fjalla hér nokkuð um þær yfirlýsingar að með því að fella þetta ákvæði niður hafi verið úr því dregið að kvótakerfið festist í sessi. Þetta er rökleysa vegna þess að það ákvæði sem var fellt niður fól í sér einfalda takmörkun á heimild útvegsmanna til að framselja aflaheimildir. Það er rökleysa að halda því fram að þegar löggjöfin setur takmörkun á framsal aflaheimilda festi það framsalsréttinn og aflamarkskerfið í sessi. Það mætti fremur færa rök að því að það væri á hinn veginn. En ég held að í raun og veru sé staðan sú að það hafi akkúrat engin áhrif á fiskveiðistjórnarkerfið. Það er alveg fullkomin rökleysa að halda því fram að það skipti einhverju máli í þessu samhengi.

Það er hins vegar athygli vert að þingmenn sem hér hafa talað, eins og hv. 4. þm. Vestf. og talsmenn Kvennalistans og lýst því yfir að þeir væru á móti því að aflaheimildir væru veðsettar, vilja ekki flytja við umræðuna breytingatillögu sem kveður skýrt á um það að óheimilt sé að taka veð í þeim verðmætum sem tilheyra aflahlutdeildinni. Þeir vilja ekki flytja slíka tillögu. Það er raunverulega kjarni málsins. Ef við fengjum slíka tillögu værum við með tillögu í höndunum sem væri ástæða til að hafa langar umræður um vegna þess að ég geri ráð fyrir því að þá yrðu mjög skiptar skoðanir. En það er athygli vert að þessa tillögu vilja hv. þm. ekki flytja. Sérstaklega hefur hv. 4. þm. Vestf. verið að þessu spurður en hann hefur ekki viljað lýsa því yfir að hann vilji flytja slíka tillögu. Það er auðvitað lykilatriði í málinu. Umræða um slíka tillögu gæti gefið tilefni til langrar rökræðu og skipt mönnum hér í ólíka skoðanahópa.

Það er kristaltært að það ákvæði sem var fellt út fól það eitt í sér að takmarka framsal á aflaheimildum. Afstaða þeirra sem vilja fella þetta ákvæði út og hafa náð því fram --- ég er ekkert endilega að segja að það sé þeirra hjartans sannfæring --- hefur leitt til þess að þeir, meðan núverandi fiskveiðastjórnarlög eru í gildi, hafa séð til þess að útvegsmenn hafa rýmri framsalsrétt en ég tel ástæðu til og þeir sem lána fjármuni til útvegsins hafa veikari stöðu og það sé meira óöryggi í slíkum viðskiptum en ég tel ástæðu til. Þetta er það eina sem þessir hv. þm. hafa haft upp úr krafsinu. Og af því að þetta er ekki stórvægilegt mál og ekki líklegt að mörg alvarleg dæmi komi upp sé ég ekki ástæðu til þess að gera mikið veður út af því eða nokkurn ágreining þar um. En það er alveg nauðsynlegt að það sé alveg ljóst að þetta er það eina sem hefur gerst.