Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 15:11:30 (2658)

1996-02-01 15:11:30# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[15:11]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það var alveg skýrt að það ákvæði sem var fellt niður úr frv. fól það eitt í sér að takmarka framsal útvegsmanna. Það fól ekki í sér heimild til veðsetningar vegna þess að slíkar heimildir eru fyrir hendi og hafa verið fyrir hendi enda fáar aflaheimildir sem ekki eru veðsettar nú. Ákvæðið fól einvörðungu í sér að takmarka framsalsrétt útvegsmanna þegar um það er að ræða að þeir hafi veðsett aflaheimildirnar og koma á þar með meira öryggi í viðskiptum. Það eina sem þeir hv. þm. sem eru andvígir ákvæðinu hafa náð fram er það að þessi framsalsréttur útvegsmanna hefur verið rýmkaður. Þeir hafa rýmri rétt með þessari niðurstöðu til þess að framselja veðsettar aflaheimildir en þeir mundu hafa haft ef ákvæði frv. hefði náð fram að ganga. Ef hv. 4. þm. Vestf. er svona óskaplega ánægður með þetta þá er það í sjálfu sér fagnaðarefni. En þar sem hann hefur þó nokkrum sinnum lýst því yfir að hann sé andvígur því að aflaheimildir séu veðsettar, skil ég ekki hvers vegna hann flytur ekki um það tillögu í þinginu að banna það sem er á grundvelli gildandi laga leyfilegt, fyrst hann segist vera þeirrar skoðunar. Mér býður í grun að málflutningur hv. þm. beri nokkurn vott um tvískinnung. Hann veit að það er ekki skynsamlegt og hann veit að honum yrði nú ekki fagnað heima í kjördæminu ef hann flytti slíkar tillögur en hann ætlar að reyna að komast upp með það að slá ryki í augu kjósenda um það hver afstaða hans er. Það getur vel verið að honum takist það. Ekki ætla ég að deila við hann eða aðra um það efni. En staðreyndin í málinu er býsna skýr.