Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 15:15:54 (2660)

1996-02-01 15:15:54# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[15:15]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ástæða þess að í þessu frv. er ekki tillaga af minni hálfu um að takmarka rétt útvegsmanna til að framselja veðsettar aflaheimildir er sú að fyrir þeirri tillögu hafði ég ekki þingstyrk, ekki meiri hluta á þinginu. Bæði eru það þingmenn í stjórnarliðinu og eins þingmenn í stjórnarandstöðunni sem hafa þá afstöðu að þingmeirihluti fyrir því er ekki fyrir hendi. Þess vegna munu útvegsmenn samkvæmt gildandi lögum hafa áfram óbreyttar heimildir til að veðsetja aflaheimildirnar og framselja þær þótt þær séu veðsettar. Þetta er eina ástæðan fyrir því að þessi tillaga er ekki í frv. Ég spyr þess vegna enn og aftur: Hvers vegna þorir hv. þm. ekki að lýsa því hér yfir að hann vilji breyta gildandi lögum og banna veðsetningu aflaheimilda sem hann segist vera á móti? Ég man ekki eftir því þennan tíma sem ég hef setið á Alþingi að þingmaður sem hefur svo ákveðnar skoðanir þori ekki að lýsa því yfir að hann sé reiðubúinn að flytja tillögu um að tryggja í lögum að skoðanir hans séu virtar. Ég skora enn og aftur á hv. þm. að hugsa sitt ráð, þetta mál kemur aftur til umfjöllunar við 2. umr. Ég ætla ekki að hvetja hann til frekari umfjöllunar um þetta núna en það er nægur tími til þess við 2. umr. Ég bið hann að hugleiða þetta því sómi hans liggur við.