Nýting innlends trjáviðar

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 15:25:34 (2664)

1996-02-01 15:25:34# 120. lþ. 82.5 fundur 184. mál: #A nýting innlends trjáviðar# þál., Flm. ÍGP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[15:25]

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um nýtingu innlends trjáviðar sem til fellur við grisjun skóga. Flm. auk mín eru: Jón Kristjánsson, Guðni Ágústsson, Valgerður Sverrisdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Magnús Stefánsson, Stefán Guðmundsson og varaþingmennirnir Drífa Sigfúsdóttir og Anna Jensdóttir. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að skora á landbúnaðarráðherra að kanna möguleika á að nýta innlendan trjávið, sem fellur til við grisjun, til framleiðslu listmuna, byggingarefnis, límtrés eða til eldiviðarframleiðslu. Jafnframt verði gerð fagleg úttekt á því hvernig fullnýta megi þau verðmæti er til falla í skógum landsins.``

Skógrækt ríkisins telur að eftir u.þ.b. 40 ár verðum við sjálfum okkur nóg um trjávið til bygginga og framkvæmda. Það er heilmikill viður sem til fellur á ári hverju. Mér er sagt að nú sé verið að grisja skóg í Skorradal og af u.þ.b. sjö hekturum falla alls til um 200 tonn af trjáviði. Heildarmagn þess viðar sem til fellur er um 1.000 hektarar. Hér er því um heilmikið magn er að ræða.

Greinargerð með þessari tillögu er eftirfarandi:

,,Með aukinni skógrækt víða um land fellur mikið til af trjáviði við grisjun skóga. Miklu máli skiptir að nýta þann trjávið sem best. Eðlilegt er talið að 30--50 ár líði frá gróðursetningu skógarplantna þar til grisjunarviðurinn verður nýtanlegur. Á næstu árum mun magn hans aukast mikið víða um land. Benda má á eftirtaldar leiðir til að hámarka verðmætasköpun úr grisjunarviði:

a. Á vegum Skógræktar ríkisins hefur verið komið upp sérstökum viðarlager (viðarmiðlun). Þar geta handverks- og listamenn orðið sér úti um íslenskan við til handverks- og listmunagerðar eða sem byggingarefni. Einnig má nýta viðinn sem efni til handmenntakennslu í skólum landsins. Notkun íslensks viðar hefur uppeldislegt gildi fyrir nemendur og í henni er fólgin kynning á því hvernig nýta má afurðir skógarins.``

Við viljum gjarnan tengja tillögu þessa við skóla landsins þannig að á vorin fari nemendur út og gróðursetji tré og fái um leið tilsögn kennara sinna í því hvernig í framtíðinni megi síðan nýta afurðir skógarins.

,,b. Límtré er víða talið mjög heppilegt byggingarefni mannvirkja. Benda má á að ending timburs er í mörgum tilfellum margfalt betri en ending steinsteypu. Fram til þessa hefur mestallt hráefni til vinnslunnar verið innflutt.

Límtrésverksmiðjan á Flúðum gekkst nýlega fyrir tilraunaverkefni þar sem 36 ára íslensk lerkitré af síberískum uppruna voru notuð til framleiðslu límtrésbrúar. Sú tilraun þótti takast mjög vel. Eðlilegt er að allar göngubrýr í íslenskum skógum og þjóðgörðum verði gerðar úr slíku efni. Þetta er í raun táknrænt dæmi um hvað hægt er að gera úr íslenskum viði.``

Við teljum að slíkar brýr falli mun betur inn í náttúruna en steinsteypt mannvirki eða ræsi eins og sums staðar má sjá.

,,c. Lerki er ákjósanlegt efni til framleiðslu gluggaviðar, skjólgirðinga, sólpalla o.fl. Afgangsvið og úrgangsvið má einnig nota til framleiðslu á eldiviði til upphitunar heimila og stofnana, svo og sem eldivið í ál- eða járnblendiframleiðslu. Kurl hentar og vel í göngustíga.

[15:30]

Alþekkt er að skógur sem ekki er grisjaður liggur undir skemmdum. Víða á landinu má finna þéttan skóg sem brýn þörf er á að grisja. Einnig fellur mikið til af trjáviði í þéttbýli þegar verið er að grisja tré á húsalóðum.

Flutningsmenn leggja til að Alþingi beini þeirri áskorun til landbúnaðarráðherra að hann kanni möguleika á að allur viður sem fellur til við grisjun í skógum landsins og skrúðgörðum verði nýttur þannig að sem mest verðmæti skapist.

Nefna má nokkur fyrirtæki á Íslandi sem vinna að tilraunum með vinnslu á íslenskum trjáviði: Límtré hf. á Flúðum er að kanna notkunarmöguleika lerkis og Byko hf. hefur í hyggju að reyna lerki í gólfefni, sólbekki o.fl. Trésmiðja Fljótsdalshéraðs mun gera tilraunir með smíði glugga úr lerki og hjá nokkrum aðilum er hafin önnur vinnsla, svo sem smíði húsgagna og ýmissa handverksmuna.

Að lokum má benda á að Suðurland er ákjósanlegt landsvæði til nytjaskógræktar.``

Herra forseti. Til gamans má nefna að skógarbændur á Suðurlandi færðu okkur þingmönnum Suðurl. þennan litla trjákubb hér sem er einmitt þetta síberíska lerki sem talað er um í tillögunni. Það sýnir hvað hægt er að gera ef við nýtum þennan við, eins og fram kemur í tillögunni, betur heldur en við höfum gert. Ég hvet landbrh. og iðnrh. til að horfa vel til þessarar tillögu.