Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 15:45:08 (2670)

1996-02-01 15:45:08# 120. lþ. 82.91 fundur 171#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[15:45]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu staða heilsugæslunnar. Fulltrúar heilsugæslulækna komu á minn fund í gærmorgun og skýrðu fyrir mér þá óánægju sem hefur verið að búa um sig í röðum heilsugæslulækna. Síðdegis í gær bárust síðan uppsagnir 127 heilsugæslulækna. Ég er mjög ósátt við þau vinnubrögð að læknar grípi til fjöldauppsagna eins og hér hefur verið gert. Hlutverk heilsugæslunnar er eitt af því mikilvægasta í allri heilbrigðisþjónustunni og nauðsynlegt er að um þau störf sem þar eru unnin ríki friður eins og kom fram hjá hv. frummælanda.

Strax í morgun átti ég fund með fulltrúum heilsugæslulækna þar sem þeir kynntu fyrir mér þau atriði sem að þeirra mati valda mestri óánægju. Þar ber hæst óánægju með skipulag og uppbyggingu heilsugæslu í Reykjavík, þar á meðal stöðu og hlutverk svokallaðrar læknavaktar, og óánægju með framkvæmd verkaskiptingar innan heilbrigðisþjónustunnar. Heimilislæknar hafa einnig áhyggjur af lítilli fjölgun í stéttinni.

Allir sem fylgst hafa með heilbrigðismálum á Íslandi undanfarin ár gera sér grein fyrir þeim vandamálum sem læknarnir vekja athygli á. Deilan um tilvísanir, ágreiningur um vakt barnalækna í Reykjavík og ýmislegt fleira, allt tengist þetta þeim vanda sem hér er við að glíma. Hlutverk heilsugæslunnar er skilgreint í lögum um heilbrigðisþjónustu, 11. gr., sem allt heilsuverndarstarf og allt lækningastarf sem unnið er vegna heilbrigðra og sjúkra sem ekki dvelja á sjúkrahúsum. Þetta er mjög víðfeðm skilgreining sem nánar er skýrð í 19. gr. sömu laga þar sem talin er upp sú þjónusta sem veita ber á heilsugæslustöðvum.

Í úttekt Hagsýslu ríkisins á starfsemi heilsugæslustöðva og samanburði á kostnaði við rekstur þeirra var bent á að flestar heilsugæslustövar sinna aðeins nokkrum af þessum þáttum. Rekstrareiningar eru smáar og ekki hefur reynst unnt eða skynsamlegt að ætlast til að allar stöðvar sinni öllum þessum viðfangsefnum. Í tillögum starfshóps um breytta skipan heilsugæslu er bent á mikilvægi þess að tryggja að öllum heilsugæslustöðvum séu búnar aðstæður til að sinna kjarnaverkefnum sínum en svæðisbundnum heilbrigðisstjórnum verði falið að tryggja íbúum svæða alla aðra heilsugæslu. Þessar hugmyndir eru nú í úrvinnslu. Ég hef bundið vonir við að einmitt hugmyndir um heilbrigðisstjórnir gætu á margan hátt sætt þau ólíku sjónarmið sem uppi eru, m.a. varðandi verkaskiptingu. Slíkar heilbrigðisstjórnir mundu bera ábyrgð á skipulagi þjónustu við íbúana og gætu tekið ákvarðanir um forgangsröðun verkefna og áherslur. Þannig yrði vald til ákvarðana fært nær vettvangi. Tillögurnar fela í sér stefnumörkun fyrir stjórnskipan í heilsugæslu og mundu væntanlega hafa í för með sér töluverðar breytingar kæmu þær til framkvæmda. Þær eru byggðar á þál. frá 7. febr. 1991 og íslenskri heilbrigðisáætlun sem samþykkt var á Alþingi 19. mars 1991.

Virðulegi forseti. Í niðurlagi greinargerðar læknanna sem fylgir með uppsögn þeirra segir, með leyfi forseta, að heilsugæslulæknar hafi dregist verulega aftur úr viðmiðunarhópum hvað kjör varðar og jafnframt að algjör forsenda nýrra kjarasamninga sé að ofangreint skipulag verkaskiptingar verði áður gert bæði ljóst og tryggt í framkvæmd.

Vegna þessa vil ég taka fram að heilbrrn. hefur vitaskuld fylgst með því og tekið eftir að heilsugæslulæknar, eins og fleiri starfstéttir í þjóðfélaginu, hafa verið óánægðir með launakjör sín. Það er því nokkurt gleðiefni að í gær tókust kjarasamningar milli Tryggingastofnunar ríkisins og læknafélaganna um þjónustu sjálfstætt starfandi heimilislækna utan heilsugæslustöðva. Í morgunútvarpi í dag skýrði prófessorinn í heimilislækningum frá því að Ísland væri almennt talið búa við bestu frumheilsugæslu í heimi. Eitthvað virðumst við því sannanlega gera rétt.

Lögð hefur verið áhersla á að ljúka uppbyggingu heilsugæslunnar á undanförnum árum og hefur heilsugæslunni verið hlíft við niðurskurði undanfarinna ára svo sem kostur er. Nýjar, glæsilegar heilsugæslustöðvar hafa verið opnaðar í Reykjavík, í efra Breiðholti, Mjódd, miðbæ, Grafarvogi og Lágmúla. Nýjar heilsugæslustöðvar hafa verið byggðar á landsbyggðinni og má þar nefna opnun nýrra stöðva í Grundarfirði, á Húsavík, Djúpavogi, Þorlákshöfn og Eskifirði. Framkvæmdir eru hafnar við byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar í Laugarási í Biskupstungum en með þeirri framkvæmd má segja að uppbygging heilsugæslustöðva á landsbyggðinni sé nær lokið. Til viðbótar má geta þess að bygging nýrrar heilsugæslustöðvar Í Kópavogi er hafin og jafnframt undirbúningur að byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar í Fossvogi.

Í viðræðum mínum við fulltrúa heilsugæslulækna nú í morgun urðum við sammála um að ráðuneytið reyndi svo fljótt sem unnt er að finna farveg fyrir lausn umræddra vandamála.

Ég hef því sem fyrstu aðgerð í samráði við heilsugæslulæknana ákveðið að beina því til þeirra hópa sem nú fjalla um skipulag svæðisbundinna heilbrigðisstjórna og endurskoðun á heilbrigðisáætlun að skoða sérstaklega þau mál sem snúa að uppbyggingu heilsugæslunnar sem betur mættu fara. Ég tel að ég hafi svarað þeim fyrirspurnum sem fyrir mig hafa verið lagðar.