Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 15:51:55 (2671)

1996-02-01 15:51:55# 120. lþ. 82.91 fundur 171#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[15:51]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég hef ekki lagt það í vana minn að veitast að hæstv. heilbrrh. og síst með þeim hætti sem hæstv. ráðherra veittist að mér á meðan hún var óbreyttur þingmaður. Ég mun ekki bregða út af þeim vana mínum hér. Hins vegar fer það að sjálfsögðu ekki fram hjá mér fremur en öðrum að hæstv. ráðherra hefur engu breytt af því sem gert var en gengið mun lengra.

Það fer ekki á milli mála hvaða ákvæði eru í íslenskum lögum um hvernig skipulag skuli vera á heilbrigðisþjónustu í landinu, að hún skuli byrja hjá heilsugæslunni og heimilislæknum. Þetta er í samræmi við markaða stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Það hefur hins vegar átt sér stað sú þróun hér á undanförnum árum, ekki bara á þessu ári heldur á nokkuð löngum tíma, að þessu markmiði hefur verið stefnt í hættu, m.a. með því að sérfræðingar hafa í auknum mæli verið að taka að sér verkefni sem heilsugæslan á að sinna. Þetta er allt annað kerfi og öðruvísi en við þekkjum frá nálægum löndum. Þess vegna var eðlilegt þegar menn sáu hvert stefndi að reyna að spyrna við fótum. Það gerði hæstv. heilbrrh., Guðmundur Bjarnason, á sínum tíma þegar hann lagði til og hugðist beita sér fyrir því að tekið yrði upp sams konar kerfi til þess að beina þessu í rétta átt eins og við þekkjum úr öllum nálægum löndum, svokallað tilvísunarkerfi. Hæstv. ráðherra heyktist á því. Það var gerð önnur tilraun í minni tíð sem ég held að hefði tekist ef nýr ráðherra hefði haft bein í nefinu til að standa sig. Þá hefði hún tekist því ég tel að það hafi verið að vinnast sigur í því máli. Ég tek fram að það kerfi var ekki kerfi einhverra pappírsviðskipta eða kerfi til þess að gera óþægilegt fyrir sjúklinga að leita sér lækninga heldur það eina kerfi sem ég þekki til sem getur tryggt það markmið sem er í íslenskri heilbrigðislöggjöf og í samþykktum WHO. Því miður náði það ekki fram að ganga. E.t.v. má finna einhverja aðra aðferð, þótt mér sé hún ekki kunn, sem getur leitt til sama árangurs. En það stendur þá upp á heilbrrn. að svara hver sú leið á að vera fyrst búið er að spyrna út af borðinu þeirri leið sem aðrar nálægar þjóðir nota til að ná sambærilegu markmiði. Hvaða aðra leið vill heilbrrn. þá leggja til, sé það svo að heilbrrh. sé sammála heimilislæknum um að þessa stefnu beri að marka? Það stendur upp á ráðuneytið að svara því.

Örfá orð í lokin, virðulegi forseti. Það er ekki tilviljun að uppbygging heilsugæslustöðva hefur gengið seinna í Reykjavík en úti á landi. Eru menn búnir að gleyma þeim miklu átökum sem urðu milli borgaryfirvalda, á þeim tíma þegar Sjálfstfl. stjórnaði Reykjavíkurborg, og heilbrigðisyfirvalda um skipulag heilbrigðisþjónustunnar hér í Reykjavík? Það var ekki sök heilbrigðisyfirvalda á þeim tíma að uppbygging heilsugæsluþjónustunnar hér í Reykjavík hefur gengið hægar en annars staðar.

Það var vegna mikilla deilna á milli Sjálfstfl. sem fór með stjórn borgarinnar og heilbrigðisyfirvalda um hvert skyldi stefna. Menn geta sent þennan reikning rakleiðis til þess flokks sem fer með forsrn. um þessar mundir.