Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 15:55:41 (2673)

1996-02-01 15:55:41# 120. lþ. 82.91 fundur 171#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[15:55]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ástandið á heilsugæslunni er enn einn áfellisdómurinn yfir ríkisstjórn Davíðs Oddssonar varðandi heilbrigðismálin. Heilsugæslan, frumþjónustan í heilbrigðiskerfinu er í uppnámi og þorri lækna búinn að segja upp störfum. Vissulega blandast í þetta mál óánægja heilsugæslulækna með stöðu sinna mála miðað við sérfræðilækna. En einnig snýst deilan um læknavakt sem heilsugæslulæknar í Reykjavík hafa skipst á að sinna. Læknarnir fá greitt fyrir hverja heimsókn eða vitjun. Rúmlega 20% þeirra sem fá til sín lækni frá læknavaktinni, eða fimmti hver sjúklingur, hefur ekki efni á að greiða fyrir vitjunina. Þetta kemur auðvitað niður á læknunum sem sinna þessu starfi þá endurgjaldslaust. Það segir einnig sína sögu að þetta eru fjárhagsaðstæður sjúklinga, þess hóps sem ríkisstjórnin hefur talið liggja hvað best við höggi ef marka má áherslur í fjárlögum. Hjá læknavaktinni er full skúffa af ógreiddum reikningum sem aldrei fást greiddir. Þess má einnig geta að 3% þeirra sem koma á heilsugæslustöðvar hér á höfuðborgarsvæðinu geta ekki greitt fyrir þá þjónustu sem þeir fá þar. Í Reykjavík eru nú um 9.200 manns án heilsugæslu eða heimilislæknis en fimm læknar á svæðinu geta bætt við sig sjúklingum, tæplega 1.500 manns. Samkvæmt þessum tölum vantar því heilsugæslulækna fyrir um 7--8 þúsund Reykvíkinga. Það er álíka fjöldi og allir íbúar Akraness og Borgarness samanlagt.

Álag á heilsugæsluna hefur aukist mjög nú þegar þrengt er að sjúkrahúsunum. Sérstaklega hefur álagið á heimahjúkrunina aukist og það mikið án þess að það hafi verið gert ráð fyrir auknu fé til hennar. Þessi ríkisstjórn hefur með aðgerðum sínum hleypt óvissu í framtíð heilbrigðisþjónustunnar og ráðist að kjörum almennings, þeirra sem þurfa að treysta á þjónustuna, á sama tíma og þeir reyna að sannfæra menn um góðæri og bjarta framtíð í efnahagslífi þjóðarinnar. Herra forseti. Ég er að ljúka máli mínu. Málefni heilsugæslunnar og stóru sjúkrahúsanna hér í Reykjavík verður ríkisstjórnin að leysa, ella blasir neyðarástand við.