Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 16:05:56 (2677)

1996-02-01 16:05:56# 120. lþ. 82.91 fundur 171#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[16:05]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Það eru vissulega alvarleg tíðindi að heilsugæslulæknar skuli hafa sagt upp störfum en hins vegar kannast ég ekki við að stjórnvöld hafi dregið úr mikilvægi heilsugæslunnar í heilbrigðiskerfi okkar. Heilsugæslustöðvar hafa verið byggðar upp um allt land. Það er alveg hárrétt sem kom fram í ræðu hv. fyrrv. heilbrrh. að hér hafa verið skiptar skoðanir um hve hratt ætti að fara í þessari uppbyggingu í Reykjavík og þetta er deila um skipulagsvanda en eigi að síður snýst deilan líka um peninga. Heilbrigðismálin og uppbygging þeirra snúast einnig um peninga. Hæstv. heilbrrh. hefur staðið í því stríði að takmarka útgjaldaaukninguna í heilbrigðiskerfinu því að þar er stöðug útgjaldaaukning og það verður auðvitað að takmarka hana ef við eigum að verja velferðarkerfið til frambúðar. Það er alveg ljóst. Hins vegar er stjórnarandstaðan og fleiri í kapphlaupi með það að leysa þessi mál í fjölmiðlum og í umræðum utan dagskrár á Alþingi. Ég held að þessi mál verði ekki leyst þannig og það leiðir til lítils nema einhverra sýninga í þessum sal. Ég held að allir verði að leggjast á eitt um að greina þessi mál sem best, koma á frambúðarskipulagi í heilbrigðismálum sem tryggi að hægt verði að halda þessum málaflokki til frambúðar þannig að velferðarkerfið í landinu sé tryggt og þeir fái lækningu og aðhlynningu sem á henni þurfa að halda án tillits til stéttar eða stöðu.