Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 16:08:30 (2678)

1996-02-01 16:08:30# 120. lþ. 82.91 fundur 171#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[16:08]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er staðið fyrir utandagskrárumræðu til þess að ræða hluta heilbrigðiskerfisins sem brennur á okkur í dag. Við hefðum þurft langa umræðu, jafnvel tveggja sólarhringa, til þess að ræða allar þær uppákomur sem þar hafa verið á undanförnum vikum og mánuðum. Við höfum ekki annan betri vettvang að ræða þessi mál en hér. Okkur er yfir höfuð ekki boðið að koma að þessum málum til þess að finna skynsamlegar lausnir og værum við þó til í það. Það er dálítið sérkennilegt að hlusta á menn segja: Það hefur ekkert verið skorið niður til heilsugæslu. Heilsugæslan hefur fengið að njóta sín og nokkrar heilsugæslustöðvar hafa verið byggðar upp og verið teknar í rekstur. Að vísu hefur tekið nokkur ár að byggja sumar þeirra. Úti á landi hefur verið byggt upp öflugt kerfi. Hér í Reykjavík er það hins vegar langt á eftir öllu því sem getur talist skynsamlegt.

Útgjöld til heilbrigðis- og tryggingamála í dag eru áætluð árið 1996 47,7 milljarðar kr., 47,7 milljarðar kr. Undirstaðan í heilbrigðismálum eru heilsugæslustöðvarnar. Þær eiga að fá (Gripið fram í: Þetta eru rangar tölur, það eru 50 milljarðar kr.) 47,7, þetta er beint frá fjmrn. Ef tölurnar eru ekki réttar held ég að þið ættuð að láta athuga hvernig vinnubrögðin eru í þessu ráðuneyti og þessari ríkisstjórn ef þið getið ekki einu sinni matreitt réttar tölur ofan í okkur. Það er alvarlegur hlutur. Það eru tæpir 1,7 milljarðar sem eiga að fara til heilsugæslunnar sem er undirstaðan í heilbrigðiskerfinu. Ég er ekki sátt við þessi svör vegna þess að þó að við sjáum ekki niðurskurð á tölunum þá höfum við heldur ekki aukið framlögin. Þrátt fyrir það að við erum að tala um aukið vægi þessarar þjónustu þá höfum við ekki aukið framlögin. Allur kostnaður innan heilsugæslunnar hefur hækkað, hvort sem það er tölvuvæðing, laun, þjónusta eða vörur. Þessu hefur verið mætt innan þessara fjárveitinga þannig að niðurskurðurinn er fyrir hendi. Ég hefði gjarnan viljað heyra það frá hæstv. ráðherra hvernig hún ætlar að svara heimilislæknum, læknum frá heilsugæslustöðvunum sem hafa nú sagt upp störfum fyrst og fremst til þess að mótmæla þeirri þróun sem hefur átt sér stað. Við búum við lög og það þarf ekkert endilega að endurskoða uppbygginguna og verkaskiptinguna. Það þarf að standa við lögin og gera heilsugæslustöðvunum kleift að vinna í samræmi við lög og þá verkaskiptingu sem þar kemur fram.