Starfsþjálfun í fyrirtækjum

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 16:14:57 (2680)

1996-02-01 16:14:57# 120. lþ. 82.7 fundur 210. mál: #A starfsþjálfun í fyrirtækjum# þál., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[16:14]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þál. sem flutt er af þeim sem hér stendur, ásamt hv. þm. Stefáni Guðmundssyni, Ólafi Erni Haraldssyni, Magnúsi Stefánssyni og Ísólfi Gylfa Pálmasyni.

Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta stefnu um starfsþjálfun er hvetji til aukinnar þátttöku fyrirtækja í verknámi framhaldsskólanema.``

[16:15]

Ástæður þess að þáltill. þessi er flutt eru margítrekuð dæmi um vandamál einstakra nema, ekki síst iðnnema, sem hafa átt erfitt með að fá starfsþjálfun í fyrirtækjum. Eins og ugglaust flestir vita er skipulag iðnfræðslu og starfsmennta að miklu leyti byggt upp þannig að hluti námsins fer fram í skóla en til þess að ljúka fullu námi þurfa nemendur síðan að sækja starfsþjálfun í viðurkenndum fyrirtækjum eða hjá meistara. Þar hafa einmitt komið upp vandamálin. Nemendur sem hafa lokið skólanámi hafa síðan staðið uppi án þess að komast á samning eða í starfsþjálfun og eru skildir eftir í lausu lofti, ef þannig má að orði komast. Þess vegna er þessi þáltill. flutt. Það má segja að gagnavart þeim nemendum sem hér hefur verið lýst þá sé núverandi fyrirkomulag afskaplega ranglátt og er fróðlegt að velta fyrir sér hvernig á því standi. Þar eru auðvitað margar skýringar og skal ekki dregið hér fram hver sú rétta er, enda ugglaust erfitt að finna eina skýringu. Það má velta því fyrir sér hvort um sé að ræða stýringu frá hagsmunaaðilum en ég hygg þó að meginatriðið sé skortur á samstarfi milli skóla, ríkisvaldsins og ekki síst atvinnulífsins sjálfs. Þarna er vert að hafa í huga framtíðina og þá ekki síður það frv. sem hér liggur fyrir þinginu og er til umræðu í hæstv. menntmn., frv. til laga um framhaldsskóla þar sem megináhersla er lögð á starfsmenntun. Starfsmenntun mun verða verulega snar þáttur í menntakerfi okkar í framtíðinni. Það er ljóst að mannfrekasta atvinnugrein á Íslandi í dag er þjónusta en þess gætir alls ekki í skólakerfinu. Þar mun verða breyting á og er þegar farið að sjá ýmis merki þess. En til þess að hægt sé að sinna starfsmenntun með þeirri reisn sem henni ber þá verður líka að skapa þau skilyrði að nemendur eigi greiðan aðgang að starfsmenntabrautum í skólum og í starfsþjálfun meðal fyrirtækja.

Einhverjir kunna að segja sem svo að eðlilegt sé að leysa þennan vanda með því að færa starfsþjálfun alla inn í skóla. Ég hygg að það sé óvarlegt að færa starfsþjálfun að öllu leyti inn í skólana. Það er röng leið bæði vegna þess að hún er afar kostnaðarsöm en þó ekki síst fyrir það að skólar munu aldrei, sama hversu góðir þeir eru, ná að endurspegla það sem gerist í raun úti í atvinnulífinu. Þróun og framfarir í atvinnulífinu er oft mun hraðari heldur en gerist í einstökum stofnunum ríkisins. Þess vegna er samstarf skóla og atvinnulífs ekki bara eðlilegt heldur líka bráðnauðsynlegt á þessu sviði. Það er hins vegar skylda ríkisvaldsins að finna heppilega og örugga leið gagnvart þeim nemendum sem hér er sérstaklega um fjallað. Tillagan gengur einmitt út á að ríkisstjórnin gangi fram í þessu máli og skapi það svigrúm að nemendum í iðnnámi og öðru starfsnámi verði tryggður eðlilegur grunnur að starfsnámi sínu þannig að við upphaf náms sjái þeir hvar og hvenær þeir muni geta lokið því. Áherslan verður á starfsmenntun og þetta er ein meginforsenda þess að sú stefna nái fram að ganga. Lausnirnar geta verið ýmsar. Hér er bent á í greinargerð með þáltill. m.a. að ríkið geti veitt fyrirtækjum beina styrki til að taka nemendur í starfsþjálfun. Þá er jafnframt bent á þann möguleika að veita fyrirtækjum sérstaka skattívilnanir fyrir að taka nemendur í starfsþjálfun. Þá má enn fremur benda á þá leið sem Danir hafa farið. Danir standa mjög framarlega í starfsmenntun fyrir atvinnulífið en þeir hafa farið þá leið að skattleggja öll starfandi fyrirtæki með ákveðinni prósentu af veltu eða broti úr prósentu. Sá skattstofn rennur allur í starfsmenntasjóð og fá síðan þau fyrirtæki sem taka nemendur í starfsþjálfun endurgreitt úr þeim sjóði. Ég bendi á þessar leiðir en þáltill. gerir ráð fyrir því að mótuð verði skýr stefna á þessu sviði. Við verðum að finna leið þannig að starfsmenntun verði eftirsóknarverð. Hún er lykilatriði í framförum fyrir efnahagslíf okkar.

Ég vil, herra forseti, að lokum beina þessari þáltill. til hæstv. menntmn.