Starfsþjálfun í fyrirtækjum

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 16:26:46 (2682)

1996-02-01 16:26:46# 120. lþ. 82.7 fundur 210. mál: #A starfsþjálfun í fyrirtækjum# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[16:26]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að hreyfa þessu máli. Ég tel að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða, þ.e að reyna að gera allt til þess að treysta stöðu starfsmenntunar í landinu. Það sem ég gagnrýndi einmitt hvað harðast þegar framhaldsskólafrumvarpið sem nú liggur fyrir hv. menntmn. var lagt fram var að mér fyndist ekki nægilega föst tök á starfsnáminu eins og það er fyrirhugað í framhaldsskólafrumvarpinu. Ef þær upplýsingar sem koma fram í greinargerð þessarar tillögu eru réttar er um verulegan annmarka á núverandi framkvæmd á iðnnámi að ræða og mér er spurn hvort þörf sé á að flytja um þetta sérstakt mál. Auðvitað eru lög í gildi um bæði iðnnám og framhaldsnám yfirleitt og það er mjög alvarlegur hlutur ef nemar geta ekki lokið sínu námi vegna þess að það skortir á starfsþjálfun. Þess vegna vil ég spyrja hv. flm. hvort hann telji ekki að hægt sé að sameina kjarna þessa máls, þ.e. að koma á opinberum stuðningi við starfsþjálfun í fyrirtækjum, við það frv. sem núna liggur fyrir um framhaldsskólann og jafnvel að koma þessu á nú þegar. Það eru nú þegar nægar lagaheimildir til þess að koma þessu í lag. Það er gjörsamlega óviðunandi ástand að bjóða fólki upp á nám sem það getur svo ekki lokið vegna skorts á samvinnu við fyrirtæki eða starfsþjálfun innan skólanna.

Ég vil þakka það að þetta mál er tekið hér upp og vona að það fái góða lendingu í hvaða formlega farvegi sem það verður.