Starfsþjálfun í fyrirtækjum

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 16:36:11 (2685)

1996-02-01 16:36:11# 120. lþ. 82.7 fundur 210. mál: #A starfsþjálfun í fyrirtækjum# þál., Flm. HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[16:36]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir hans innlegg. Það mál sem hann endaði sína ræðu á um viðhorf til iðnmenntunar þarfnast í rauninni mikillar umræðu þó að hún fari að sjálfsögðu ekki fram núna. En ég geri ráð fyrir að sú umræða muni líka fara fram þegar frv. til laga um framhaldsskóla kemur til 2. umr.

Hv. þm. nefndi tölur í samanburði við nágrannaríki okkar þar sem í ljós kemur að upp undir 70% af nemendum sem fara í framhaldsskóla stefna að háskólanámi en rétt rúmlega 30% sem stefna að iðnnámi eða starfsnámi. Þetta er öfugt hlutfall við það sem gerist í nágrannaríkjum. Á þessu eru margar skýringar en afleiðingin er augljós. Hún veikir efnahagslíf okkar. Hún gerir atvinnuvegina veikari. Við höfum ekki borið gæfu til að fjárfesta í menntun og er þar við marga að sakast. Er ástæðulaust að fara í sögulega skoðun á því. Þessu þarf að breyta.

Við skulum skoða örfá atriði sem þessu eru tengd. Fyrst er það að ungur nemandi sem stendur frammi fyrir vali á námsbrautum í framhaldsskóla á um afskaplega fáa kosti að velja af ástæðum sem ég nefndi í fyrri ræðu. Atvinnulífið er ekki sýnilegt. Skólarnir endurspegla ekki atvinnulífið, samanber mannfrekustu atvinnugreinina, þjónustuna sem er nánast ekki til í skólakerfinu. Það erþví eðlilegt að nemendur velji sér ekki starfsmenntabrautir þegar þær eru ekki til í takt við atvinnulífið.

Í öðru lagi er annar þáttur sem ég hef áður nefnt í þessum ræðustól. Það er þáttur fjölmiðla í að hampa stúdentsprófi. Minni ég þar enn á ,,vorboðann ljúfa`` ef svo má kalla. Þegar fjölmiðlar greina frá brautskráningu framhaldsskólanna er myndum og frásögnum af stúdentum nánast undantekningarlaust hampað meðan sjúkraliða, vélstjóra, iðnnema og annarra sem stunda starfsnám er varla getið. Að auki kemur það til að ýmsar starfsgreinar hafa verið í vaxandi mæli að færast á háskólastig. Það hefur verið þróun hjá okkur. Niðurstaðan af þessu er þá sú að atvinnulífið hefur ekki viljað þröngva sér inn í skólana. Í starfi mínu sem skólameistari varð ég lítið var við þrýsting frá atvinnulífinu um að skólinn tæki að þjóna því en á því er að verða breyting.

Í þriðja lagi feykir söngur fjölmiðla og þróunin að færa starfsnám upp á háskólastig nemendum nánast þangað. Ég vek líka athygli á því að meiri hluti nemenda sem lýkur stúdentsprófi fer ekki einu sinni í háskólanám heldur klórar sér í hvítum kollinum og athugar sinn gang. Sumir fara þá 20 ára gamlir að hefja iðnnám. Ég hygg að á þessu séu að verða breytingar og er kunnugt um að í framhaldsskólum landsins er ötullega verið að vinna að breytingum, þróa nýjar starfsmenntabrautir og það sem skiptir mestu máli, að taka upp fomlegt samstarf við fulltrúa atvinnulífsins. Það er í rauninni meginandinn í frv. til laga um framhaldsskóla sem liggur fyrir þinginu.

Ég vona að þáltill. sem er til umræðu geti styrkt starfsþjálfun. Það er tilgangur hennar. Ég vil um leið þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls og lýst stuðningi við málið.