Starfsþjálfun í fyrirtækjum

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 16:43:15 (2687)

1996-02-01 16:43:15# 120. lþ. 82.7 fundur 210. mál: #A starfsþjálfun í fyrirtækjum# þál., PHB
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[16:43]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég vil þakka flm. frv. mjög merkt mál. Ég tek undir það með öðrum hv. ræðumönnum að það er mjög nauðsynlegt að þjóðin hefji verkmenntun eða starfsþjálfun til meiri virðingar en verið hefur. Það er mjög mikilvægt fyrir atvinnulífið að hér sé vel menntað fólk í þeim störfum sem það sinnir. Sérstaklega er skortur á menntuðu fólki, eins og fram hefur komið, í þjónustunni.

En það sem ég vildi koma inn í þessa umræðu er það að menn hafa talað um að fyrirtæki hafi ekki viljað taka nema og þá kann maður að spyrja: Af hverju stafar það? Skyldi það geta verið að iðnnemar hafi samið aðra út úr stéttinni með því að semja um kjör fyrir vinnu sína sem eru svo há að fólk kemst ekki í námið? Nú er það þannig að iðnnemi fær að mér skilst verkamannalaun þegar hann starfar við fyrirtæki. Það má segja að það virki á tvennan máta. Í fyrsta lagi. Fyrirtæki eru treg að taka iðnnema eingöngu til þess að kenna þeim því að sá maður er of dýr. Fyrirtækið hefur ekki efni á að taka lærling sem þarf að eyða tíma og orku í að kenna hluti og auk þess að borga honum laun eins og hverjum öðrum verkamanni.

Hins vegar getur þetta líka leitt til þess að þeir sem eru nú þegar iðnnemar verði misnotaðir sem verkamenn vegna þess að þeim er greitt sem slíkum. Það sem þarf því kannski að líta á er að í staðinn fyrir að biðja um styrki og skattívilnun frá ríkinu er spurning hvort það ætti að heimila nýjum iðnnemum að semja sig frá þessum kjarasamningum sem iðnnemar eru búnir að gera og útiloka ungt fólk frá því að komast í iðnnám.